Erik Prince, stofnandi einkahersins umdeilda Blackwater, sat fund með trúnaðarmönnum Vladímir Pútín Rússlandsforseta, hinn 11. janúar síðastliðinn, og var markmiðið með fundinum að koma upp samskiptaleið á milli Rússa og hóps valdamanna í Bandaríkjunum, sem styður aukin samskipti við Rússland, einkum á sviði varnarmála og viðskipta. Boston Globe greindi frá þessu í gær.
Fundað í Indlandshafi
Fundurinn fór fram á Seychelles eyjum í Indlandshafi, níu dögum áður en Trump tók formlega við sem forseti Bandaríkjanna, og var yfir honum mikil leynd, að því er fram kom í Boston Globe.
Umfjöllun blaðsins byggir á viðtölum við embættismenn í Bandaríkjunum, Evrópu og Sameinuðu arabísku furstdæmunum, en þeir eru allir sagðir búa yfir upplýsingum um fundinn, og þær upplýsingar er nú til rannsóknar hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum. Áður en fundurinn fór fram hittust aðilar, sem komu fundinum á, í New York og lögðu á ráðin.
Alríkislögreglan FBI er sögð vera að rannsaka tilefni fundarins og tengsl hans við aðra atburði þar sem tengslin milli Rússa og einstaklinga í baklandi Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, einkum í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum í fyrra, eru í brennidepli.
Á meðal þess sem er til rannsóknar er hvort samskipti við Rússa frá Bandaríkjunum hafi leitt til þess að gerðar voru tölvuárásir á Bandaríkin, þar á meðal framboð Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata í forsetakosningunum.
Prince er einn af helstu stuðningsmönnum Donalds Trumps og hefur opinberlega lýst því yfir að hann styðji stefnu hans í varnarmálum.
Rússarannsókn
Eins og fram hefur komið eru fundir Sergey Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, með áhrifamönnum í Bandaríkjunum á meðal þeirra atburða sem eru sérstaklega til rannsóknar.
Hann fundaði í nokkur skipti með Jeff Sessions, sem nú er dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og Michael Flynn, sem gengdi stöðu þjóðaröryggisráðgjafa frá 20. janúar til 13. febrúar, þegar hann var látinn taka pokann sinn. Ástæðan var sú að Flynn ræddi viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn Rússum við sendiherrann, en hann hafði áður upplýst varaforsetann, Mike Pence, um að það hefði ekki borið á góma í samtölum þeirra.
Engin friðhelgi?
Flynn hefur nú komið þeim skilaboðum til yfirvalda í Bandaríkjunum að hann sé tilbúinn að tala og veita upplýsingar, gegn því að fá friðhelgi þannig að ekki sé hægt að sækja hann til saka. FBI, CIA og Bandaríkjaþing hafa hins vegar ekki orðið við þessu og ekki liggur fyrir ennþá, hvernig Sessions gekk hins vegar svo langt að neita því eiðsvarinn frammi fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings, að hann hefði ekki átt í neinum samskiptum við Rússa í aðdraganda kosninganna 8. nóvember.
FBI bjó hins vegar yfir gögnum um fundi Sessions og Kislyak og staðfesti Sessions síðar að fundirnir hefðu farið fram. Hann sagði síðann að hann hefði misskilið spurninguna um þetta í þinginu, og því hefði hann sagt að hann hefði ekki verið í neinum samskiptum við Rússa.
Blackwater eitt púslið
Blackwater einkaherinn komst í kastljósið í Íraksstríðinu, þar sem hann fékk stór hlutverk í ýmsum aðgerðum, í samstarfi við Bandaríkjaher. Þá hefur Blackwater einnig starfað mikið fyrir olíuiðnaðinn í Bandaríkjunum og sinnt öryggisgæslu víða um heiminn fyrir hann.
Blackwater komst meðal annars í fréttirnar fyrir að bera ábyrgð á pyntingum og morðum í Írak. Tveir liðsmenn þessa einkahers voru sakfelldir fyrir að myrða óbreytta borgara.
Prince sagði í opinberri yfirlýsingu í gær að þessi fundur hefði ekkert tengst framboði Trumps, og þaðan af síður verið mikilvægur fyrir einhvers konar tengingu milli ríkjanna. Hann skýrði hins vegar ekki nákvæmlega hvað hefði verið rætt, en gaf í skyn að leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna ættu að eyða tíma sínum í eitthvað annað en að fylgjast með fundum eins og þessum.
Forsvarsmenn FBI og CIA hafa sagt, að sá tími verði tekinn í rannsóknina á þessum hlutum sem þarf.