Sýnilegar sprungur hjá ósamstíga ríkisstjórn
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fékk enga hveitibrauðsdaga. Þrátt fyrir að engin stór þingmál séu á dagskrá á yfirstandandi þingi þá hafa litlu málin, og daglegt amstur, dugað til að sýna hversu ósamstíga flokkarnir sem hana mynda eru á mörgum sviðum.
Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur setið í einn mánuð og fimm daga. Stuðningur við hana mælist sá minnsti sem ný ríkisstjórn hefur nokkru sinni haft á fyrstu starfsdögum sínum frá því að stuðningsmælingar hófust. Einungis 32,6 prósent sögðust styðja ríkisstjórnina í nýjustu könnun MMR. Sameiginlegt fylgi flokkanna þriggja sem hana mynda: Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, mælist litlu hærra, eða 34,7 prósent. Slíkt fylgi myndi líkast til tryggja þeim samanlagðan þingmannafjölda upp á 24 þingmenn, en ríkisstjórnin hefur í dag minnsta mögulega meirihluta, 32 þingmenn.
Upprifjun á ofangreindum tölum er auðvitað samkvæmisleikur, enda mjög langt í næstu kosningar komi ekkert upp á. En það er ekki bara samfélagslega meðbyrinn sem ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skortir. Hún virðist líka vera án samstöðu.
Skýrsluskil
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var sáttmáli málamiðlana. Hún hefur yfir sér þá áru að vera ekki draumaríkisstjórn neins, heldur nokkurs konar viðbragð við þeirri stjórnarkreppu sem upp var komin í landinu eftir októberkosningarnar. Viðreisn og Björt framtíð gáfu eftir stóru kerfisbreytingarloforðin í sjávarútvegi og landbúnaði og þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðildarviðræður gegn því að fá í gegn umhverfisáherslur, ýmis félagsleg réttindamál og ráðherrastóla í ráðuneytum sem gætu siglt í gegn breytingum. Sjálfstæðisflokkurinn sætti sig við þessa stöðu gegn því að verja stjórnkerfið og stjórnarskránna fyrir stórtækum breytingum.
Það má þó segja að ríkisstjórnin hafi ekki enn verið fullmynduð þegar vandræði hennar hófust. Birting á skýrslu um aflandsfélagaeignir Íslendinga, sem hafði verið tilbúin í meira en þrjá mánuði, nokkrum dögum áður en gengið var frá myndun stjórnarinnar hristi verulega upp í viðræðunum. Viðreisn og Björt framtíð höfðu keyrt að hluta sína kosningabaráttu á siðvæðingu, gegnsæi og breyttum vinnubrögðum. Í grunnstefnu Viðreisnar segir t.d.: „Opin, upplýst og málefnaleg umræða er nauðsynleg til að unnt sé að taka réttar ákvarðanir. Greiður aðgangur að upplýsingum er forsenda þekkingar. Upplýsingaskyldu opinberra aðila gagnvart almenningi ber að efla.“ Í stefnu Bjartrar framtíðar segir: „Tölum saman, segjum satt. [...]Upplýsingar eru gull. Björt framtíð þorir að leiða hin stærstu og erfiðustu deilumál til lykta með gögnum, rannsóknum, opnu samtali og lýðræðislegum aðferðum.“
Málið olli raunar svo miklum titringi að það var helsta ástæða þess að rúmur fjórðungur stjórnar Bjartrar framtíðar greiddi atkvæði á móti stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og að þingflokkur Viðreisnar brá á það ráð, daginn áður en að ríkisstjórnin var formlega mynduð, að fá Bjarna Benediktsson á símafund til að útskýra mál sitt. Slíkt er fordæmalaust.
Að honum loknum sagði einn leiðtoga ríkisstjórnarinnar og formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, að „miðað við hans [Bjarna] frásögn hafi verið um að ræða klaufaskap og slaka dómgreind en ásetning um feluleik.“
Skömmu síðar var önnur skýrsla, nú um þjóðhagsleg áhrif leiðréttingarinnar, birt af fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hún hafði líka verið tilbúin fyrir kosningar en ákveðið var að birta hana ekki. Það mál fór ekki síður illa í marga innan Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Framtíð Reykjavíkurflugvallar
Sama dag og ríkisstjórnin tók við voru stjórnarliðar komnir í hár saman vegna framtíðar Reykjavíkurflugvallar. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, sagði þá við Vísi að enginn önnur lausn væri í stöðunni en að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni. Daginn eftir endurtók hann þessa skoðun og útilokaði ekki inngrip í skipulagsvald Reykjavíkurborgar í málinu. Nokkrum dögum síðar steig Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fram að sagði að flugvöllurinn ætti að vera áfram í Vatnsmýrinni.
