Tíu þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að gerð verð rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Samkvæmt tillögunni á þriggja manna nefnd sem forseti Alþingis skipar að fara með rannsóknina og hún á að starfa í samræmi við lög um rannsóknarnefndir.
Nefndin, verði hún skipuð, á að leggja mat „hvernig til hafi tekist þegar fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands var komið á fót, m.a. framkvæmd hennar og efnahagsleg áhrif.“ Í þessu skyni geri nefndin grein fyrir:
- fjármagninu sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni;
- hvaðan fjármagnið kom;
- hvaða einstaklingar voru skráðir fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins eða hvaða félög og eignarhaldi; þeirra;
- hvernig fénu sem fært var inn til landsins var varið, þ.e. til hvaða fjárfestinga það var notað og hvaða áhrif þær fjárfestingar hafa haft á íslenskt efnahagslíf;
- hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna þessa og þá hversu stórt umfang slíks taps hafi verið.
Farið er fram á að nefndin skili niðurstöðum sínum í skýrsluformi svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 31. janúar 2018.
Gríðarlega umdeild leið
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka. Mun hagstæðara gengi.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
Margir innlendir aðilar nýttu sér leiðina
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi.
Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Seðlabankinn segir að sér sé ekki heimilt að greina frá nöfnum þátttakenda í gjaldeyrisútboðum sínum vegna þagnarskylduákvæðis í lögum um Seðlabanka Íslands.
Á meðal þeirra sem fjölmiðlar hafa greint frá að hafi nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Gagnrýnt í aflandseignaskýrslu
Skýrslu um aflandseignir og skattaundanskot Íslendinga, sem birt var snemma á þessu ári, er fjallað um fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp, hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandseyjunum hafi skilað sér Íslands, með gengisafslætti, í gegnum fjárfestingaleiðina.
Orðrétt segir: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“ Samkvæmt þessu gat því fé sem orðið hafði til vegna skattaundanskota komist aftur „heim“ til Íslands í gegnum fjárfestingaleiðina og eigendur þess notað hið illa fengna fé til að kaupa eignir hérlendis með afslætti.
Mikilvæg mál sem varðar almenning
Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögu Pírata segir að á undanförnum árum hafi gagnrýni á fjárfestingarleiðina verið hávær, en mismiklum rökum studd.
Sú gagnrýni hafi fengið byr undir báða vængi þegar skýrsla fjármála- og efnahagsráðuneytis, Eignir Íslendinga á aflandssvæðum, var birt í byrjun janúar.
„Segja má að sú rannsókn sem hér er stefnt að sé að einhverju leyti svar við ofangreindri skýrslu og að hún muni, síðast en ekki síst, varpa ljósi á hulinn hluta íslensks fjármálalífs undanfarinna ára og áratuga.“
„Lög um rannsóknarnefndir gera ráð fyrir því að Alþingi geti látið fara fram rannsókn á mikilvægu máli sem varðar almenning. Mikilvægi máls þessa felst í því að upplýsa um framkvæmd fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands, sem var liður í losun gjaldeyrishafta hérlendis. Fjárfestingarleiðin hefur verið gagnrýnd af ýmsum ástæðum, en telja verður sérstaklega mikilvægt í ljósi umræðu um aflandseignir og skattaundanskot á síðustu misserum að leitast verði við að rannsaka og fjalla um hvort fjárfestingarleiðin hafi stuðlað að því að fjármagn vegna skattaundanskota, sem geymt var í skjóli á aflandseyjum, hafi verið fært til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina með afslætti.“