Donald Trump forseti Banaríkjanna villa skera niður fjárframlög til Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um helming. Slíkur niðurskurður mun setja mannúðarstarf á heimsvísu í uppnám, en Bandaríkin leggja mikið til slíks starfs í gegnum framlög sín til Sameinuðu þjóðanna.
Bandaríkin hafa lagt til um 10 milljarða Bandaríkjadala til SÞ á ári, eða sem nemur um 1.100 milljörðum króna, samkvæmt umfjöllun Foreign Policy, og vill Trump minnka upphæðina niður í um 5 milljarða Bandaríkjadala í fjárlögum fyrir næsta ár.
Ljóst er að niðurskurðurinn setur mannúðarstarf SÞ í algjört uppnám, ef ekki kemur til fjárveiting frá öðrum þjóðum sem getur brúað þetta bil.
Viðvörunarorð á lokuðum fundi
Hinn 9. mars síðastliðinn hittu bandarískir embættismenn hjá SÞ starfsbræður sína frá öðrum löndum sem leggja mikið til SÞ og vöruðu þá við miklum niðurskurði. Í Foreign Policy segir að fólkið hafi verið áhyggjufullt, en ekki búið yfir neinum upplýsingum um hvernig niðurskurðinn myndi leggjast á ákveðnar stofnanir.
Spjótin beinast ekki aðeins að Trump og stefnu hans þegar að þessum málum kemur heldur ekki síður Rex Tillerson, utanríkisráðherra og fyrrverandi forstjóra olíurisans Exxon Mobile. Undir leiðsögn þeirra mun bandaríska ríkið draga úr öllum fjárhagslegum stuðningi sínum í gegnum alþjóðasamstarf, en á sama tíma auka fjárútlát til hersins og í innviðafjárfestingar í Bandaríkjunum. Upphæðirnar eru gríðarlega háar. Framlög til hersins aukast um 54 milljarða Bandaríkjadala, eða meira en fimmfaldri árlegri upphæð Bandaríkjanna til SÞ eins og mál standa nú.
Innviðafjárfestingarnar, sem áformaðar eru, verða einnig umfangsmiklar. Heildaráætlunin hjá Trump hljóðar upp á þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 110 þúsund milljörðum króna.
Hin hliðin á þessum miklu áformum er mikill niðurskurður, hjá hinum ýmsu stofnunum og alþjóðasamtökum, og þar eru SÞ undir.
Kemur ekki á óvart
Ekki er hægt að segja að þessi áform hjá Trump komi á óvart. Þau eru algjörlega í samræmi við málflutning hans fyrir kosningar, nema hvað að það var auðvelt að skilja sum slagorð hans þannig, að ekki myndi einn einasti Bandaríkjadalur renna til SÞ.
Richard Gowan, sérfræðingur í málum SÞ hjá Evrópuráðinu, segir í viðtali við Foreign Policy að margar stofnanir muni fara sérstaklega illa út úr því, komi til þessa niðurskurðar. Flóttamannahjálp SÞ er ein þeirra undirstofnanna sem mun verða fyrir miklum niðurskurði. Af um fjögurra milljarða Bandaríkjadala fjármunum hennar, þegar allt er talið, þá koma 1,5 milljarðar frá Bandaríkjunum. Líklegt er að þetta muni ekki aðeins minnka heldur hverfa. Það eru um 170 milljarðar króna sem ekki munu fara í að aðstoða flóttamenn.
Margar aðrar undirstofnanir munu einnig finna fyrir verulegum niðurskurði og erfiðleikum, eins og World Food Program. Sérverkefni sem hafa notið stuðnings Bandaríkjanna, eins og aðgerðir vegna mannúðarstarfa í Suður-Súdan og aðgerðaáætlun vegna loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra á einstök svæði.
Endurskipulagning SÞ
Framundan virðist mikið starf þar sem þarf að endurskipuleggja hlutverk SÞ víða, gangi þessi áform Trump í gegnum þingið. Það gæti reynst þungt í skauti þar sem stuðningsmenn SÞ, og þess mikla starfs sem unnið er á vettvangi þeirra, koma bæði úr röðum Repúblikana og Demókrata.