Mikill uppgangur ferðaþjónustunnar hefur breytt íslenska hagkerfinu. Áhrif á vöru- og þjónustujöfnuð hagkerfisins hafa verið verulega jákvæð og er gjaldeyrisinntreymið frá erlendum ferðamönnum verulegt og fer stöðugt vaxandi.
Engin atvinnugrein skapar meiri gjaldeyri fyrir hagkerfið, og ólíkt því sem var þegar gjaldeyrir streymdi til landsins í formi lánsfjár, þá fer gjaldeyrinn frá ferðamönnunum fyrst og síðast beint inn í hagkerfið og verður þar eftir. Í formi launa og fjárfestingar, margfeldisáhrifa.
Talið er að á þessu ári muni gjaldeyrisinnspýtingin frá ferðamönnum nema í það minnsta 500 milljörðum króna og að fjöldi ferðamanna fari úr 1,8 milljónum í fyrra í 2,3 milljónir. Í fyrra var gjaldeyrissköpun greinarinnar um 430 milljarðar, að mati greinenda, en endanlegar tölur liggja þó ekki fyrir um það.
Mikil styrking
Í fyrra styrktist gengi krónunnar um 18,4 prósent að meðaltali gagnvart helstu viðskiptamyntum. Evran kostar nú 122 krónur og Bandaríkjadalur aðeins minna, eða 114 krónur. Nú í byrjun árs hefur krónan veikst lítið eitt og nam veikingin í dag 1,08 prósent gagnvart evru í dag og 0,47 prósent gagnvart Bandaríkjadal.
Gera má ráð fyrir að kjaradeilur og verkfall sjómanna hafa nokkur áhrif á gjaldeyrisinnstreymi til landsins þessi misserin, enda sjávarútvegurinn í hálfgerðu lamasessi þessi misserin vegna verkfallsins. Sjómenn hafa slitið viðræðum en líklegt má telja að þær hefjist að nýju áður en langt um líður.
Mesta styrking í áratugi
Í Hagsjá Landsbankans segir styrking krónunnar að undanförnu sé sú mesta í áratugi, en á síðustu fjórum árum hefur gengi krónunnar styrkst. „Á árabilinu 1961 til 1990 hækkaði verð erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu um 20,2% að meðaltali á hverju ári. Á tímabilinu 1961 til 1970 var þessi hækkun að meðaltali 8,7% og skar það sig töluvert frá annars vegar tímabilinu 1971-1980 og hins vegar 1981-1990. Frá 1991 til dagsins í dag hefur verðhækkun erlendra gjaldmiðla gagnvart krónu verið að meðaltali 1,7%. Hún var 1% frá 1991 til 2000 en 6,7% frá 2001 til 2010. Frá árinu 2011 hefur verðið lækkað um að meðaltali 2,6% á ári,“ segir í Hagsjánni.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hefur sjálfur bent á að mesta hættan sem hagkerfi Íslands stendur frammi fyrir sé vegna ofhitnunar. Þar er gengisstyrkning krónunnar sérstaklega áhrifamikill þáttur. Í grein Más frá 30. desember síðastliðnum, sem birt er á vef Seðlabanka Íslands, segir hann að hagkerfið sé mun betur statt nú en oft áður til að takast á niðursveiflur. „Við höfum áður gengið í gegnum hátoppa atvinnu og kaupmáttar samfara vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum. Það hefur oftar en ekki endað illa þar sem margvíslegt ójafnvægi í þjóðarbúskapnum magnaðist að því marki að snörp aðlögun varð ekki umflúin. Nú bregður hins vegar svo við að jafnvægið í þjóðarbúskapnum er þrátt fyrir allt mun betra en oft áður. Mæld verðbólga er undir verðbólgumarkmiði en væntingar fólks og fyrirtækja um verðbólgu framtíðarinnar eru við það. Sparnaður heimila og þjóðabús er mun meiri nú en oftast áður á þessu stigi hagsveiflunnar og meðal annars af þeim sökum er verulegur afgangur á viðskiptum okkar við útlönd,“ sagði Már meðal annars.
