Þann 5. febrúar síðastliðinn vann New England Patriots leikinn um ofurskálina, enn eina ferðina. Velgengni liða frá Boston hefur verið ótrúleg síðan um aldamótin og fólk er farið að spyrja sig hvort eitthvað sé í vatninu þarna. En til að skilja þessa velgengni er nauðsynlegt að skoða menningu og stofnanir svæðisins, aðdáendurnar og þau gildi sem þeir standa fyrir, og hina ríku íþróttasögu sem nær allt aftur til 19. aldar.
Sérstök borg
Í Boston borg býr um hálf milljón manns og um fjórar milljónir á stór-Boston svæðinu. Það er það 10. fjölmennasta í Bandaríkjunum. Borgin er hjarta Nýja Englands, sex fylkja þar sem búa um 15 milljónir manns. Flestir íbúar Nýja Englands styðja íþróttalið frá Boston ef undanskilinn er ítalski hluti Connecticut fylkis sem er næst New York borg. Ef taldir eru titlar fjögurra vinsælustu keppnisíþróttanna þá er Boston í öðru sæti á eftir New York (sem hefur tvö lið í hverri deild). Þá hefur Boston landað töluvert fleiri titlum en tugmilljónaborgir á borð við Chicago og Los Angeles.
Þetta kann að koma á óvart í ljósi þess að borgin er fyrst og fremst þekkt fyrir menntun og menningu. Í nærliggjandi bæjum eru nokkrir af þekktustu háskólum heims á borð við Harvard og M.I.T. En íþróttir hafa lengi verið stór hluti af sjálfsmynd íbúanna. Til dæmis voru bæði körfuknattleikur og blak sköpuð í nánd við Boston á 19. öld. Sem aðdáendur hafa Boston-búar algera sérstöðu innan Bandaríkjanna. Þeir eru háværir, dónalegir, heimtufrekir og hataðir af öllum öðrum. En þeir hata líka alla aðra til baka og líta svo á að allur heimurinn sé á móti þeim. Hafnaboltastjarnan David Ortiz orðaði þetta svo: “Þetta er okkar fokking borg!” Það er þessi mótsagnakennda blanda af hágmenningu og lágmenningu sem gerir Boston algerlega sérstaka.
Húsið sem Auerbach byggði
Boston Celtics hafa verið í NBA deildinni frá upphafi, árið 1946, og afrek þeirra eru vel þekkt. Hinn græni Kelti dregur fram írska arfleið borgarinnar en Írar fluttu í stórum stíl til Boston um miðja 19. öld eftir hungursneyðina þar í landi. Celtics eru sigursælasta lið NBA deildarinnar með 17 meistaratitla á bakinu sem er tæpur fjórðungur af öllum titlum frá upphafi. Sigursælustu ár þeirra voru á sjötta og sjöunda áratugunum þegar þeir unnu 11 titla á 13 árum og þar af 8 í röð árin 1959-1966. Seinna blómaskeið þeirra var á níunda áratugnum þegar þeir unnu 3 titla. Lykilmaður í velgengni Celtics var Red Auerbach sem kom til liðsins sem þjálfari árið 1950 og gengdi því starfi til ársins 1966.
Eftir það vann hann ýmis störf fyrir félagið, m.a. sem forseti, til dauðadags árið 2006 þá 89 ára gamall. Hinn litríki Auerbach sem var frægur fyrir að reykja stóra vindla, er almennt talinn einn besti íþróttaþjálfari sögunnar og hæfileikar hans fólust sérstaklega í því að finna hæfileikaríka leikmenn. Celtics eru þekktir fyrir að vera agað og óeigingjarnt lið, lausir við glys og glamúr. Þeirra helstu keppinautar í gegnum tíðina, Los Angeles Lakers, eru alger andstæða við þá að því leyti. En þó að Celtics séu þekktir fyrir sterka liðsheild, þá hafa margar af stærstu stjörnum körfuknattleiksins spilað fyrir þá. Má þar nefna Bob Cousy, Bill Russell, Larry Bird og Kevin Garnett. Celtics hafa spilað í TD Garden frá árinu 1995. Í hálfa öld spiluðu þeir í Boston Garden sem borgarbúar hugsa enn til með hlýju. Sú höll var sérstaklega erfið andstæðingum þeirra. Hávaðinn frá áhorfendum var ærandi og það var engin loftræsting þannig að hitinn gat orðið óbærilegur. Boston Garden var slík gryfja að árið 1986 töpuðu Celtics aðeins einum leik þar.
