Frönsk stjórnmál eru uppnámi þegar rétt þrír mánuðir eru til forsetakosninga. Margir eru logandi hræddir við vaxandi fylgi hægri-öfgaflokksins, Þjóðfylkingarinnar, með Marine Le Pen í broddi fylkingar. Hún heitir því að Frakkland yfirgefi Evrópusambandið og Evruna komist hún til valda. Vinsældir hennar hafa eflst jafnt og þétt á meðan helstu andstæðingar hennar hafa verið að veikjast.
Fyrri umferð kosninganna er 23. apríl. Ef enginn fær meirihlutakosningu er kosið aftur 7. maí þar sem tveir efstu frambjóðendurnir takast á. Eins og staðan er núna er líklegt að það verði Marine Le Pen og íhaldsmaðurinn François Fillon. Það er hægri bylgja í Frakklandi eftir vandræðagang vinstri manna og miklar óvinsældir forsetans François Hollande. En skoðum hvað er í boði – hér er fólkið sem berst um forsetastólinn:
François Fillon
Það þótti nokkuð óvænt þegar Fillon var valinn frambjóðandi Lýðveldisflokksins síðast liðinn nóvember og skaut sjálfum Nicolas Sarkozy, fyrrum forseta Frakklands, ref fyrir rass. Með þunga íhaldssama, hægri stefnu og hárbeitta gagnrýni á sósíalistann Hollande, óvinsælasta forseta sögunnar, hefur þessi þaulreyndi þingmaður og fyrrum ráðherra, en kannski frekar þurri maður, skotist upp á stjörnuhimininn og verið vinsælasti frambjóðandinn í skoðanakönnunum undanfarna mánuði. Hann hefur sjálfsagt talið sig vera kominn með annan fótinn inn fyrir frönsku forsetahöllina – en þá dró skyndilega ský fyrir sólu.
Í byrjun árs birti háðsádeilublaðið Le Canard Enchaîné frétt um að eiginkona hans, Penelope Fillon, hefði fengið rúmlega 60 milljónir króna fyrir starf sem aðstoðarkona eiginmanns síns í þinginu. Starf sem enginn virðist raunar kannast við. Fillon-hjónin hafa margsinnis sagt að Penelope sé heiðarleg og heimavinnandi húsmóðir og ekki útivinnandi. Svo þetta kom á óvart. Andstæðingar hans hrópa: pólitískt hneyksli og spilling!
Það lítur þannig út að François hafi búið til þetta starf til málamynda fyrir eiginkonu sína. Hann hefur verið kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu vegna gruns um stjórnsýslubrot. Hann neitar öllum ásökunum og verst af öllum mætti. Segir eiginkonu sína hafa verið sinn helsti aðstoðarmaður í gegnum árin; hún hafi unnið mikið og fórnfúst starf og sjálfsagt að hún fái greitt fyrir það. Hann talar auk þess um kvenfyrirlitningu og lygaþvætting. En ef til ákæru kæmi er hann úti sem frambjóðandi Lýðveldisflokksins. Þetta mál hefur þá þegar stórskaðað hann; flokksfélagarnir eru í óða önn að gera upp við sig hvort þeir eigi að skipti honum út – en þá fyrir hverjum? Tíminn er naumur. Þetta mál geti gjörbreytt stöðunni í kosningabaráttunni.
Emmanuel Macron
Undrabarnið í frönskum stjórnmálum; ofurheilinn Emannuel Macron er 39 ára gamall, framagjarn, klókur og hugrakkur stjórnmálamaður. Hann er Svarti Pétur í þessum slag; maður hinna mörgu andlita. Klauf sig frá sósíalistum og hætti sem viðskiptaráðherra á kjörtímabilinu og ákvað að fara sínar eigin leiðir, stofnaði hreyfinguna En Marche! eða Áfram Gakk! Hann var einn helsti aðstoðarmaður og náinn samstarfsmaður forsetans. Þetta þótti því djörf ákvörðun.
Fylgi hans hefur farið vaxandi; hann kemur vel fyrir, snjall penni og ræðumaður. Hann segist hvorki vera til vinstri né hægri, það séu úreltar hugmyndir í stjórnmálum. En vinstri menn segja hann dæmigerðan tæknikrata og fyrirgefa honum seint fyrir að vera aðal höfundur nýrrar, umdeildrar vinnulöggjafar sem var keyrð í gegn með miklum látum. Verkalýðsarmurinn í Sósíalistaflokknum uppnefnir hann Brútus og telur hann tækifærissinna og furðufugl. Hann á hins vegar möguleika á að komast áfram í aðra umferð og þannig gætu bæði hægri og vinstri menn sæst á að kjósa hann til að halda Front National frá völdum. Emmanuel Macron yrði þá yngsti forsetinn í sögu lýðveldisins.
Marine Le Pen
Eftir vandræðagang sósíalista og ófarir Fillon síðast liðnu daga vex formaður Þjóðfylkingarinnar eins og púkinn á fjósbitanum. Hún er Donald Trump Frakklands; hægri öfgakona sem talar fyrir róttækum breytingum, hertari stefnu gegn innflytjendum og múslimum. Hún hefur stillt upp forsetakosningum sem val um Evrópusambandið. Hún vill slíta samstarfinu og henda evrunni. Nú sé annað Brexit í uppsiglingu – eða Frexit. Komist hún til valda er því framtíð Evrópusambandsins í algjöru uppnámi.
