Hið alræmda Saydnaya fangelsi í Sýrlandi hefur um áratuga skeið hýst pólitíska óvini al-Assad stjórnarinnar. Fram að borgarastyrjöldinni sem nú geysar í landinu voru það yfirleitt skæruliðar og aðrir vígamenn, bæði sýrlenskir og erlendir. Vistin þar var hörð og ýmis mannréttindabrot framin en síðan stríðið braust út árið 2011 hefur eðli starfseminnar breyst til muna og til hins verra. Nýlega kom út skýrsla sem varpar ljósi á umfang starfseminnar sem á beina tengingu við efstu lög valdakerfis landsins og forsetans Bashar al-Assad.
Baráttutæki gegn íslömskum vígamönnum
Fangelsið í Saydnaya var byggt árið 1987 og er eitt af þeim allra stærstu í landinu með rými fyrir 5000 fanga. Það stendur um 30 kílómetrum norðan við höfuðborgina Damascus, skammt frá landamærunum við Líbanon. Það var byggt í stjórnartíð Hafez al-Assad, föður núverandi forseta landsins Bashar al-Assad. Hafez stýrði Sýrlandi með harðri hendi fyrir Ba´ath flokkinn í tæplega 30 ár, frá 1971 til dauðadags hans árið 2000. Ba´ath er veraldlegur stjórnmálaflokkur, tengdur íraska Ba´ath flokki Saddams Hussains, sem byggir á sósíalisma og sam-arabískri þjóðerniskennd en hafnar trúarlegum öfgum. Snemma í forsetatíð Hafez al-Assad, þurfti hann að kljást við uppreisn íslamskra skæruliða-og hryðjuverkasamtaka á borð við Bræðralag múslima sem réðust á hermenn, lögreglumenn og almenna borgara. Stjórnarherinn brást hart við og kvaddi uppreisnina í kútinn árið 1982.
Þá voru flestir leiðtogar samtakanna annað hvort drepnir eða fangelsaðir. Eftir þessa uppreisn beitti herinn sér af mikilli hörku gegn öllum þeim sem grunaðir voru um að styðja íslamistana. Tugþúsundir enduðu í fangelsi þar sem kerfisbundnum pyndingum og drápum var beitt um langt skeið. Saydnaya, sem stjórnað er af herlögreglunni, var liður í þessum aðgerðum. Vitað var að Saydnaya væri eitt harðneskjulegasta fangelsi landsins og það breyttist ekkert þegar Bashar al-Assad tók við völdum af föður sínum. Árið 2008 komst það í heimsfréttirnar þegar fangar þar gerðu mikið uppþot. Fjölmargir fangar úr Bræðralagi múslima voru þar enn. Uppþotið var hins vegar brotið á bak aftur af mikilli hörku og um 50 fangar hurfu sporlaust. Eftir uppþotið var öryggisgæslan hert til muna og meðferðin á föngunum varð verri.
Stefnubreyting í borgarastyrjöldinni
Í janúar árið 2011 hófust friðsamleg mótmæli sýrlenskra borgara gegn stjórn Bashar al-Assad. Mótmælin stóðu yfir mánuðum saman en lögreglan og herinn brugðust við með því að berja og skjóta á mótmælendur. Þetta olli því að ýmsir hópar tóku sig saman og hófu vopnaða uppreisn gegn stjórnarhernum um sumarið. Þá var mörgum íslamistum sleppt lausum úr fangelsum landsins, þ.á.m. fjölmörgum úr Saydnaya. Sumir þessara fanga voru jafnvel vopnaðir af stjórnarhernum þó að vitað væri að þeir myndu ganga til liðs við uppreisnarmennina. Þetta var gert til að stjórn al-Assad liti betur út í samanburði við uppreisnarmennina í augum alþjóðasamfélagsins. Það virkaði þó ekki og einu þjóðirnar sem studdu stjórn al-Assad beint voru Rússar og Íranir sem þegar voru bandamenn þeirra. Hinn vestræni heimur vildi einræðisherrann frá. Um haustið hóf stjórn al-Assad hins vegar að handtaka almenna borgara í massavís. Fólk var handtekið fyrir það eitt að hafa tekið þátt í friðsamlegum mótmælum, fólk sem aldrei hafði gripið til vopna. Herlögreglan réðst inn í hverfi sem talin voru óvinveitt forsetanum og handtóku fólk, jafnvel án þess að hafa neitt haldbært í höndum um sekt þeirra. Fjölmargir voru handteknir vegna sögusagna og slúðurs annarra borgara.