Bölvun Babe Ruth
Hafnabolti er sögulega vinsælasta íþróttagrein borgarinnar og sagt er að skapgerð borgarbúa berist með gengi atvinnumannaliðsins Boston Red Sox. Red Sox er eitt af elstu MLB liðunum, stofnað árið 1901. Liðið var eitt það sterkasta í upphafi 20. aldar og vann 5 titla á árunum 1903 til 1918. Helsta stjarna þeirra var Babe Ruth sem hóf feril sinn sem kastari en færði sig seinna í stöðu kylfings. Árið 1919 var Ruth seldur til New York Yankees til að fjármagna söngleik sem eigandi Red Sox vildi koma á fót. Ruth vann fjóra titla með Yankees en hjá Red Sox upphófst eyðimerkurganga sem varði í meira en mannsaldur, eða “bölvun Babe Ruth”. Bölvunin lá eins og mara á allri borginni og kynnti undir hatur milli stuðningsmanna liðanna tveggja um áratuga skeið. Boston búar þreytast ekki á því að hrópa níðyrði um Yankees, hvort sem það er á hafnaboltaleikjum, á heimaleikjum í öðrum íþróttum eða á götum úti. Ef maður klæðist Yankees fatnaði á götum borgarinnar er líklegt að maður verði fyrir aðkasti. Árið 2004 verður lengi í minnum haft í Boston.
Þá voru Red Sox 0-3 undir gegn Yankees í undanúrslitum og leit allt út fyrir að bölvunin myndi halda áfram. En Red Sox gerðu hið ómögulega og sneru rimmunni við og unnu 4-3 í fyrsta og eina skipti hafnaboltans. Liðið var kallað “hálfvitarnir” (the idiots) af því að þeir spiluðu líkt og þeim væri sama um bölvunina. Curt Schilling, kastari Red Sox, spilaði þrátt fyrir meiðsli í fæti….með blóð í sokknum. Það er eitt frægasta og myndrænasta atvik amerískrar íþróttasögu. 86 ára bölvuninni var aflétt og Red Sox unnu titilinn þetta árið. Þeir bættu svo tveim titlum í safnið árin 2007 og 2013. Á þessum árum fylltu Red Sox heimavöll sinn Fenway Park 820 sinnum í röð, sem er met í amerískum íþróttum. Fenway Park með sinn fræga græna vegg (Græna skrímslið) hefur goðsagnakenndan blæ og er helgur staður í augum Boston búa.
Hið nýja yndi
Ameríska ruðningsliðið New England Patriots voru um áratuga skeið utanveltu í íþróttalífi Boston. Nafnið Patriots var valið vegna þýðingarmikils hlutverks borgarinnar í amerísku byltingunni og sjálfstæði landsins, s.b.r. Teboðið í Boston árið 1773. Fram til ársins 1971 hétu þeir Boston Patriots en nafninu var breytt til þess að fá breiðari skírskotun á svæðinu. Árangur liðsins var hins vegar í meðallagi og liðið var titlalaust frá stofnun þess árið 1959 og út 20. öldina. Borgarbúar tengdust liðinu lítið og á tíunda áratugnum kom til álita að færa liðið vestur til St. Louis. Liðið er í raun ekki staðsett í Boston heldur smábænum Foxborough, um 30 kílómetrum suðvestur frá borginni. Í um 30 ár spiluðu þeir á Foxboro Stadium sem þótti einn sá lélegasti í deildinni. Hann var illa hannaður, hriplekur og flest allt í ólagi sem gat verið í ólagi.
En allt breyttist um aldamótin þegar liðið réð þjálfarann Bill Belichick og völdu leikstjórnandann Tom Brady í nýliðavalinu. Síðan þá hefur árangur liðsins verið ótrúlegur. Liðið hefur 7 sinnum komist í ofurskálina og 5 sinnum unnið leikinn. Á þessum stutta tíma hafa Patriots komist í hóp sigursælustu NFL-liða allra tíma. Árið 2001 fluttu þeir einnig á leikvang sem kenndur er við snyrtivöruframleiðandann Gillette (sem kemur frá Boston). Leikvangurinn minnir á lítið þorp. Þar er verslunarmiðstöð, veitingastaðir, hótel, kvikmyndahús, næturklúbbar, keiluhöll, og meira að segja heilsugæslustöð. Aðgengið að leikvangnum þykir hins vegar nokkuð slæmt, sértaklega þegar tugþúsundir streyma þangað á leikdögum. Það hefur þó ekki stöðvað Boston-búa í að streyma til Foxborough því að Patriots er orðið hið nýja yndi borgarinnar. Patriots deila leikvanginginum með knattspyrnuliðinu New England Revolution enda sömu eigendur að báðum liðum. Revolution hafa verið í MLS deildinni frá stofnun, komist 5 sinnum í úrslitaleikinn en aldrei unnið titil.