Ráðherrar Viðreisnar og Bjartrar eru hins vegar á þeirri skoðun að skipulagsvald yfir Vatnsmýrinni, og þar með Reykjavíkurflugvelli, eigi að liggja hjá Reykjavíkurborg. Auk þess er Björt framtíð hluti af meirihlutasamstarfi í Reykjavíkurborg sem hefur mjög skýra stefnu um að flugvöllurinn eigi ekki að vera í Vatnsmýri til framtíðar.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kom fram að ríkisstjórnin muni „beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar með því að stofna til formlegra viðræðna samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Tekin verði ákvörðun um fyrirliggjandi kosti að undangengnu mati og innviðir innanlands- og sjúkraflugs þannig tryggðir til framtíðar.“ Efnisgreinin er mjög loðin og opin til túlkunar.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var það með vilja gert, enda alls ekki eining innan ríkisstjórnarinnar þegar kemur að málefnum Reykjavíkurflugvallar. En það var alls ekki á stefnuskránni að sá ágreiningur yrði gerður opinber nokkrum klukkutímum eftir að ríkisstjórnin var mynduð.
Áfengisfrumvarpið
Í byrjun febrúar lögðu þingmenn úr fjórum flokkum, þar með talið öllum stjórnarflokkunum, fram frumvarp um að afnema einokum ÁTVR á áfengissölu. Málið hefur nokkrum sinnum áður verið lagt fram, í aðeins annarri mynd, en aldrei verið tekið til afgreiðslu á Alþingi. Nú töldu þeir sem stóðu að því þó víst að meirihluti væri á þinginu fyrir málinu. Við lýði væri frjálslyndasta ríkisstjórn Íslandssögunnar og styrkur hennar myndi duga til að klára málið í þetta skiptið, eitt skipti fyrir öll. Annað hefur komið á daginn.
Ásamt stjórnarflokkunum standa þrír þingmenn Pírata að frumvarpinu. Þegar er ljóst að ekki er eining innan þess flokks um málið og ljóst á yfirlýsingum sumra þingmanna að þeir muni ekki veita málinu brautargengi. Fjölmargir aðrir stjórnarandstöðuþingmenn hafa lýst yfir andstöðu gegn frumvarpinu og nýleg könnun sýnir að sex af hverjum tíu Íslendingum eru á móti breytingum á gildandi fyrirkomulagi.
Stjórnarliðar hafa líka sett sig á móti því. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði nánast samstundis að hann muni greiða atkvæði á móti frumvarpinu og heimildir Kjarnans herma að fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokks séu á sama máli. Í ljósi þess að afnám einokunar ÁTVR á áfengissölu hefur verið mjög mikilvægt grundvallarmál í huga margra yngri og frjálslyndari þingmanna Sjálfstæðisflokks er ljóst að málið myndar sprungur víðar en á milli flokka. Þær sprungur eru einnig til staðar innan þeirra.
Kjaradeila sjómanna
En stærsti ágreiningurinn sem ríkisstjórnin hefur staðið frammi fyrir er vegna kjaradeilna sjómanna og útgerða. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur verið skýr í sinni afstöðu hingað til og sagt að það komi ekki til greina að íslenska ríkið taki þátt í að greiða laun sjómanna með sértækum aðgerðum. Eftir því hefur verið kallað bæði að hálfu verkalýðsforkólfa sjómanna og fulltrúa útgerðanna í landinu að dagpeningagreiðslur til sjómanna verði gerðar skattfrjálsar. Í raun er staðan í deilunni þannig nú að deiluaðilarnir hafa sett það í hendur ríkisins að leysa hnútinn og krafist sértækra aðgerða.
Vafamál er hvort að slíkt standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar stendur í 17. grein að óheimilt sé að hefja vinnustöðvun „Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi.“ Kjarninn hefur upplýsingar um að yfirstandandi kjaradeila hafi verið mátuð við þetta ákvæði í stjórnsýslunni.
Þingflokkar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar standa heilir á bak við afstöðu Þorgerðar Katrínar um að ekki komi til greina að endurvekja sjómannaafslátt eða grípa til sértækra skattaívilnana sem geri það að verkum að ríkið gefi frá sér tekjur til að auka tekjur sjómanna. Bjarni Benediktsson hefur líka stutt afstöðu Þorgerðar Katrínar. Hann sagði m.a. í Silfrinu fyrr í þessum mánuði að það kæmi ekki til greina að taka upp sjómannaafslátt að nýju.
