Greining Íslandsbanka var að gefa út nýja skýrslu um stöðu mála í ferðaþjónustunni hér á landi og birtist spá í henni sem sýnir mikinn áframhaldandi vöxt innan greinarinnar. Í henni er að finna mikið magn gagna um þennan stærsta atvinnuveg hagkerfisins.
Hér eru tíu atriði sem vöktu athygli blaðamanns við lestur skýrslunnar.
1. Ferðaþjónusta er nú farin að skipta verulegu máli sé litið til efnahagsreiknings Íslandsbanka. Af heildarfyrirtækjalánasafni bankans þá eru lán til ferðaþjónustu nú 22 prósent af heildinni. Sjávútvegur er um 20 prósent og fasteignafélög 20 prósent. Aðrir geirar hafa minna hlutfall af kökunni.
2. Spáin sem birtist í skýrslunni gerir ráð fyrir því að 2,3 milljónir ferðamanna muni heimsækja landið á þessu ári og að gjaldeyristekjur þjóðarbússins vegna ferðaþjónustu verði 560 milljarðar króna, eða sem nemur um 45 prósentum af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Til samanburðar er gert ráð fyrir því í skýrslunni að gjaldeyristekjurnar hafi numið 466 milljörðum í fyrra eða um 39 prósent af heildinni. Vöxturinn verður því mikill á þessu ári.
3. Áhrif íbúðarleigu vefsins Airbnb hafa verið mikil, og var vöxturinn milli áranna 2015 og 2016 sérstaklega mikill. Að meðaltali voru um 300 íbúðir í útleigu öllum stundum á Airbnb á árinu 2015 og um 809 á árinu 2016. Er þetta aukning um 509 íbúðir en til samanburðar voru 399 fullgerðar nýjar íbúðir í Reykjavík á árinu 2016. „Fjölgun íbúða í heilsársútleigu á Airbnb hefur því verið talsvert umfram fjölgun nýrra íbúða í Reykjavík yfir sama tímabil og þannig átt stóran þátt í mikilli hækkun íbúðaverðs á svæðinu. Heildartekjur vegna útleigu gistirýma á Airbnb nam um 6,76 mö.kr. á árinu 2016 og um 2,51 ma.kr. á árinu 2015. Heildartekjur jukust því um 4,25 ma.kr. á milli ára eða um 169%,“ segir í skýrslunni. Ruðningsáhrifin á fasteignaverð, vegna Airbnb, eru veruleg, og einkum miðsvæðis í Reykjavík.
4. Vöxturinn í ferðaþjónustunni eftir hrun fjármálakerfisins hefur komið eins og himnasending inn í hagkerfið. Árið 2009 voru gjaldeyristekjur vegna ferðamanna áætlaðar 156 milljarðar króna, en gert er ráð fyrir því að tekjurnar hafi verið 466 milljarðar í fyrra.
5. Að meðaltali eyddi hver ferðamaður 202 þúsund krónum í ferð sinni til landsins. Stór hluti af því, eða 43 prósent, fór í flug og gistingu. Þá fer um 12 prósent af því til ferðaskrifstofa og 16 prósent í verslun og þjónustu.
6. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur haft gífurlega mikil áhrif á bílamarkaðinn á Íslandi. Þannig er talið að 1 af hverjum 10 bílum í umferðinni séu bílaleigubílar. Á árinu 2016 voru 20.847 bílaleigubílar skráðir í bifreiðaskrá þegar mest lét og var flotinn þá að rjúfa 20.000 bíla múrinn í fyrsta skipti, en þetta var aukning um 35% frá árinu 2015 þegar bílarnir voru um 15.400 talsins, að því er segir í skýrslunni.
7. Hagnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu, og arðsemi almennt, hefur verið að aukast og batna á síðustu árum. Þannig segir í skýrslunni að framleiðni á hvern starfskraft sé að aukast hratt, og hagnaður fyrirtækja fyrir fjármagnsliði hafi aukist um 52 prósent frá árinu 2010. Styrking krónunnar hefur unnið á móti og má gera ráð fyrir að hagnaðurinn hefði verið umtalsvert meiri með veikara gengi krónunnar.
8. Óhætt er að segja að útlendingar gegni afar mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustunni hér á landi. Um 22 prósent af starfskröftum innan hennar komar frá útlöndum, eða um 4.500 starfsmenn, sé mið tekið af tölum frá Starfsstöð ferðamála fyrir árið 2015. Gera má ráð fyrir að sú tala hafi farið í sex þúsund á síðasta ári, og muni vaxa enn frekar á þessu ári.
9. Gengi krónunnar er áhættuþáttur fyrir ferðaþjónustuna, eins og ætla má. Mest hefur styrking krónunnar verið gagnvart pundi (38%) en mun minni gagnvart dollara (15%) og evru (19%). Bretar voru tæplega 18% af heildarfjölda ferðamanna hér á landi í fyrra, hlutdeild Bandaríkjamanna nær 24% en yfir fimmtungur ferðamanna kom frá þjóðum innan evrusvæðisins.
10. Síðast en ekki síst, í þessari upptalningu, er áhugavert að sjá hvernig fjallað er um Keflavíkurflugvöll. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir miklum framkvæmdum sem þar fara nú fram. Af ferðamönnum sem hingað komu á síðasta ári fóru rúmlega 90% um Keflavíkurflugvöll. Flugvöllurinn gegnir þannig mikilvægu hlutverki fyrir Ísland og felur í sér mikil tækifæri fyrir bæði íslensk og erlend flugfélög til að nota Ísland sem tengihöfn. „Í því felst hins vegar einnig áhætta fyrir íslenska hagkerfið þ.e. að stór hluti gjaldeyristekna komi í gegnum einn flugvöll. Flugvöllurinn hefur stækkað verulega síðustu ár. Frá byrjun aldarinnar hefur völlurinn tæplega tvöfaldast að stærð og stæðum á flugvellinum hefur fjölgað hratt. Á árinu 2016 voru 29 stæði á vellinum en gert er ráð fyrir að þeim fjölgi um 7 á næstu tveim árum,“ segir í skýrslunni.