Fangelsin voru fljót að fyllast og í Saydnaya hýsti nú að jafnaði um 20.000 fanga, fjórfalt fleiri en það var byggt fyrir. Hver einasti Sýrlendingur vissi hversu slæm vistin í Saydnaya var og að ef maður yrði sendur þangað væri óvíst hvort maður kæmi lifandi þaðan út. Nú í febrúar birti Amnesty International skýrslu um fangelsið. Hún er byggð á vitnisburðum 84 fyrrum fanga, fangavarða og dómara, og er mun dekkri en nokkurn gæti órað fyrir.
Velkominn til Saydnaya!
Fangarnir eru fluttir til Saydnaya með stórum vörubílum sem ætlaðir eru fyrir kjötafurðir. Þeim er yfirleitt ekki sagt hvert þeir eru að fara en margir geta sér þó til um það. Þegar þangað er komið eru þeir dregnir út úr bílunum og við tekur “veisla” til að bjóða þá velkomna í anddyri hinnar svokölluðu rauðu byggingar. Þessi veisla er í raun nokkurs konar vígsla eða prófraun. Allir nýju fangarnir eru barðir heiftarlega með ýmsum svipum og kylfum til að gefa þeim nasaþefinn af því sem koma skal. Þeir sem öskra hæst eru barðir mest en þeir sem geta afborið misþyrminguna í hljóði sleppa best. Í þessum veislum fara fangaverðirnir gjarnan í keppni sín á milli um hver hefur mesta úthaldið til að berja á föngunum. Það tekur líkamlega á að berja fólk í langan tíma.
Einnig skiptast þeir á til að gefa hvorum öðrum hvíld. Eftir veisluna er föngunum smalað inn í klefana. Klefarnir eru tvenns konar, einstaklingsklefar og hópklefar. Í einstaklingsklefunum eru geymdir u.þ.b. 9 fangar og um 50 í hópklefunum. Klefarnir eru mjög litlir og auk þess mega fangarnir ekki nýta þá til fulls, þ.e. þeir mega ekki vera nálægt hurðinni. Fjölmargir fangar eru í rifnum fötum eða jafnvel hálfnaktir eftir veisluna en þeir fá ekki annan klæðnað við komuna. Í klefunum er ekkert ljós svo að fangarnir sitja löngum stundum í algeru myrkri. Þá er aðeins eitt salerni í hverjum klefa og nokkur teppi. Ofan á þetta allt saman mega fangarnir ekki tala, hvorki sín á milli né við fangaverðina. Það verður að ríkja algjör þögn í klefunum.
Helvíti á jörð
Í Saydnaya búa fangarnir við stöðugan ótta. Versta hljóðið sem þeir heyra er þegar þeir eru vaktir klukkan 5:30-6:00 á morgnanna. Verðirnir koma gjarnan inn í klefana og berja fangana eða flytja þá í aðra álmu fangelsisins þar sem stundaðar eru pyndingar. Þeir geta komið hvenær sem er, stundum taka þeir einungis fyrir einn klefa en stundum ganga þeir á röðina. Allir fangarnir heyra nákvæmlega hvað er að gerast, það er hluti af pyndingunni. Heyrnin verður næmari með hverjum deginum í Saydnaya. Þeir læra fljótt að þekkja fótspor hvers varðar og hvaða pyndingatól er verið að nota hverju sinni.