Þótt formaður Sjálfstæðisflokksins hafi þá skoðun þá eru ekki allir í flokki hans á sama máli. Sumir þeirra, t.d. Páll Magnússon, hafa tjáð sig um málið opinberlega. Hann sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 þann 6. febrúar að ekki væri hægt að útiloka að ríkið þyrfti að grípa inn í deiluna. „ Stjórnvöld geta ekki látið þessa auðlind þjóðarinnar liggja óbætta hjá garði. Það er bara óraunsæi og ég veit svo sem ekki hvern menn eru að blekkja með því ef þeir eru að halda því fram að það sé hægt eða að staðhæfa það að það verði ekki undir neinum kringumstæðum gripið inn í þessa kjaradeilu[...]Mér finnst hins vegar alveg koma til greina að t.d. að skoða þann hluta af fæðispeningum sjómanna sem má líta á eins og dagpeninga annarra stétta, þ.e.a.s. kostnaður sjómanna sem hlýst af því að þeir geta ekki borðað heima hjá sér og þurfa að borga fyrir fæðið annars staðar. Aðrar stéttir, þ.m.t. opinberir starfsmenn, hafa dagpeninga sem eru skattlausir að þessu leyti.“ Skoðun Páls á málinu rímar að öllu leyti við þær kröfur sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa sett fram gagnvart ríkinu. Heimildir Kjarnans herma að Páll sé alls ekki eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur þessa skoðun og að mikill þrýstingur sé frá hluta þingflokks hans á Þorgerði Katrínu að láta undan kröfum SFS og grípa til sértækrar lausnar á deilunni.
Jafnlaunavottun
Þá er komið að frumvarpi um jafnlaunavottun, sem Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, ætlar að leggja fram í mars. Kveðið var á um málið í stjórnarsáttmála þar sem stendur: „ því skyni að sporna við launamisrétti af völdum kynferðis verði áskilið að fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri taki upp árlega jafnlaunavottun.“ Þingflokkar allra þriggja flokkanna sem stóðu að myndun ríkisstjórnarinnar samþykktu stjórnarsáttmálann áður en ríkisstjórnin var formlega mynduð.
Það hefur samt sem áður opinberast á undanförnum dögum að hluti þingflokks Sjálfstæðismanna ætlar ekki að greiða atkvæði með frumvarpinu. Tveir þingmenn, þeir Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, hafa lýst því yfir að þeir muni ekki styðja frumvarpið. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefur aðeins eins þingmanns meirihluta og ef Óli Björn og Brynjar standa við það að styðja ekki frumvarpið þarf því stjórnarandstaðan að sitja hjá eða greiða atkvæði með frumvarpinu svo það nái fram að ganga.
Vinstri græn, Samfylkingin og Píratar vilja öll fá að sjá og lesa frumvarp um jafnlaunavottun áður en flokkarnir taka afstöðu til þess hvort þeir munu styðja frumvarpið. Framsóknarflokkurinn hefur enn ekki rætt Því er ekki ljóst að ríkisstjórnin geti treyst á stjórnarandstöðuna til að sigla málinu í höfn. Sérstaklega vegna þess að heimildir Kjarnans herma að fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu ekki sannfærðir um ágæti jafnlaunavottunar og muni mögulega standa gegn lögfestingu hennar.
Afstaða Brynjars og Óla Björns kemur að einhverju leyti á óvart því að þeir hafa báðir tjáð sig opinberlega áður um að stjórnarþingmenn og ráðherrar eigi að styðja ríkisstjórnina. Brynjar skrifaði pistil á Pressuna fyrir rúmu ári síðan þar sem hann gagnrýndi Frosta Sigurjónsson, þáverandi formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, fyrir að styðja ekki aðild Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Í pistlinum sagði Brynjar: „Rétt er hjá formanni efnahags- og viðskiptanefndar að hver og einn þingmaður hefur frelsi til að greiða atkvæði í þessu máli eins og honum sýnist. Það á við öll mál enda gerir stjórnarskráin ráð fyrir því. Einnig er rétt hjá formanninum að ekkert er í stjórnarsáttmálanum um aðild okkar að innviðafjárfestingabanka hinum megin á jörðinni. En formaður efnahags- og viðskiptanefndar verður að gera upp við sig hvort hann styðji ríkisstjórnina. Að greiða á móti einstökum liðum fjárlagafrumvarps eða að sitja hjá gengur ekki í stjórnarsamstarfi.“
Í ágúst 2016 gagnrýndi Óli Björn, þá varaþingmaður og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokks fyrir haustkosningarnar, Eygló Harðardóttur, þá félags- og húsnæðismálaráðherra, fyrir að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um fjármálaáætlun og fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Í stöðuuppfærslu á Facebook sagði Óli Björn: „„Ráðherra sem ákveður að styðja ekki ríkisstjórnarmál hefur tekið ákvörðun um að afhenda forsætisráðherra afsagnarbréf.“