Þó neikvæðir straumar frá hinu pólitíska sviði séu áberandi um allan heim þessi misserin þá er staða efnahagsmála að batna víða um heim. Það á við um Evrópu, Bandaríkin, mörg Asíu ríki og Suður-Ameríku einnig. Umdeildar embættisfærslur Donalds Trumps og deilur um allt mögulegt, hafa átt sviðið hjá stjórnmálamönnunum, en kröftugur efnahagsbati víða um heim hefur ekki komist mikið að í fyrirsögnum.
Í leiðara The Economist segir að þessu tíðindi sum part óvænt, þar sem fátt hafi bent til þess að efnahagur heimsins myndi rétta jafn kröftuglega úr kútnum og hann hefur gert að undanförnu.
Efnahagur Bandaríkjanna styrkist
Í Bandaríkjunum sköpuðust 298 þúsund ný störf í febrúar, sem var langt fyrir spám greinenda og með því mesta sem sést hefur í einum mánuði tæplega þrjú ár. Í 77 mánuði í röð hafa ný störf orðið til í Bandaríkjunum og flestar spár gera ráð fyrir vexti og framþróun á næstu misserum. Atvinnuleysi er nú undir 5 prósent að meðaltali, en staða efnahagsmála er þó æði misjöfn eftir ríkjum. Best er hún í strandríkjum á austur- og vesturströndinni en efnahagsbatinn hefur þó náð til flestra ríkja.
Og líka í Evrópu
Í Evrópu hefur hagvöxtur verið viðvarandi síðustu átján mánuði en atvinnuleysi er þó enn um 10 prósent að meðaltali. Samt hafa tölurnar ekki verið lægri frá því árið 2009 þegar þær fóru hratt hækkandi, ekki síst í Suður-Evrópuríkjum. En eftir miklar örvunaraðgerðir Seðlabanka Evrópu, þar sem peningum hefur verið dælt út á markað í gegnum skuldabréfakaup fyrirtækja, ekki síst fjármálafyrirtækja, þá hafa hjólin farið að snúast hraðar og hagvöxtur aukist.
En hvað með nýmarkaðsríkin?
Í The Economist kemur fram að stór lönd eins og Rússland og Brasilía, sem hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika undanfarin þrjú ár, gætu sýnt góðar hagvaxtar tölur á þessu ári, þvert á það sem talið var fyrir skömmu síðan. Olíudrifinn efnahagur landanna hefur sýnt batamerki eftir mikla lægð, þó enn sé langt í að staðan verði góð, einkum í Brasilíu. Þar búa 200 milljónir manna, eða sem nemur meira en samanlögðum íbúafjölda allrar Suður-Evrópu, og hafa erfiðleikar þar rist djúpt í hagkerfi Suður-Ameríku.
Ísland í fordæmalausri stöðu
En hvernig blasir staðan á litla Íslandi við, í þessu samhengi? Þó það sé ekki mikið upp úr því að hafa, að bera stöðu mála á Íslandi saman við stórþjóðir, þá verður ekki annað sagt en að bjartir tímar séu á Íslandi þessi misserin.
Í fyrra var hagvöxtur 7,2 prósent og hvergi í heiminum hefur fasteignaverð hækkað hraðar en á höfuðborgarsvæðinu undanfarið ár. Hækkunin nemur 18,6 prósentum. Þá er sár vöntun á vinnuafli, og útlit fyrir áframhaldandi hagvöxt og hækkanir á fasteignamarkaði. Drifkrafturinn er mikill vöxtur í ferðaþjónustu en spár gera ráð fyrir að 2,3 milljónir manna sæki Ísland heim á þessu ári, samanborið við 1,8 milljónir í fyrra.