Ýmsir annmarkar eru á matsskýrslu á umhverfisáhrifum á kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík, samkvæmt mati Umhverfisstofnunar. Ýmislegt var vanreifað þegar mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar fór fram. Þetta kemur fram í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn frá Skipulagsstofnun, sem Kjarninn hefur undir höndum.
Skipulagsstofnun sendi Umhverfisstofnun bréf í febrúar síðastliðnum vegna fréttaflutnings af uppbyggingu kísilvers United Silicon í Helguvík. Ítrekaðar fréttir hafa verið sagðar af mengun sem stafar frá starfseminni, og um helgina sagði bæjarstjórn Reykjanesbæjar að hún vildi láta loka verksmiðjunni.
Stofnunin segist hafa farið yfir gögn málsins sem lögð voru fram þegar mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar fór fram, og segir að í frummatsskýrslu um áhrif á loftgæði hafi þess hvergi verið getið að búast mætti við frávikum á mengun við gangsetningu á verksmiðjunni. Alltaf hafi verið gert ráð fyrir því að styrkur helstu mengunarefna yrði undir mengunarmörkum. Því segir Skipulagsstofnun það vekja athygli hversu mikið og þrálátt ónæði hafi verið af völdum loftmengunar frá því að starfsemi hófst hjá United Silicon. Stofnunin óskaði því eftir upplýsingum um það hvers konar mengun væri um að ræða og hver sé styrkur helstu mengunarefna.
Loks spurði Skipulagsstofnun Umhverfisstofnun álits um það hvort einhver efnisatriði hafi verið vanreifuð þegar mat á umhverfisáhrifum fór fram.
Umhverfisstofnun segir að svo hafi verið. Allt umhverfismatið og öll losun mengunarefna voru miðuð við það að rekstur verksmiðjunnar gangi eins og best verður á kosið. Ofnar séu keyrðir á kjörhita þannig að lítið sem ekkert af mengandi efnum myndist, og að allur reykur frá ofnunum fari í reykhreinsivirki. „Raunin er hins vegar sú að rekstur kísilvers Sameinaðs Sílikons hefur ekki verið með þessum hætti,“ segir í bréfi Umhverfisstofnunar.
Oft hafi þurft að slá út ofninum sem kominn er í vinnslu, „og meðan ofninn er ekki í kjörhita geta myndast ýmis óæskileg efni.“ Þegar ofninum er slegið út þarf líka að lækka í reykhreinsivirki, og þar sem engir skorsteinar eru á ofninum eða ofnhúsinu berst sá reykur sem þá myndast út um hurðir og loftræstiop. Ekki var gert ráð fyrir þessari losun í mati á umhverfisáhrifum, en Umhverfisstofnun segir að það virðist vera tengsl á milli fjölda kvartana frá almenningi og ofnstoppa hjá kísilverinu.
Þá eru fleiri tegundir losana sem ekki var gert ráð fyrir í umhverfismatinu. „Alveg ljóst er að ekki var fjallað um lyktarmengun í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna sem hér um ræðir og er það því eitthvað sem er einnig vanreifað í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdanna,“ segir Umhverfisstofnun.
Spurðu líka um Thorsil og PCC
Í bréfi sínu til Umhverfisstofnunar minnir Skipulagsstofnun á það að auk kísilvers United Silicon hafi einnig farið fram mat á umhverfisáhrifum á kísilveri Thorsil í Helguvík og verksmiðju PCC á Bakka. „Með hliðsjón af reynslu við gangsetningu verksmiðju United Silicon veltir stofnunin því fyrir sér hvort búast megi við sams konar erfiðleikum þegar Thorsil og PCC hefja sinn rekstur og óskar álits Umhverfisstofnunar um hvort einhver efnisatriði hafi verið vanreifuð þegar mat á umhverfisáhrifum verksmiðjanna fór fram.“
Umhverfisstofnun segir að í ljósi alls sé ekki hægt að fullyrða að erfiðleikar og ófyrirséð mengun muni ekki stafa af kísilverum Thorsil og PCC. „Umhverfisstofnun vill þó benda á að við útgáfu starfsleyfis til handa Thorsil skilaði Mannvit fyrir hönd fyrirtæksisins inn minnisblaði þar sem fram kemur samanburður á losun og meðhöndlun útblásturs Thorsil við starfsemi Sameinaðs Sílikons. Í niðurlagi þess minnisblaðs kemur fram að uppspretta reykjarlyktar muni verða mun minni þar sem fyrirtækið muni nota koks en ekki timbur við bökun fóðringa. Að auki verði dreifing á hugsanlegum raka og rokgjöfnu efni úr ofnfóðrinum meiri vegna hærri skorsteins. „Því ætti fólk ekki að verða fyrir óþægindum af uppkeyrslu ofna í verksmiðjum Thorsil“ segir í minnisblaði Mannvits,“ segir í svari Umhverfisstofnunar.
Í starfsleyfi Thorsil hafi verið bætt við tveimur nýjum kröfum hvað varðar bökun á fóðringum og lykt frá framleiðslustarfseminni. „Þessi ákvæði eru tilkomin vegna reynslunnar af rekstri Sameinaðs Sílikons en ekki er um slík ákvæði að ræða í starfsleyfi Sameinaðs Sílikons, enda um ófyrirséða mengun að ræða eins og rakið hefur verið hér að framan. Umhverfisstofnun vinnur nú að starfsleyfi fyrir PCC og hefur stofnunin óskað eftir sambærilegu minnisblaði frá því fyrirtæki við vinnslu starfsleyfisins.“