Fátt bendir til annars en að þörf sé á miklu uppbyggingarátaki á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu til að skapa jafnvægi á markaðnum en samkvæmt greiningum Þjóðskrár og Sölva Blöndal, hagfræðings hjá Gamma, þá vantar á bilinu 7 til 8 þúsund íbúðir, einkum litlar og meðalstórar, inn á markað til að anna eftirspurninni. Þrátt fyrir að mikil uppbyggingaráform séu nú í gangi, þá virðist vanta mikið upp á ennþá.
Kortlagning og svo aðgerðir
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru stjórnvöld nú að vinna að ítarlegri kortlagningu á stöðu mála, með það að markmiði að undirbyggja sem best aðgerðir sem eiga að stuðla að því að hraða uppbyggingu og koma á meira jafnvægi á húsnæðismarkaði. Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra, hefur talað um að þessi vinna njóti forgangs hjá stjórnvöldum.
Í gær var greint frá því að Reykjavíkurborg hafi gengið frá úthlutun lóða til Bjargs íbúðafélags sem rekið er án hagnaðarsjónarmiða, en stofnendur þess eru ASÍ og BSRB. Félaginu er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að ódýru, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhenti Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ, Elín Björgu Jónsdóttur formanni BSRB og Birni Traustasyni framkvæmdastjóra Bjargs - íbúðarfélags lóðabréf þessu til staðfestingar í Spönginni í gær.
Úthlutun á næstu árum
Á þessu ári er gert ráð fyrir að úthlutað verði lóðum fyrir 250 íbúðir, árið 2018 verði úthlutað lóðum fyrir 300 íbúðir og árið 2019 verði úthlutað lóðum fyrir 300 íbúðir. Í fyrra var fyrsti skammturinn í þessari áætlun, en þá var 150 lóðum úthlutað.
Þetta er svo aðeins dropi í hafið, þegar litið er til stöðunnar á markaðnum í dag. Þróun fasteignaverðs ber þess glögg merki að mikil eftirspurn sé á markaðnum, miðað við takmarkað framboð. Fasteignaverð hefur hækkað um 18,6 prósent á síðustu tólf mánuðum og gera flestar spár ráð fyrir áframhaldandi hækkun, eða um allt að 30 prósent á næstu tveimur árum.
Einn af þeim sem hefur áhyggjur af stöðu mála er Gylfi Gíslason, varaformaður Mannvirkis - félags verktaka. Í viðtali við RÚV í gær sagði hann að alltof lítið hefði verið um lóðaúthlutanir á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Nauðsynlegt væri að grípa til samstilltra aðgerða, milli ríkis og sveitarfélaga, til að ná meira jafnvægi og aðstoða ungt fólk við að koma þaki yfir höfuðið.