Óhætt er að segja að miklir uppgangstímar séu nú í efnahagslífi þjóðarinnar og er 7,2 prósent hagvöxtur í fyrra ekki síst til marks um það. Í meira þrjú ár hefur verðbólgan verið undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, og flestir hagvísar eru á þá leið að jákvæðir geta talist. Atvinnuleysi er um þrjú prósent og töluverð spenna á vinnumarkaði vegna vöntunar á vinnuafli, einkum í starfsemi í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.
Áfram deilt um vaxtastefnu
Þrátt fyrir þetta hafa deilur um vaxtastefnu Seðlabanka Íslands ekkert minnkað, heldur frekar harnað ef eitthvað er. Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvarðar vexti en meginvextir bankans eru nú 5 prósent.
Ýmsir hafa kallað eftir því að vextir verði lækkaðir. Þar á meðal Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, og forystufólk úr atvinnulífinu og verkalýðshreyfingunni. Ákallið eftir lækkun vaxta náði líka eyrum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem sagði í nýlegri yfirlýsingu sinni, vegna úttektar á stöðu efnahagsmála hér á landi, að tækifæri væru til lækkunar vaxta.
Spjótin beinast þar að fólkinu í vaxtaturninum, ef þannig mætti að orði komast. Í peningastefnunefndinni eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur, Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, og Katrín Ólafsdóttir, prófessor í hagfræði.
Innan þessarar nefndar fer fram rökræða um efnahagsmál, sem síðan leiðir til ákvarðana um vexti á hverjum tíma. Starf nefndarinnar er gagnsætt að því leyti, að fundargerðir nefndarinnar eru birtar tveimur vikum eftir vaxtaákvörðun, en í þeim má þó ekki greina hvernig einstaka nefndarmenn horfðu á málin á hverjum tíma. Á ársfundi er hins vegarbirt yfirlit yfir það hvernig nefndarmenn greiddu atkvæði.
Fimm sinnum sammála
Ólíkt var eftir tíma, hvaða nefndarmenn voru að styðja ákvörðun Seðlabankastjóra á hverjum tíma. Í fimm tilfellum af átta voru allir nefndarmenn sammála um vextina, en deildar meiningar voru á þremur fundum.
Lög um Seðlabanka Íslands kveða svo á að peningastefnunefnd haldi fundi að minnsta kosti átta sinnum á ári. Átta reglulegir vaxtaákvörð- unarfundir voru haldnir á árinu 2016, að því er fram kemur í ársskýrslu Seðlabanka Íslands, en nefndin hélt einnig aukafund 23. desember til að ræða gjaldeyrismál.
Jafnframt átti nefndin sameiginlegan fund með kerfisáhættunefnd til að ræða efnahagsþróun, stöðu fjármálakerfisins, flæði á gjaldeyrismarkaði og samspil peningastefnu og fjármálastöðugleika, að því er fram kemur í ársskýrslunni.
Hvernig kusu nefndarmenn?
Vaxtaákvarðanir nefndarinnar voru með eftirfarandi hætti, eins og þær koma fram í ársskýrslu Seðlabanka Íslands.:
10. febrúar: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra.
16. mars: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra.
11. maí: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra.
1. júní: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra. Seðlabankastjóri lagði einnig til að bindiskylda yrði lækkuð úr 2,5% í 2% frá og með næsta bindiskyldutímabili sem hæfist 21. júní. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra.
24. ágúst: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,5 prósentur. Már Guðmundsson, Gylfi Zoëga og Katrín Ólafsdóttir studdu tillöguna en Arnór Sighvatsson og Þórarinn G. Pétursson greiddu atkvæði gegn henni og kusu heldur að vextir yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur.
5. október: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Allir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra.
16. nóvember: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu óbreyttir. Már Guðmundsson, Þórarinn G. Pétursson og Katrín Ólafsdóttir studdu tillöguna en Arnór Sighvatsson og Gylfi Zoëga greiddu atkvæði gegn henni og kusu heldur að vextir yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur.
14. desember: Seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur. Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Gylfi Zoëga og Katrín Ólafsdóttir studdu tillöguna en Þórarinn G. Pétursson greiddi atkvæði gegn henni og kaus að vextir yrðu óbreyttir