Þeim feðrum sem taka fæðingarorlof með börnunum sínum hélt áfram að fækka í fyrra, samkvæmt nýjum tölum frá Fæðingarorlofssjóði. Færri feður taka fæðingarorlof en áður, og þeir sem taka orlof gera það í færri daga en áður.
Flestir sem að fæðingarorlofsmálum koma eru sammála um það að ákvörðun stjórnvalda um að skerða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verulega eftir hrun hafi haft mikil áhrif, sérstaklega á töku feðra á fæðingarorlofi. Meðal annars hefur Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, sagt að þetta einstaka kerfi, sem búið var að byggja upp á Íslandi hvað varðar fæðingarorlof karla, sé að molna niður fyrir framan okkur.
Frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslur úr sjóðnum eftir hrun hefur hlutfall þeirra karla sem taka fæðingarorlof farið úr 90 prósentum, árið 2008, í 74% í fyrra. Hlutfallið í fæðingarorlofi feðra hefur ekki verið lægra á þessu tímabili en í fyrra, og það hefur lækkað hratt á milli ára. Árið 2015 nýttu 80 prósent feðra fæðingarorlof sem þeir áttu rétt á að einhverju leyti.
Að sama skapi taka feður sífellt færri daga í fæðingarorlofi, en í fyrra tóku feður að meðaltali 75 daga í fæðingarorlof, en árið 2015 var meðaltalið 84 dagar, og fyrir hrun var það 101 dagur að meðaltali. Eingöngu ellefu prósent feðra taka meira en þá þrjá mánuði sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum, en þetta hlutfall var komið í 23 prósent árið 2008. Nú er einnig svo komið að helmingur feðra sem taka fæðingarorlof taka minna en þeir eiga rétt á, en hlutfallið hefur aldrei verið hærra. Árið 2008 tóku aðeins 22% feðra styttra orlof en þrjá mánuði.
Konurnar bera meginábyrgð
Á sama tíma hefur lítið breyst í fæðingarorlofstöku mæðra. Þær taka nú að meðaltali 182 daga í fæðingarorlof, en dagafjöldinn hefur verið sá sami frá árinu 2014, og aðeins sveiflast um örfáa daga á tímabilinu frá 2007 til 2016, sem tölurnar frá Fæðingarorlofssjóði ná yfir. 96 prósent mæðra taka meira fæðingarorlof en þá þrjá mánuði sem þær einar eiga rétt á að taka, og aðeins eitt prósent þeirra tekur minna.
BSRB fékk tölurnar um fæðingarorlofstöku frá Fæðingarorlofssjóði, og bendir á að mælingarnar sýni að það séu mæðurnar sem axla meginábyrgð á umönnun barna þar til dagvistunarúrræði taka við. „Hluti af vandanum er sá að engin trygging er fyrir dagvistunarúrræði að loknu fæðingarorlofi hér á landi. Mörg sveitarfélög á landsbyggðinni bjóða börnum upp á leikskólapláss frá eins árs aldri en á höfuðborgarsvæðinu er það nær tveggja ára aldri. Reykjavíkurborg hefur þó tilkynnt um að nokkrar leikskóladeildir fyrir ungabörn verði opnaðar í haust,“ segir í frétt BSRB.
Bent er á það að samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru langflest börn yngri en eins árs ekki í dagvistun. Fæðingarorlofskerfið og stefna stjórnvalda í dagvistunarmálum hafi þau áhrif að mæður axli meginábyrgð á umönnun barna, sem hefur neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku þeirra og getur haft áhrif á starfsþróunarmöguleika og tækifæri.
Sýnir líka fækkun fæðinga
Það er fleira sem tölurnar frá Fæðingarorlofssjóði sýna. Í fyrra tóku 3.867 mæður fæðingarorlof, sem gefur góða vísbendingu um fjölda fæðingar hér á landi, þrátt fyrir að taka beri fram að tölurnar fyrir 2015 og 2016 séu bráðabirgðatölur. Rétt tæplega 4.000 mæður tóku fæðingarorlof árið 2015, og 4.249 árið þar á undan. Fjöldi mæðra sem tók fæðingarorlof náði hámarki á árunum eftir hrun, en árin 2009 og 2010 tóku 4.965 og 4.817 mæður orlof.
Mikið hefur einnig verið fjallað um lækkandi fæðingartíðni undanfarin misseri. Til þess að viðhalda mannfjölda til langs tíma þarf hver kona að fæða 2,1 barn, en hlutfallið hér á landi var komið niður fyrir 1,8 barn á hverja konu.
Búið að hækka á ný
Talið er fullvíst að skerðingar á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eftir hrun hafi haft mikil áhrif á fæðingarorlofstöku feðra og fæðingartíðni. Í október síðastliðnum tók Eygló Harðardóttir, þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, þá ákvörðun að hækka hámarksgreiðslurnar úr Fæðingarorlofssjóði í 500 þúsund krónur, en fram að því hafði hámarkið um langt skeið verið 370 þúsund krónur, en eftir hrun fór þessi upphæð lægst niður í 300 þúsund krónur.
BSRB hefur bent á að fæðingarorlof má taka allt að 24 mánuða aldri barns og því muni fyrstu foreldrar sem njóta nýrra hámarksgreiðslna ekki koma inn í mælingarnar fyrr en í fyrsta lagi 15. október 2018. Því munu áhrifin ekki koma fram strax.
Starfshópur um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum skilaði tillögum til Eyglóar í mars í fyrra. Þar var lagt til að hámarksgreiðslur yrðu hækkaðar upp í 600 þúsund krónur, að fyrstu 300 þúsund krónur tekna verði óskertar en 80 prósent af tekjum umfram það. Þá lagði hópurinn til að hámarksgreiðslurnar myndu breytast í samræmi við launavísitölu hvers árs og að breytingarnar myndu taka gildi um síðustu áramót. Auk þess var lagt til að fæðingarorlof yrði 12 mánuðir í stað níu frá og með byrjun árs 2019 og að leikskóladvöl yrði tryggð í framhaldi af fæðingarorlofi.
Eygló ætlaði að leggja fram frumvarp sem byggðist á þessum tillögum en af því varð ekki.
Núverandi ráðherra þessara mála, Þorsteinn Víglundsson, ætlar að leggja fram frumvarp í haust þar sem hámarksgreiðslurnar verða hækkaðar í 600 þúsund krónum í þremur skrefum. Hann hefur hins vegar ekki áform um að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði, heldur sagt að forgangsatriðið sé að hækka greiðslur. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa aftur á móti lagt fram frumvarp um lengingu orlofsins í 12 mánuði, og það frumvarp er til meðferðar í velferðarnefnd Alþingis.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur þó fram að vinna þurfi markvisst að því að tryggja börnum leikskóla- eða dagvist þegar fæðingarorlofi sleppir, með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga. Ekki kemur fram með hvaða hætti þetta á að gera, né hvort stjórnvöld vilji þá að slík vistun yrði í boði frá níu mánaða aldri. Ekkert um þetta er sýnilegt í fjármálaáætluninni.