Algengustu tólin eru svipur úr rafmagnsvír, járnpípur, kylfur úr gúmmí og tré, vatnsfötur og hjólbarðar sem eru bæði skornir niður í ræmur sem svipur og til að koma föngunum í óþægilegar stellingar. Einn salur fangelsisins hafði áður verið matsalur með borðum og bekkjum en nú er hann einungis notaður fyrir pyndingar. Fangarnir eru látnir hlaupa hratt í myrkri yfir borðin og bekkina uns þeir detta og brjóta þá oft bein eða tennur. En þeir öskra ekki, a.m.k. ekki þeir sem hafa verið í fangelsinu um nokkurn tíma. Sumum föngum hefur verið nauðgað af vörðunum og sumir fangar hafa verið neyddir til þess að nauðga öðrum. Fangarnir eru einnig hæddir og smánaðir og neyddir til að segja viðurstyggilega hluti um fjölskyldur sínar. Þeir lifa í viðvarandi ótta, sársauka og niðurlægingu.
Um klukkan 13:00 skín sólin inn í klefana og þeir sjá almennilega framan í hvorn annan. Sumir eru naktir og því hlýjan mjög velkomin. Þennan tíma nota fangarnir til snyrtingar, t.d. til að týna lýs af hvorum öðrum. Til dægrarstyttingar skrifa þeir á veggina með beltissylgjum en stroka það jafnharðan út svo verðirnir sjái það ekki. Þeir stara á flísarnar og reyna að sjá myndir út úr þeim. Sumir hvísla vers úr kóraninum sem þeir kunna utanbókar og kenna þeim sem ekki þekkja. Þeir fá ekkert að borða fyrr en seinni part dags og sumir ekki fyrr en um kvöldið.
Matartímarnir eru samt slæmir því að yfirleitt fylgja þeim barsmíðar. Þegar verðirnir koma inn þurfa fangarnir að vera í ákveðinni stelllingu þ.e. krjúpandi, með lokuð augu og snúa í átt að veggnum. Þeir fá ávallt það sama þ.e. hrísgrjón, egg, ólífur og sultu, öllu hrært saman í einn graut. Oft er maturinn skítugur og jafnvel ataður í blóði. Skammtarnir eru alls ekki nægir og fangarnir borða allt sem þeir fá, meira að segja eggjaskurn. Það er aldrei neitt rusl eftir þá. Eftir langa dvöl í Saydnaya byrjar hungrið að yfirtaka líf fanganna. Þeir hugsa um ekkert annað en mat, ekki einu sinni fjölskyldur sínar sem þeir fá engar frengir af.
Af og til er skrúfað fyrir vatnið í klefunum, í allt að þrjá sólarhringa í senn. Þegar ofþornunin tekur völdin fá fangarnir ofskynjanir og sjá vatn í hyllingum renna niður veggi klefans. Þeir reyna hvað sem er til að fá nokkra vatnsdropa, jafnvel að sjúga þá úr salerninu. Stundum eru þeir bleyttir því á nóttunni er kalt. Margir veikjast vegna þess en fá enga aðhlynningu. Besta hljóðið sem þeir heyra er þegar verðirnir skipa þeim að fara að sofa á kvöldin. Enginn vill vakna á nýjan leik í Saydnaya og yfirleitt eru nokkrir sem sleppa við það þegar verðirnir vekja þá um morgunin.
Mennskt sláturhús
Það er ekki að ósekju að Saydnaya hefur verið kallað mennskt sláturhús. Það er sagt að um 75% af þeim sem fara þangað inn komi ekki aftur út. Margir deyja eftir pyndingar, úr sjúkdómum eða slæmum aðbúnaði. En aðrir eru teknir af lífi og aftökurnar virðast gerðar af handahófi. Venjulega sækja verðirnir þá á mánudögum og miðvikudögum, 20-50 í senn. Stundum eru heilu klefarnir tæmdir. Sumar aftökurnar eru þó beinar skipanir frá æðstu valdhöfum al-Assad stjórnarinnar. Þeir eru vaktir seint um kvöld og sagt að verið sé að flytja þá í annað fangelsi en þeir eru yfirleitt barðir og smánaðir á leiðinni út.
