Bankaráð Seðlabanka Íslands gerir ekki athugasemd við þá afstöðu stjórnenda bankans að veita ekki upplýsingar um hverjir það eru sem nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands til að flytja fé inn í íslenskt hagkerfi. Stjórnendur Seðlabankans hafa alla tíð neitað að veita upplýsingar um þá sem nýttu sér leiðina og vísað í 35. grein laga um bankann um þagnarskyldu því til stuðnings. Þar segir að bankaráðsmenn, stjórnendur og aðrir starfsmenn Seðlabanka Íslands séu bundnir þagnarskyldu „um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs.“
Kjarninn hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina en ávallt fengið neitun byggða á ofangreindum rökum. Í kjölfar birtingar á skýrslu sem kortlagði aflandsfélagaeignir og skattaundanskot Íslendinga, þar sem fjallað var sérstaklega um fjárfestingaleiðina, var sú beiðni lögð frá á ný og þess sérstaklega óskað að bankaráð Seðlabanka Íslands tæki afstöðu til hennar.
Fyrirspurnin lögð fyrir á fundi bankaráðs 19. janúar 2017 og samkvæmt svörum Seðlabanka Íslands hafði bankaráðið engu við fyrri svör að bæta. „Í þessu felst að bankaráðið gerði ekki athugasemd við svar bankans hvað þetta tiltekna atriði varðar,“ segir enn fremur í svarinu.
Fjárfestingarleiðin til umfjöllunar í skýrslu um aflandseignir
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Í gegnum þau komu um 1.100 milljónir evra til landsins, sem samsvarar um 206 milljörðum króna. Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Í skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, sem birt var í byrjun janúar, er fjallað um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandssvæðum, sem orðið hafi til með ólögmætum hætti, hafi skilað sér Íslands með gengisafslætti í gegnum fjárfestingarleiðina.
Orðrétt segir í skýrslunni: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“
Engar tilkynningar sendar
Í kjölfarið spurðist Kjarninn fyrir um það hjá Seðlabanka Íslands og viðskiptabönkunum fjórum um hvort einhverjar tilkynningar hefðu verið sendar til peningaþvættisskrifstofu (Financial Intelligence Unit). Seðlabankinn sagði að það væri ekki í verkahring hans að gera slíkt heldur ættu viðskiptabankarnir að staðfesta áreiðanleika sinna viðskiptamanna áður en þeir fengu að nýta fjárfestingaleiðina.
Þrír bankanna: Íslandsbanki, Arion banki og Landsbanki Íslands, vildu ekki svara því hvort þeir hefðu sent einhverjar tilkynningar til peningaþvættisskrifstofunnar vegna gruns um að einhverjir úr viðskiptamannahópi þeirra hafi þvættað peninga með því að nýta sér fjárfestingarleiðina. Kvika banki sagðist ekki hafa sent neinar slíkt tilkynningar.
Embætti héraðssaksóknara, en peningaþvættisskrifstofan heyrir undir það, sagði í svari við fyrirspurn Kjarnans að eftir því sem næst verður komist þá hafi ekki borist neinar tilkynningar frá fjármálafyrirtækjum vegna fjárfesta sem nýttu sér fjárfestingarleiðina.