Í byrjun árs í fyrra voru 9.573 Íslendingar skráðir til heimilis í Noregi, samkvæmt upplýsingum norsku Hagstofunnar, en í lok árs 2010 voru þeir 5.284. Fjölgunin nemur því 4.289 einstaklingum á síðustu sex árum. Á milli áranna 2015 og 2016 fjölgaði Íslendingum í Noregi um 354 einstaklinga eða fjögur prósent.
Mesta fjölgunin hjá ungu fólki
Þrátt fyrir að gengi íslensku krónunnar gagnvart þeirri norsku hafi styrkst verulega á síðustu árum, þá virðast Íslendingar sækja áfram til Noregs eftir vinnu og betra lífi. Fjölgunin á milli áranna 2015 og 2016 var mest hjá ungu einhleypu fólki, samkvæmt því sem lesa má út úr gögnum hagstofunnar. Einhleypir fullorðnir Íslendingar í Noregi voru 3.752 í byrjun árs 2016 en í þeim hópi voru 3.616 í byrjun 2015.
Úr 19 í 13
Norska krónan kostar nú rúmlega 13 íslenskar krónur en fyrir tveimur árum kostaði hún tæplega 19 krónur. Mörg íslensk fyrirtæki hafa unnið að verkefnum í Noregi, meðal annars tæknifyrirtæki og verkfræðistofur, og hefur þessi gengismunur því minnkað framlegð þeirra af verkefnum sem fyrirtækin hafa verið að sinna með starfsfólki á Íslandi.
Efnahagsdýfa í Noregi
Norska hagkerfið hefur verið að glíma við efnahagslægð samhliða hraðri lækkun olíuverðs á heimsmörkuðum. Árið 2014 var verðið á hráolíu rúmlega hundrað Bandaríkjadalir á tunnuna en það fór lægst í 26 Bandaríkjadali í febrúar í fyrra. Nú er það 54 Bandaríkjadalir og hefur því rúmlega tvöfaldast á einu ári. Það telst þó enn vera í lágt, í sögulegu tilliti.
Í umfjöllun norska viðskiptafréttamiðilsins Dagens Næringsliv hefur komið fram að olíuiðnaðurinn í Noregi þurfi að hafa verið yfir 65 Bandaríkjadölum til að hagnaður skapist í öllum iðnaðinum. Norska hagkerfið er þrátt fyrir erfiðleikana í olíuiðnaðinum afar sterkt. Atvinnuleysi mælist nú 4,7 prósent en mest hefur það verið í ýmsum þjónustuiðnaði við olíuframleiðslu. Rogaland, þar sem Stavanger er stærsta sveitarfélagið, hefur sérstaklega fundið fyrir þessar niðursveiflu í olíuiðnaðinum en nokkuð stór hluti Íslendingasamfélagsins í Noregi býr á því svæði.
Nýta olíuauðinn
Noregur er eitt allra ríkasta land heims en þessi rúmlega fimm milljóna þjóð á fjárfestingasjóð sem nemur tæplega 890 milljörðum Bandaríkjadala að stærð, eða sem nemur um 98 þúsund milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur um 20 milljónum króna á hvern einasta Norðmann. Sjóðurinn á meðal annars um eitt prósent af öllum skráðum hlutabréfum í Evrópu, en í mars á síðasta ári ákváðu norsk stjórnvöld að nýta 718 milljónir Bandaríkjadala, eða tæplega 90 milljarða íslenskra króna, til uppbyggingar í norsku efnahagslífi.
Sjóðurinn er rekinn undir sjálfstæðri stjórn, sem heyrir undir norska fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Noregs, en forstjóri hans er Yngve Slyngstad. Sjóðurinn er að öllu leyti í eigu norsku þjóðarinnar, en fjármagnið í hann kemur frá olíuframleiðslu í norskri lögsögu þar sem Statoil er langsamlega stærsta fyrirtækið, en norska ríkið á 68 prósent hlut í því. Hagnaður af olíuframleiðslu er svo skattlagður upp á tæplega 80 prósent, og því fer nær allur hagnaður af olíuframleiðslu í norskri lögsögu í olíusjóðinn.