Í raun er aðeins farið með þá í næsta hús, í hvítu bygginguna svokölluðu. Það er bundið fyrir augu þeirra og þeir leiddir að skrifborði. Þar er þeim sagt að stimpla fingrafar sitt á blað sem sýni hverjir þeir séu. Blaðið er hins vegar yfirlýsing um sýrlenska ríkið beri ekki ábyrgð á dauða þeirra. Þá taka við sýndarréttarhöld sem taka yfirleitt ekki lengri tíma en 2-3 mínútur. Oftast eru dómarnir aðeins byggðir á játningum fanganna sjálfra eftir pyndingar. Það er svo farið með þá í kjallara hvítu byggingarinnar þar sem þeim er stillt upp nokkrum í senn og þeir hengdir í snörum sem bundnar eru við járnrör.
Sumir þeirra vita ekki að þeir munu deyja fyrr en snaran er komin um háls þeirra. Dauðinn í snörunni tekur langan tíma. Dómari sem var vitni af aftökum sagði að þeir væru látnir hanga í ca. 10-15 mínútur. Þeir yngstu eru oft ekki nógu þungir til hengjast og því þurfa fangaverðir að kippa í fætur þeirra svo þeir hálsbrotni. Sumir fangar eru geymdir í hvítu byggingunni og þeir heyra vel hvernig hengingarnar fara fram í gegnum veggi og gólf. Þegar aftökunum er lokið er farið með líkin til herspítalans í Tishreen, þar sem sjálfur Bashar al-Assad lærði augnlækningar. Þar er dánarorsök úrskurðuð sem annað hvort hjartabilun eða öndunarfæravandamál. Að lokum eru líkin grafin í fjöldagröfum á landi sýrlenska hersins sunnan og vestan við höfuðborgina. Fjölskyldur fanganna fá ekkert að vita um afdrif þeirra.
Ábyrgð stjórnvalda
Amnesty International áætlar að á bilinu 5000 til 13.000 fangar hafi verið hengdir án dóms og laga í Saydnaya frá september mánuði árið 2011 til ársloka 2015. Í skýrslunni sem Nicolette Waldman samdi fyrir samtökin er fullyrt að pyndingarnar, aðbúnaðurinn og aftökurnar í fangelsinu séu árás á sýrlenskan almenning. Einnig að þær flokkist sem stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyni sem beri að rannsaka af óháðum aðilum.
Áður en skýrslan kom út var áætlað að tæplega 18.000 þúsund fangar hefðu dáið í borgarastyrjöldinni í öllum fangelsum landsins. Þetta þýðir hins vegar að sú tala er allt of lág. Waldman segir jafnframt að það sé engin ástæða til að halda að pyndingarnar og aftökurnar hafi hætt árið 2016. Væntanlega hafa þúsundir í viðbót farist í Saydnaya allt til dagsins í dag. Um miðjan janúar 2017 fóru Amnesty International fram á svör frá sýrlensku stjórninni vegna Saydnaya en hafa ekki fengið nein. Samtökin eru jafnframt bönnuð í landinu. Talsmenn Amnesty International viðurkenna að ýmsir stríðsaðilar, s.s. ISIS og al-Nusra hreyfingin hafi gerst sekir um skelfilega stríðsglæpi. En rannsóknir þeirra leiða í ljós að stjórn al-Assad beri ábyrgð á mestu voðaverkunum þegar kemur að pólitískum föngum.
Þeir geta heldur ekki neitað ábyrgð. Flestar aftökuskipanirnar eru undirritaðar af Fahd Jassem al-Freij, varnarmálaráðherra landsins. Saydnaya er hluti af þeirri stefnu Bashar al-Assad að nota ótta og harðneskju til að berja niður alla andspyrnu við stjórn sína.
Hægt er að skrifa undir bænaskjal til bandarískra og rússneskra yfirvalda um að þrýsta á sýrlensk yfirvöld að stöðva hryllinginn í Saydnaya og öðrum fangelsum landsins á vef Amnesty International.