Hokkí, hlaup og róður
Íshokkíliðið Boston Bruins hefur lengi verið stolt borgarbúa. Bruins er eitt af elstu liðum NHL deildarinnar, stofnað árið 1924, og hafa unnið Stanley bikarinn samanlagt 6 sinnum. Þeirra þekktasti leikmaður er Bobby Orr sem spilaði á sjöunda og áttunda áratugnum og er almennt talinn besti varnarmaður sögunnar. Bruins hafa ekki farið varhluta af velgengni borgarinnar undanfarin ár og unnu Stanley bikarinn síðast árið 2011. En Bruins eru þekktastir fyrir aðdáendurnar. Þeir haga sér með þvílíkum hroka og dólgshætti að aðdáendur annarra lið beinlínis hata þá. Bruins hafa fylgt Celtics bæði í Boston Garden og seinna TD Garden.
Stærsti íþróttaviðburður borgarinnar er án efa Boston-maraþonið sem er haldið aprílmánuði ár hvert. Fyrsta maraþon borgarinnar var hlaupið árið 1897 og á áttunda áratug síðustu aldar jókst þáttaka og áhorf til muna. Nú eru þáttakendur um 30.000 talsins og áhorfendur um hálf milljón. Maraþonið er eitt það fjölmennasta í heimi og talið eitt af “Stóru 6” með New York, Chicago, London, Berlín og Tókýó. Árið 2013 frömdu tveir tjétjénskir bræður hryðjuverk í maraþoninu þegar þeir sprengdu tvær heimagerðar sprengjur. Þrír áhorfendur létust og hundruðir særðust í árásinni.
Annar stærsti íþróttviðburður borgarinnar er róðrarkeppnin Head of the Charles Regatta. Í október á hverju ári fylgjast tugþúsundir áhorfenda með um 10.000 ræðurum keppa við ósa Charles árinnar sem rennur í gegnum Boston. Róður er gríðarlega vinsæll á svæðinu og á djúpar rætur í íþróttalífi Nýja Englands. Síðan 1852 hafa tveir virtustu háskólar heims, Harvard og Yale att kappi í greininni.
Lygileg velgengni
Jason litli með skiltið er vel þekktur í Boston. Í hvert sinn sem lið frá borginni fagnar meistaratitli með skrúðgöngu er hann mættur og búinn að uppfæra skiltið sitt. Þegar Patriots fögnuðu sigri í ofurskálinni 7. febrúar síðastliðinn var hann vitaskuld þar með skilti sem á stóð: “15 ára gamall, 10 skrúðgöngur”. Á hans stuttu ævi hafa Patriots unnið 5 titla, Red Sox 3, Celtics 1 og Bruins 1. Þetta er sérstaklega tilkomumikið í ljósi þess að á árunum 1987-2001 var borgin titlalaus. Aðdáendur hafa verið sakaðir um að vera vanþakklátir en það gæti ekki verið meira fjarri sanni. Þeir eru ákaflega stoltir af vinnusemi og prjálleysi liðanna sinna og hafa stutt dyggilega við þau í gegnum súrt og sætt. Þó þeir séu tilætlunarsamir þá eru þeir einnig þeir dyggustu sem fyrirfinnast.
En hverju er þessi nýja velgengni að þakka? Sennilega hinu sterka háskólaumhverfi svæðisins. Upp úr 1990 fór tölfræði að verða meira áberandi í fréttaflutningi af íþróttum og birtar voru ítarlegar upplýsingar um hvern leik, hvert lið og hvern leikmann. Á þessum tíma voru tölvur farnar að sjást á hverju einasta heimili sem opnaði á mikla möguleika fyrir tölfræði-áhugafólk. Í Boston býr bæði menntaðasta fólk Bandaríkjanna og það íþrótta-óðasta og þessi þróun var himnasending fyrir það. Ýmis konar tölfræðigrúsk, umræðuhópar og fantasy-deildir blómstruðu í borginni. Sérstaklega hjá menntuðu fólki sem hafði ekki líkamlegt atgervi í það að verða íþróttafólk sjálft (Lesist: nördar).
Þegar nýjir aðilar keyptu atvinnumannaliðin, t.a.m. Robert Kraft (Patriots) og John Henry (Red Sox), opnuðust nýjar stöður fyrir þetta fólk, þ.e. til greina tölfræðilegar upplýsingar. Þær voru síðan notaðar við kaup og sölur á leikmönnum, uppstillingu leikkerfa o.fl. “Peningabolti” (moneyball) er þetta kallað, þ.e. að kaupa lágt, selja hátt og nýta hvern leikmann sem best tölfræðilega. Velgengni liðanna hefur síðan undið upp á sig innan háskólanna sem bjóða nú upp á sérstakar brautir fyrir fólk sem vill starfa við úrvinnslu íþróttatölfræði og stjórnun liða.
Líklegt er að Jason litli þurfi að breyta skiltinu sínu enn á ný á komandi árum því að framtíðin er björt í Boston. Árið 2017 eru Patriots, Red Sox, Celtics og Bruins öll með allra bestu liðum í sínum deildum.