Ferðaþjónustan er burðarstólpinn í gjaldeyrissköpun hagkerfisins eftir gríðarlegan vöxt á árunum 2010 og til dagsins í dag. Í nýrri skýrslu greiningar Íslandsbanka um stöðu mála í ferðaþjónustunni er dregin upp mynd af ótrúlegum vexti og vaxtarverkjum sömuleiðis.
Gangi spáin eftir sem birtist í skýrslunni, þá verða erlendirferðamenn 2,3 milljónir á þessu ári og verður fimmta hver manneskja á landinu í sumar ferðamaður. Árið 2016 komu 1,8 milljónir til landsins en árið 2010 voru þeir undir 500 þúsund.
Óhætt er að segja að þessi veruleiki sé lyginni líkastur, sé aðeins horft nokkur ár aftur í tímann.
Hrópandi þörf er fyrir sterkari innviði í landinu til að taka betur á móti ferðamönnum, að því er fram hefur komið hjá Samtökum ferðaþjónustunnar. Í nýlegum pistli á vef Samtakanna er að því spurt hvort ríkið sé mesti „gullgrafari“ ferðaþjónustunnar.
Í pistlinum eru stjórnvöld gagnrýnd harðlega fyrir að slá af framkvæmdir, sem voru á samgönguáætlun. Orðrétt segir í pistlinum: „Samtök ferðaþjónustunnar lýsa yfir miklum vonbrigðum með boðaðan niðurskurð í samgönguáætlun. Það er með ólíkindum að þeim nauðsynlegu samgönguframkvæmdum sem ferðaþjónustan hefur ítrekað kallað eftir sé nú enn og aftur ýtt út af borðinu. Sem dæmi má nefna Dettifossveg. Þær framkvæmdir hafa ítrekað verið slegnar af á sama tíma og meðaltalsaukning umferðar um svæðið er umtalsvert meiri en gengur og gerist á Íslandi. Þá á dreifing og álagsstýring ferðamanna á svæðinu mikið undir að Dettifossvegur verði greiðfær allan ársins hring.“
Ákvörðun stjórnvalda byggði þó á gömlum syndum ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar, og Alþingis á þeim tíma. Þá var samgönguáætlun samþykkt sem þó var ekki fjármögnuð nema að hluta, líkt og Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, hefur bent á.
Margar hugmyndir hafa verið nefndar þegar kemur að því að efla innviðiferðaþjónstunnar.
Hér verða nefndar fimm leiðir sem gætu styrkt innviðina, einkum hjá ríkinu og sveitarfélögum.
1. Sveitarfélög fái hlutdeild í VSK-tekjum
Stærsti tekjustofn íslenska ríkisins er virðisaukaskattur en tekjur vegna þess tekjustofns eru áætlar 186,5 milljarðar króna. Ferðaþjónustufyrirtæki eru stór hluti af þeim sem greiða þennan veltuskatt í hagkerfinu. Píratar höfðu þetta sem stefnumál fyrir síðustu kosningar og meðal sveitarstjórnarmanna hefur verið rætt um að það gæti styrkt sveitarstjórnarstigið verulega, þegar kemur að ferðaþjónustu, að fá hlutdeild í þessum tekjum. Ef einungi eitt prósent færi til sveitarfélaga þá væru það 1,86 milljarðar króna, svo dæmi sé tekið. Auðvelt er enn fremur að tengja VSK-tekjurnar þannig að sveitarfélög fái hlutdeild í þeim eftir uppruna á hverjum stað. Þannig geta þau sveitarfélög sem hafa mikil umsvif í ferðaþjónustu innan sinna vébanda, fengið tekjur til að standa undir innviðauppbyggingu.
2. Gjaldtaka á ferðamannastöðum
Eitt af því sem ekki tókst að ná samstöðu um á síðasta kjörtímabili var útfærsla á gjaldtöku við ferðamannastaði, til dæmis inn í þjóðgörðum. Stjórnvöld hafa boðað uppbyggingu á innviðum í ferðaþjónustu, og hafa allir flokkarnir sem eiga aðild að ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Viðreisn, talað fyrir þeim möguleika að hefja gjaldtöku á fjölförnum stöðum til að standa undir uppbyggingu. Líklega þarf ekki að bíða lengi eftir því að útfærsla komi fram í þessum efnum, sem Alþingi mun síðan taka til umfjöllunar.
3. Vegtollar
Vegagerðin birti í byrjun ársins tölur sem sýndu að umferðarþungi hefur aukist stórkostlega um land allt vegna þess mikla vaxtar sem hefur verið í ferðaþjónustunni. Í umfjöllun á vef Vegagerðarinnar í byrjun mánaðarins kemur fram að enn eitt metið í umferð á hringveginum hafi verið slegið. Þannig jókst umferð um 16 lykilteljara á hringveginum um 15 prósent milli ára, sem telst gríðarlega mikil aukning. Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur talað fyrir vegtollum, meðal annars á helstu umferðaræðum við höfuðborgarsvæðið, en hugmyndirnar hafa fengið blendin viðbrögð, svo til alveg þvert á pólitískar línur. En ef þessi þróun heldur áfram, sem margt bendir til, þá verður hugsanlega óhjákvæmilegt að taka upp vegtolla til að hraða uppbyggingu á vegakerfinu.
4. Endurskipulagning gistiþjónustu
Umfang leiguíbúða í gegnum vefi eins og Airbnb er gífurlegt hér á landi, og hafa áhrifin á fasteignamarkað verið veruleg, að því er segir í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna. Margar borgir í heiminum hafa gripið til þess ráðs að takmarka verulega möguleika á útleigu íbúða, einkum í miðborgum, til að koma í veg fyrir alvarlegar hliðarverkanir á almennan íbúða- og leigumarkað. Má nefna San Francisco og Berlín í því samhengi. Þær hafa bannað eða takmarkað verulega möguleika á útleigu íbúa á ákveðnum svæðum, ekki síst til að vernda skipulagsmarkmið um fjölbreytt mannlíf og menningu, meðal annars til að vernda það sem helst dregur ferðamenn að borgunum, til lengdar litið. Þarf að grípa til róttækari aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum af útleigu íbúða til ferðamanna?
5. Fjölga „hliðunum“ og meiri dreifing
Rúmlega 90 prósent ferðamanna sem koma til Íslands fara í gegnum Keflavíkurflugvöll. Þegar umfangið er orðið svona mikið, eins og nú, þá felst í þessu nokkur áhætta í því að hafa eitt „hlið“ svo stórt, líkt og bent er á í skýrslu greiningar Íslandsbanka. Gestum með skemmtiferðaskipum hefur fjölgað mikið, en ef vöxturinn verður jafnmikill og hann hefur verið árlega undanfarin sex ár þá er ekki víst að þau miklu uppbyggingaráform sem þegar eru komin í gang á Keflavíkurflugvelli, dugi til að anna eftirspurn. Mikil tækifæri liggja víða á landsbyggðinni og hugsanlega að meiri tækifæri geti skapast til millilandaflugs.