Maður er nefndur Seth A. Klarman og er 59 ára gamall fjárfestir í Boston. Hann stýrir fjárfestingarstjóðnum Baupost Group, sem er með eignir upp á um 30 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 3.500 milljörðum króna.
Hagnaðist á hruni íslensku bankanna
Sjóðurinn sem Klarman stýrir hagnaðist einna mest á hruni íslensku bankanna af öllum vogunarsjóðum sem áttu kröfur á þá. Í Viðskiptablaðinu var fjallað um hagnað sjóðsins, 14. júlí í fyrra, og kom þá meðal annars fram að Baupost hefði verið langstærsti kröfuhafi föllnu bankanna meðal vogunarsjóða við útgáfu fyrstu kröfuskráa slitabúanna og átti sjóðurinn kröfur á Kaupþing og Glitni upp á alls 464 milljarða króna að nafnvirði í „nafni ýmissa skúffufélaga sem kennd voru við íslensk kennileiti. Má þar nefna félög á borð við Geysir Fund, Grindavík Fund og Gullfoss Partners,“ eins og orðrétt sagði í umfjölluninni.
Í Viðskiptablaðinu kom enn fremur fram að sjóðurinn hefði hagnast í krónum talið um 96,1 milljarð á fjárfestingu sinni og miðað við 15% ávöxtunarkröfu, sem vogunarsjóðir gera gjarnan á fjárfestingu sína, var hreint núvirði viðskiptanna (e. Net Present Value) jákvætt um 45,7 milljarða. Náði sjóðurinn 51,3% árlegri ávöxtun.
Ross Sorkin segir Wall Street liggja yfir skrifum hans
Þessa dagana hafa skrif Klarmans um efnahagsstefnu Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, náð eyrum fjárfesta á Wall Street en Klarman hefur áhyggjur af því að of mikil einangrunarstefna, sem Trump ætlar að hrinda í framkvæmd, muni til langs tíma valda miklu tjóni í bandarísku efnahagslífi.
Andrew Ross Sorkin, blaðamaður New York Times og höfundur bókarinnar Too Big To Fail, segir í umfjöllun á vef blaðsins í gær, að í bréfi sem Klarman sendi til fjárfesta komi fram miklar áhyggjur af áformum Trumps.
Sérstaklega nefnir hann að þrátt fyrir að til skamms tíma geti komið byr í seglin með því að kippa viðskiptasamningum við aðrar þjóðir og ríkjabandalög úr sambandi, semja upp á nýtt og hálfpartinn neyða framleiðslufyrirtæki til þess að skapa störf heima fyrir, þá þurfi að hugsa málin alla leið. Trump hefur sagt að Bandaríkin muni alltaf verða í fyrirrúmi (America first) og sá tími, þar sem aðrar þjóðir hagnist á Bandaríkjunum, sé liðinn. Hann hefur boðað úrsögn úr hinum svonefndu TPP-viðræðum, þar sem tólf þjóða viðskiptasamningur á að liðka fyrir viðskiptum á Kyrrahafssvæðinu og þá ekki síst í Asíu og Ástralíu.
Ekki muni líða á löngu þar til þessi „efnahagspólitík“ muni byrja að vinna gegn framþróun bandarísks efnahagslífs. Klarman gerir aukna sjálfvirkni og tækniframþróun að umtalsefni, og segir að stefna Trumps kunni að hægja á því að markaðurinn fái að þróast eins og hann ætti að gera, en það muni aðeins bitna á samkeppnishæfni til framtíðar. Einmitt hlutir eins og þessir séu ástæðan fyrir því að Bandaríkin hafi fyrir löngu flúið einangrunarstefnu. Það sé ekki nóg með að hún virki ekki til styttri eða lengri tíma, heldur „verði samfélögin fyrir miklum skaða“.
Gæti orðið „sjokk“
Klarman segist enn fremur óttast að skattalækkanir - án þess að þær séu útfærðar nægilega vel - geti leitt til þveröfugra áhrifa miðað við markmiðið, um að örva fjárfestingu. Sambland skattalækkana og síðan aukinnar einangrunarstefnu í hagkerfinu geti leitt til þess að aukið ójafnvægi verði í hagkerfinu, sem geti síðan skilað sér í aukinni verðbólgu. Það gæti birst sem „sjokk“ fyrir fjárfestum.
Stjórnunarstíllinn sjálfur áhættuatriði
Klarman segir í bréfinu að þó Trump reyni að koma fram, sem maður sem hafi mikið sjálfstraust, þá birtist hann oft sem ólíkindatól og gefi ekki frá sér straum hins örugga og farsæla leiðtoga. Hann segist auk þess óttast, að í ljósi mikilvægis embættis forseta Bandaríkjanna, þá geti skapast stórt og mikið óvissuský á mörkuðum, þar sem erfitt er að sjá fyrir hvað sé framundan og almennt að skilja hvað stjórnvöld séu að reyna að gera. „Jafnvel þó að hlutirnir geti farið á besta veg, þá getur skapast farvegur fyrir stöðu þar sem verðbólga rýkur upp, vextirnir með og erfiðleikar þar með í hinu alþjóðavædda hagkerfi,“ segir Klarman.
Goðsagnarkennd bók
Bók sem Klarman sendi frá sér árið 1991, Margin of Safety: Risk-averse Value Investing Strategies for the Thoughtful Investor, er goðsagnarkennd á meðal miðlara og fjárfesta á Wall Street. Bókin gengur kaupum og sölum dýrum dómum á netinu og er nær ófáanleg í bókabúðum. Á Ebay kostar hún 1.499 Bandaríkjadali, eða sem nemur um 175 þúsund krónum. Í bókinni fjallar hann um fjárfestingastefnu sína og hvernig eigi að nálgast hlutabréfamarkaði á grunni þess að þora að taka áhættu, en á sama tíma að horfa til langs tíma. Það sem helst þykir heillandi við bókina er að hún er vel skrifuð og í henni er að finna nákvæmisatriði, sem snúa að tímasetningum viðskipta og framkvæmd fjárfestingastefnu. Þetta hefur heillað lesendur allt frá útgáfu og vinsældir bókarinnar aukast sífellt.