Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi undanfarin ár um það með hvaða hætti eigi að haga gjaldtöku af ferðamönnum sem hingað til lands koma, og hvort eigi að gera nokkuð sértækt yfir höfuð.
Kjarninn tók saman nokkrar hugmyndir stjórnmálamanna undanfarinna ára, en aðeins ein þeirra er komin til framkvæmda þótt talað hafi verið um það í mörg ár að gjaldtaka blasi við.
Þær leiðir sem komist hafa til umræðu á opinberum vettvangi eru til dæmis vegatollar, gistináttagjald, náttúrupassi, komu- og brottfarargjöld og bílastæðagjöld. Hér að neðan er tæpt á stöðu þessara mála og þeim hugmyndum sem búa að baki.
- Bílastæðagjöld. Nú er í vinnslu frumvarp sem á að gefa ríkinu og sveitarfélögum auknar heimildir til þess að innheimta bílastæðagjöld í dreifbýli. Sveitarfélög munu þannig geta lagt á bílastæðagjöld á vinsælum ferðamannastöðum og munu fá óskertar tekjur af þeim, en þeim yrði skylt að verja tekjunum í uppbyggingu á þjónustu sem tengist viðkomandi stað. Með þessum hætti gætu sveitarfélög innheimt talsverðar tekjur.
- Vegatollar. Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ljáð máls á þeim möguleika að taka upp vegatolla á helstu samgönguæðum inn og út úr Reykjavík og á völdum leiðum utan Reykjavíkur. Jón hefur meðal annars sagt að fyrst og fremst sé horft til þess að ferðamenn sem koma til Íslands borgi fyrir aðgang að vegakerfinu, enda hefur gríðarlegur fjöldi þeirra haft sitt að segja um versnandi ástand vega. Á móti myndu þeir sem nota vegina mjög mikið myndu borga mjög lága upphæð í hvert skipti.
Auglýsing - Komu- eða brottfarargjöld. Komugjöld eða brottfarargjöld væri hægt að leggja á alla sem til landsins koma. Mörg nágrannalönd Íslands hafa ýmist skoðað að fara þá leið eða gert það. Þannig yrði gjald lagt á flugmiða eða aðra farmiða. Icelandair hefur lýst yfir óánægju með þessar hugmyndir og sagt þessi gjöld hafa veruleg áhrif á eftirspurn. Samtök ferðaþjónustunnar hafa hins vegar verið jákvæð gagnvart því að koma þessum gjöldum á, að minnsta kosti yfir sumartímann.
- Náttúrupassi. Ein frægasta tilraunin til að ná í tekjur af auknum straumi ferðamanna var náttúrupassinn. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra í síðustu ríkisstjórn, lagði fram frumvarp um að einstaklingar yfir 18 ára aldri þyrfti að kaupa sér náttúrupassa til að heimsækja ferðamannastaði á Íslandi. Passinn átti að kosta 1.500 krónur og gilda í þrjú ár. Skemmst er frá því að segja að hugmyndin átti ekki upp á pallborðið víða, og var mikið gagnrýnd af aðilum í ferðaþjónustu og stjórnmálamönnum úr öllum flokkum.
- Hærra gistináttagjald. Eina málið sem búið er að hrinda í framkvæmd, en frá og með fyrsta september næstkomandi verður gistináttaskattur 300 krónur á hverja selda nótt, í stað 100 króna nú. Sveitarfélög hafa óskað eftir því að meirihlutinn af þessu gjaldi fari til þess sveitarfélags sem gistingin er í, en það hefur ekki hlotið hljómgrunn hjá stjórnvöldum. Eftir að lög um opinber fjármál voru samþykkt er stefnt að því að allar skatttekjur af þessu tagi fari beint í ríkissjóð og engar tekjur séu markaðar ákveðnum verkefnum.