Hins vegar er staða hennar í flokknum síður en svo trygg. Þar eru erjur og fjölskyldudeilur sem helst minna á sápuóperu. Ber þar hæst dramatískar deilur hennar við föður sinn Jean Marie Le Pen. Hann er stofnandi og heiðursforseti Þjóðfylkingarinnar, þrátt fyrir að dóttir hans hafi rekið hann úr flokknum 2015 fyrir endalausar uppákomur og öfgafull ummæli um gyðinga og múslima. Hún þykir hófsamari en hann og hefur þannig náð til breiðari hóps. Jean Marie Le Pen komst í seinni umferð forsetakosninganna 2002, gegn Jacques Chirac. Þá flykktust vinstri menn og kusu hinn óvinsæla hægri mann Chirac til þess að halda Le Pen frá völdum.
Eftir að Marine Le Pen rak kallinn úr flokknum hefur hann unnið gegn dóttur sinni. Gagnrýnt hana harðlega og lagt ríka áherslu á að hinn rétti og sanni arftaki hans í flokknum sé litla frænkan Marion Maréchal-Le Pen, rétt rúmlega tvítugur þingmaður Þjóðfylkingarinnar, sem er mun öfgafyllri en stóra frænkan sem leiðir flokkinn.
En Marine Le Pen er foringinn og þekktasta andlit hægri öfgaflokka í Evrópu. Með 27% fylgi í skoðanakönnunum, sem hefur aukist í kjölfar hryðjuverka. Menn óttast að önnur árás gæti gjörbreytt stöðunni og hreinlega fleytt henni í forsetahöllina. Það myndi þýða nýja (og sumir segja ógnvænlega) tíma í frönsku þjóðlífi og jafnvel Evrópu.
Benoît Hamon
Það kom öllum að óvörum þegar Hamon bar sigur úr býtum í forvali Sósíalistaflokksins 29. janúar síðast liðinn. Hann er frambjóðandi vinstri manna í forsetakosningunum. Hamon hætti sem menntamálaráðherra í ríkisstjórninni fyrir tveimur árum og var þar með gerður útlægur af foringjunum Francois Hollande og Manuel Valls. Nú hefur verið gerð hallarbylting, hann tekið yfir og hent þeim út. Þetta er hálfgerð ævintýrasaga í pólitíkinni. Það getur reynst árangursríkt þegar menn þora að reiða til höggs, taka áhættu í stjórnmálum. Hamon boðar nýja tíma, nýjar aðferðir og er vægast sagt mjög róttækur sósíalisti.
Sérfræðingar spyrja: Mun fólk almennt kjósa þennan mann? Loksins alvöru sósíalisti sem stendur með launafólki segja sumir, en brjálæðingur að mati annara. Hann er stundum kallaður „Bernie Sanders Frakklands“. Vill fara aftur í ræturnar og talar fyrir hreinni stéttapólitík. 49 ára gamall, vill lögleiða kannabis, skattleggja sérstaklega fyrirtæki með vitvélar, innleiða borgaralaun sem væri þá 750 evrur á mánuði eða um 100.000 krónur, óháð tekjum. Svo vill hann stytta vinnuvikuna niður í 32 stundir. Hann er líklegur til alls og það var í raun ótrúlegt að sjá hann leggja af velli í forvalinu hinn gríðarsterka sjórnmálamann, Manuel Valls – fyrrum forsætisráðherra og um tíma vinsælasti stjórnmálamaður Frakklands.
Sósíalistar hafa verið í mikilli krísu – fylgi þeirra hefur hrunið og hreyfingin er margklofin, eins og gerst hefur víða í Evrópu. Það er ólga í Frakklandi; atvinnuleysi er mikið, ójöfnuður fer vaxandi og það er mikil gremja víða. Hamon segir að nú sé tími til þess að fara aftur í ræturnar og boðar alvöru sósíalisma. Þegar Hamon var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Hollande var hann afar og gagnrýninn og mótmælti harðlega stefnu forsetans, þótti hún of hægri sinnuð og gekk úr samstarfinu.
Þegar forvalið hófst, fyrir tveimur mánuðum, þótti Hamon ekki líklegur til afreka. Ungur, róttækur, reynslulaus. Enginn af toppunum í flokknum studdi hann. En svo tók hann þetta. Nú hafa margir sósíalistar yfirgefið flokkinn og fært sig yfir til Þjóðfylkingarinnar; yfir í öfga hægrið sem er ráðgáta fyrir marga stjórnmálaheimspekinga. En Hamon segir að sósíalistaflokkurinn franski hafi sjálfur yfirgefið verkalýðinn og nú sé kominn tími til að tala aftur við og vinna fyrir almenning. Hann segist ætla nútímavæða Frakkland þar sem miklar breytingar eru fram undan; stafræna byltingin sé rétt að hefjast og róbótar eða vitvélar eigi eftir að gjörbreyta atvinnulífinu. Margir eigi eftir að missa vinnuna. Þessar breytingar kalli á nýja hugsun. Ef ekkert verði gert og það strax taki við hryllingur. Frakkland breytist í þjóðfélag sem helst má finna líkingu við í vísindaskáldsögum á borð við 1984.
Hins vegar gæti stefna Hamon haft hryllilegar afleiðingar fyrir franskt efnahagslíf og endanlega farið með ríkissjóð sem stendur höllum fæti. Eins og staðan er núna er hann ekki líklegur og skorar ekki hátt í skoðanakönnunum. En fréttir af nýjum forseta Bandaríkjanna eru þá þegar farnar að hreyfa við kjósendum í Frakklandi og margir spá því að róttæk vinstri stefna eigi jafnvel eftir að höfða til fólks í auknum mæli í komandi kosningum.
Eins og staðan er núna getur því allt gerst.