Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar vill leggja áherslu á það að hámarksfjárhæðir fæðingarorlofs verði hækkaðar „í öruggum skrefum“ á næstu fjórum árum á meðan þingmenn VG hafa lagt fram frumvarp um lengingu fæðingarorlofsins í eitt ár.
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ætlar að leggja fram frumvarp um hækkun á fæðingarorlofsgreiðslum á þessu þingi. Hann hefur sagt að það sé forgangsmál að hækka greiðslurnar, en ekki lengja orlofið. Þegar hann var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins lögðust samtökin gegn því að fæðingarorlofið yrði lengt í ár. Kjarninn hefur sent fyrirspurn um það hvort ráðherrann sé mótfallinn lengingu á fæðingarorlofi, en ekki fengið svar við þeirri fyrirspurn. Einnig var spurt um það hvaða upphæðir væru í spilinu fyrir hámarksgreiðslur.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur þó fram að vinna þurfi markvisst að því að tryggja börnum leikskóla- eða dagvist þegar fæðingarorlofi sleppir, með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga. Ekki kemur fram með hvaða hætti þetta á að gera, né hvort stjórnvöld vilji þá að slík vistun yrði í boði frá níu mánaða aldri.
Frumvarp félagsmálaráðherra á að líta dagsins ljós í mars, en frumvarp frá þingmönnum VG um lengingu fæðingarorlofsins var rætt í fyrstu umræðu á þinginu í gær. Samkvæmt því myndi fæðingarorlof fara í tólf mánuði í tveimur þrepum á árunum 2018 og 2019. Hvort foreldri um sig myndi fá fimm mánuði í orlof, og tveir mánuðir yrðu sameiginlegir og fólk gæti skipt þeim á milli sín. Þetta er í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum. Þingmenn VG vilja að hærra hlutfall tryggingargjalds verði notað til að fjármagna lenginguna, enda sé lengra fæðingarorlof mikilvægt velferðarmál ungra fjölskyldna.
Ákveðið að hækka með reglugerð
Fæðingum hefur fækkað verulega á Íslandi undanfarin ár. Til þess að viðhalda mannfjölda til langs tíma þarf hver kona að fæða 2,1 barn, en hlutfallið hér á landi er farið niður fyrir 1,8 börn á hverja konu. Samkvæmt bráðabirgðatölum frá heilbrigðisstofnunum fæddust 3.877 börn í fyrra hér á landi, en árið 2015 voru þau 4.098 og 4.292 árið 2014.
Eygló Harðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, ákvað með reglugerð í október í fyrra að hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi yrðu hækkaðar í 500 þúsund krónur. Þetta var gert eftir að ljóst var að hún myndi ekki ná í gegn frumvarpi til breytinga á lögum um fæðingarorlof, sem byggði á tillögum starfshópsins sem hún skipaði árið 2014 til að móta framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum málum. Samkvæmt því frumvarpi átti að hækka hámarksgreiðslur í 600 þúsund krónur, auk þess sem lengja átti fæðingarorlofið í áföngum í eitt ár. Ákvörðun Eyglóar var umdeild, ekki síst meðal nýbakaðra foreldra sem eignuðust börn rétt áður en breytingarnar tóku gildi þann 15. október.
Starfshópurinn sem Eygló skipaði lagði ennfremur til að fyrstu 300 þúsund krónurnar af tekjum þeirra sem fara í fæðingarorlof yrðu óskertar. Þannig myndu lægst launuðu foreldrarnir halda 100 prósent af tekjum sínum, en ekki fá 80 prósent eins og nú er.
Hækkunin gagnast feðrum en fæstum mæðrum
Ef farið hefði verið að tillögum starfshópsins, og fyrstu 300 þúsund krónurnar sem nýir foreldrar afla yrðu óskertar, þá myndu greiðslur til þeirra sem hafa hærri laun en 300 þúsund líka aukast umtalsvert. Þannig myndu þeir sem eru með tekjur á milli 300-400 þúsund fá 97 prósent launa sinna í fæðingarorlofi, þeir sem þéna 400-500 þúsund fá 93 prósent og þeir sem þéna 500-750 þúsund krónur fá 90 prósent launa að meðaltali á mánuði.
