Óhætt er að segja að fyrsti dagurinn á fjármálamarkaði, eftir að höft voru rýmkuð svo til alveg - þó lagalega séu þau enn til staðar - hafi verið sögulegur. Töluverð velta var á hlutabréfamarkaði og hækkaði vísitala hlutabréfamarkaðarsins um 1,7 prósent.
Þvert á það sem margir héldu, þá styrktist gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum, en það veiktist um 2 til 3 prósent í gær gagnvart Bandaríkjadal og evru. Dalurinn kostar nú 110 krónur og evran 117 krónur.
Vodafone rýkur upp
Mesta hækkunin á markaði var á bréfum Vodafone, en kaupum fyrirtækisins á fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu 365 - að Fréttablaðinu undanskildu - var vel tekið og hækkaði gengi bréfa félagsins um 5,47 prósent og var 56,9 í lok dags.
Tveir stjórnendur hjá Vodafone, þeir Kjartan Briem og Þorvarður Sveinsson, keyptu bréf í Vodafone samkvæmt tilkynningu til kauphallar. Keyptu þeir báðir fyrir lítilræði, eða tæplega eina milljóna króna að markaðsvirði.
Kaupverðið í viðskiptunum er 7.725-7.875 milljónir króna. Það greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum. Fréttablaðið verður þá eftir í sérstöku félagi. Um 90 prósent samlegðarinnar með þessum viðskiptum er vegna væntinga um lægri rekstrarkostnað.
Þá mun myndast um sjö milljarða króna óefnisleg eign hjá Fjarskiptum vegna kaupanna. Yfirteknar viðskiptaskuldir eru 1.550 milljónir króna en viðskiptakröfur verða skildar eftir hjá seljanda, 365 miðlum, við afhendingu. Fjarskipti áætla að fjárfesting í rekstri þeirra eigna sem félagið var að kaupa verði um 250 milljónir króna á ári.
Helstu áhættuþættir viðskiptanna eru sagðir þeir að Samkeppniseftirlitið banni eða setji kaupunum íþyngjandi skilyrði, að brottfall verði á viðskiptavinum við eða í kjölfar afhendingu á eignum eða að fækkum viðskiptavina í áskriftarsjónvarpi eins og það sem 365 hefur verið að reka haldi áfram að fækka, meðal annars með aukinni samkeppni frá erlendum efnisveitum eins og Netflix.
Erlendir fjárfestar létu sjá sig
Önnur félög hækkuðu öll nema Nýherji sem lækkaði lítið eitt, eða um 0,87 prósent. Samkvæmt heimildum Kjarnans komu erlendir fjárfestar nokkuð inna á markaðinn í dag, og keypt hlutabréf, meðal annars í fasteignafélögum. Mesta veltan var með hlutabréf í fasteignafélögum þremur, Eik, Reginn og Reitum. Samanlögð velta í þessum félögum var tæplega 2,7 milljarðar króna og hækkuðu bréfin um 1 til 3 prósent.
Hvað gerist á morgun?
Allra augu eru nú á Seðlabanka Íslands, en á morgun er vaxtaákvörðunardagur. Meginvextir bankans eru nú 5 prósent og verðbólga mælist 1,9 prósent, töluvert undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðinu.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði frá því, þegar tilkynnt var um losun hafta, að nú ættu að geta skapast skilyrði fyrir meiri lækkun stýrivaxta. Vandi er þó um slíkt að spá, þar sem staðan á mörkuðunum og í hagkerfinu hefur verið sveiflukennd og augljóslega mikil spennan í hagkerfinu vegna uppgangs ferðaþjónustunnar. Í fyrra var hagvöxtur 7,2 prósent á Íslandi, sem er með allra mesta móti á heimsvísu. Þá hefur olíuverð farið lækkandi að undanförnu, og kostar tunnan af hráolíu nú 47,7 Bandaríkjadali, en meðalverð síðasta áratuga er nærri 70 Bandaríkjadölum.
Þessi staða, bæði innanlands og utan, er góð fyrir stöðu mála á Íslandi. Innflutt verðbólga hefur verið lítið sem engin, vegna hagstæðra viðskiptakjara erlendis, og innanlands hefur mikil hækkun húsnæðisverðs verið það sem helst heldur lífi í verðbólgunni. Hækkun launa hefur þó einnig verið að hafa töluverð áhrif í rekstri fyrirtækja, þar sem rekstrarkostnaður hefur farið hækkandi.