Hann segir þó að vissulega geti of mikil styrking krónunnar valdið vandræðum. „Hvað með mikla styrkingu krónunnar? Felst ekki mesta áhættan í henni? Til að svara þeirri spurningu þarf að glöggva sig á ástæðum hærra gengis. Augljóst virðist að hún sé fyrst og fremst afleiðing þeirrar þróunar sem ég hef hér gert að umtalsefni, sérstaklega á seinni hluta ársins. Þannig varð á þriðja ársfjórðungi met viðskiptaafgangur sem á fyrst og fremst rætur að rekja til afgangs á þjónustuviðskiptum. Á sama tíma var fjármagnsinnstreymi sáralítið. Á heildina litið hafa aðgerðir Seðlabankans á árinu unnið á móti styrkingu gengisins. Sérstök bindiskylda á fjármagnsinnstreymi inn á skuldabréfamarkað og í innstæður hefur nánast stöðvað vaxtamunarviðskipti. Þá hafði bankinn síðastliðinn þriðjudag keypt gjaldeyri á árinu fyrir 385 ma.kr. sem er rúmlega 40% meira en á metárinu 2015. Krónan getur þó vissulega ofrisið og það styður þá varfærni sem felst í miklum gjaldeyriskaupum þrátt fyrir að ekki sé með óyggjandi hætti hægt að fullyrða að gengið sé komið mikið yfir jafnvægi miðað við ríkjandi aðstæður,“ sagði Már.
Annar veruleiki
Óhætt er að segja ekki séu allir sammála seðlabankastjóra í því hvernig eigi að haga peningastefnunni í þeim aðstæðum sem nú eru uppi. Valdimar Ármann, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, sagði í viðtali við Markaðinn á dögunum að Seðlabankinn væri með vextina alltof háa, en meginvextir bankans eru nú 5 prósent á meðan verðbólgan er 1,9 prósent. Hann sagði háa vexti ekki þjóna neinum tilgangi við þessar aðstæður, og þá væri augljóst að vöxturinn í ferðaþjónustunni hefði breytt hagkerfinu. Styrking krónunnar væri óhjákvæmileg. „Núna er hagvöxtur drifinn áfram af nýrri og ört vaxandi gjaldeyrisskapandi atvinnugrein auk þess sem þjóðhagslegur sparnaður heldur áfram að aukast umtalsvert. Það er því erfitt að sjá hvaða þörf er á því að halda vöxtum jafn háum og raun ber vitni enda virðist þessi breytta samsetning hagkerfisins þýða að það er í jafnvægi við mun hærra gengi krónunnar en við höfum áður þekkt í íslenskri hagsögu,“ sagði Valdimar.
Útflutningshliðin viðkvæm
En hvar liggur gengisstöðugleikinn? Það er ekki gott að segja. Fari svo að Seðlabanki Íslands beiti sér ekki eins mikið á gjaldeyrismarkaði á þessu ári eins og hann gerði í fyrra þá gæti gengi krónunnar styrkst mikið og hratt. Bandaríkjadalur myndi þá kosta innan við 100 krónur og evran sömuleiðis. Vandi er um þetta að spá, enda eru enn í gildi fjármagnshöft á fjármagnshreyfningar til og frá landinu. Hið eiginlega markaðsgengi á krónunni liggur því ekki fyrir.
Útflutningsfyrirtæki hafa mikilla hagsmuna að gæta hvað þessa þróun varðar, og þar með hagkerfið allt. Það gæti orðið sársaukafull aðlögun fyrir mörg fyrirtæki ef að gengi krónunnar mun styrkjast stöðugt samhliða miklu vexti í ferðaþjónustu. Til lengdar litið er einnig töluverð hætta á því að Ísland verði of dýrt fyrir marga erlenda ferðamenn. Með tilheyrandi efnahagsdýfu hér á landi.
Grunnurinn til að takast á við niðursveiflu er þó annar og betri nú en oft áður, ekki síst vegna þess að Íslendingar eiga nú meiri eignir erlendis en þeir skulda. Þá hefur staða ríkissjóðs einnig gjörbreyst til hins betra á skömmum tíma, ekki síst vegna uppgjörs slitabúa föllnu bankanna. Verðbólga hefur einnig haldist í skefjum og undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði í 35 mánuði í röð, og lagt grunninn að kaupmáttaraukningu hjá almenningi. Þá hefur fasteignaverð hækkað hratt en í fyrra var hækkunin um 15 prósent á höfuðborgarsvæðinu.