Alls eru rúmlega 80 prósent þeirra mæðra sem tóku fæðingarorlof fyrstu níu mánuði ársins í fyrra með mánaðartekjur undir 500 þúsund krónum á mánuði, en 42 prósent þeirra voru með 300 þúsund eða minna á mánuði. 44 prósent feðra sem tóku orlof voru hins vegar með tekjur yfir 500 þúsund krónur á mánuði.
Í byrjun árs 2008 voru hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 535.700 krónur. Ef þær greiðslur hefðu fylgt vísitölu neysluverðs – sem mælir verðbólgu – þá væru hámarksgreiðslur úr sjóðnum í janúar 2017 828.160 krónur. Svo er hins vegar ekki.
Strax í byrjun árs 2009 voru hámarksgreiðslurnar skertar í 400 þúsund krónur og svo lækkaðar niður í 350 þúsund krónur sumarið 2009, eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum. Í byrjun árs 2010 voru hámarksgreiðslurnar enn lækkaðar og nú niður í 300 þúsund krónur. Þær voru hækkaðar upp í 350 þúsund krónur á lokametrum vinstristjórnarinnar og svo upp í 370 þúsund krónur í byrjun árs 2014, eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum. Undir lok kjörtímabilsins voru greiðslurnar hækkaðar í 500 þúsund, en greiðslurnar hafa ekki fylgt hækkunum á vísitölu neysluverðs.
Horfum á kerfið hrynja
Þessar skerðingar eru taldar ein meginástæða þess að fæðingarorlofstaka feðra hefur minnkað verulega á árunum eftir hrun. Þegar þakið var hæst árið 2008 voru umsóknir feðra um fæðingarorlof 90% af umsóknum mæðra. Árið 2014 var þetta hlutfall komið niður í 80%. Færri feður taka fæðingarorlof og þeir sem taka fæðingarorlof gera það í mun færri daga en þegar mest var. Árið 2008 var meðaldagafjöldinn í fæðingarorlofi feðra 103 dagar, en árið 2015 var meðaldagafjöldinn kominn niður í 74 daga.
Reglulega er talað um það að fæðingarorlofslögin á Íslandi hafi verið byltingarkennd þegar þeim var komið á. Með þeim hafi verið stigið stórt skref í jafnréttisátt. Kristín Ástgeirsdóttur, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, hefur lengi sagt að þakið á Fæðingarorlofssjóði hafi staðið of lengi í stað. „Við horfum upp á einstakt kerfi, sem búið var að byggja hér upp, molna niður fyrir framan okkur,“ sagði hún við Morgunblaðið í fyrra. Nauðsynlegt væri að hækka þakið og hafa það í takt við launaþróun í landinu, vegna þess að það hafi áhrif á ákvörðun um barneignir hvort foreldrar hafi efni á að taka sér frí. Fæðingarorlofið tryggi að auki jafnari stöðu kynjanna bæði á vinnumarkaði og í umgengni foreldra við börn sín.
Kostnaðurinn aukist gríðarlega
Kjarninn greindi einnig frá því í september í fyrra að á sama tíma og hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði höfðu dregist saman um rúmlega 30 prósent hækkuðu bæði laun og útgjöld heimila um tugi prósenta. Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja hafði hækkað um 47,7 prósent, föt og skór hækkuðu um 56,6 prósent og matar- og drykkjarvörur um 68,7 prósent. Þá hafði húsnæðisverð hækkað um 20,4 prósent og húsaleiga um heil 84,5 prósent. Þetta kom fram í tölum sem BSRB og ASÍ tóku saman annars vegar um þróun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði frá árinu 2008 og hins vegar um hlutfallslega hækkun launa og útgjalda heimilisins frá árinu 2008.
Niðurstaðan var skýr. Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafa lækkað mikið en allir kostnaðarliðir hækkuðu verulega. Afleiðingin er sú að færri feður taka fæðingarorlof, fæðingartíðnin hefur dregist skarpt saman og sá hópur sem á erfiðara með að láta enda ná saman eftir barnsburð hefur vaxið mjög.