Donald J. Trump kynnti í gær ríkisfjármálaætlun sína en hann mun í dag leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018 í þinginu. Áætlunin gerir ráð fyrir gríðarlegum breytingum frá því sem nú er. Niðurskurður verður fordæmalaus hjá næstum öllum undirstofnunum ríkisins og má búast við fjöldauppsögnum og niðurfellingum á ýmsum verkefnum, ekki síst á alþjóðavettvangi, strax í byrjun næsta árs.
Herinn og innviðir fá innspýtingu
Aukning verður í þremur málaflokkum. Í samgöngumál er aukningin 13 prósent, og hlutfallslega mest, til hersins um 10 prósent og síðan til varnarmálastofnanna innanlands um 7 til 10 prósent. Aukningin til hersins er langsamlega mest í Bandaríkjadölum mælt, eða 54 milljarðar Bandaríkjadala.
Niðurskurðarhnífurinn lendir harðar á stofnun umhverfismála (EPA) en þar er boðaður 30 prósent niðurskurður. Til utanríkismála er boðaður tæplega 30 prósent niðurskurður, en þar undir heyra meðal annars framlög til Sameinuðu þjóðanna, mannúðarmála og ýmissa alþjóðlegra verkefna sem Bandaríkin koma að. Gert er ráð fyrir að framlög Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna verði skert um 50 prósent, og fari úr 10 milljörðum Bandaríkjadala niður í 5 milljarða Bandaríkjadala.
Bitnar mest á fólki í neyð
Þessi niðurskurður mun bitna einna harðast á flóttamönnum í gegnum Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkin hafa lagt til 1,5 milljarð Bandaríkjadala af um fjórum milljörðum sem Flóttamannahjálpin fær, og má búast við miklum niðurskurði, sem bitnar hart á flóttamönnum í neyð, ef ekki kemur til svipað fjárframlag á móti frá öðrum þjóðum.
Þá er niðurskurðurinn á framlögum ýmissa velferðarmála, svo sem húsnæðisþróunarverkefna á vegum hins opinbera, menntamála, atvinnumála og félagsmála, verulegur, eða á bilinu 15 til 17 prósent. Niðurskurður á framlögum ríkisins til landbúnaðarmála er einna mestur, eða tæplega þrjátíu prósent, og þá lækka framlögum til NASA, geimvísindastofnunarinnar, um eitt prósent, en stjórnendur hennar höfðu sótt það fast að fá verulega aukningu á fjármunum til að sinna mikilvægum rannsóknum.
Barátta framundan
Í umfjöllun Bloomberg kemur fram að búast megi við mikilli pólitískri baráttu um áherslun Trumps, sem rýma nær alveg við stefnu hans (American First) um að setja bandaríska hagsmuni í fyrsta sætið með þeim hætti sem lýst er í ríkisfjármálaáætluninni.
Í ljósi þess hversu gríðarlega umfangsmikil fjárframlögin eru til hersins, þá er jafnvel búist við að útgjöld verði meiri á næsta ári en þau voru á þessu, samkvæmt þessari áætlun sem birtist í frumvarpinu.