Meðlimir þungarokkshljómsveitarinnar Sepultura, og þá einkum bræðurnir Cavalera, eru hylltir sem þjóðhetjur í heimalandi sínu Brasilíu líkt og Pelé, Paulo Coelho og Ayrton Senna. Það er sjaldgæft að tónlistarmenn frá þriðja heims löndum nái viðlíkri frægð og þeir náðu fyrir rúmlega 20 árum síðan þegar þeir spiluðu fyrir hundruðir þúsunda á tónleikum og seldu milljónir platna. Þeir nýttu sér þessa sérstöðu í tónlistinni sem þróaðist hratt á leið þeirra á toppinn. En áföll og hjaðningavíg gerðu þá einnig eitt umtalaðasta og umdeildasta band síns tíma.
Skóli eða rokk
Cavalera fjölskyldan bjó í Sao Paulo, stærstu borg Brasilíu, á áttunda áratug síðustu aldar. Fjölskyldufaðirinn Graziano var ítalskur að uppruna og vann sem erindreki í sendiráðinu og móðirin Vania starfaði sem fyrirsæta. Þau áttu þrjú börn, bræðurna Max og Igor og Kiru litlu systur. Framtíðin var björt hjá fjölskyldunni og árið 1979 var stefnan sett á Rómarborg, þar sem Graziano bauðst staða.
En þá kom upp atburður sem setti allt úr skorðum. Fjölskyldan var á leið í barnaafmæli þegar Graziano fékk hjartaáfall undir stýri og lést, einungis rúmlega fertugur að aldri. Max og Igor, sem voru í bílnum, voru einungis 10 og 9 ára gamlir á þeim tíma. Með Graziano fór fjárhagurinn og Vania þurfti að flytja til foreldra sinna í borginni Belo Horizonte skömmu síðar. Lífið var erfitt í Belo Horizonte en bræðurnir fengu útrás fyrir gremju sinni í tónlist. Sem börn höfðu þeir lært á hljóðfæri og spilað samba og aðra þjóðlega tónlist. Max á gítar en Igor á trommur.
En á unglingsárunum komust þeir í kynni við rokktónlist hljómsveita á borð við Queen, Deep Purple og Black Sabbath. Smekkurinn þyngdist sífellt og þeir stofnuðu loks hljómsveitina Sepultura (gröf á portúgölsku) árið 1984 þegar þeir voru 14 og 13 ára gamlir. Breska hljómsveitin Venom var helsta fyrirmyndin hjá Sepultura-liðum sem spiluðu nýja tegund af tónlist, dauðarokk. Móðir þeirra var síður en svo letjandi í þessu fikti bræðranna og hún gerði svolítið sem fæstum foreldrum dytti í hug. Hún lét þá velja um að halda áfram í skóla eða hætta og einbeita sér að fullu að tónlistinni. Þeir völdu seinni kostinn og Vania tók það að sér að ýta Sepultura úr vör. Hún klæddi þá í leðurjakka og rifnar gallabuxur, klippti þá, keyrði þeim á tónleika og gerði húsið þeirra að miðstöð og æfingahúsnæði hljómsveitarinnar. Árið 1985 kom fyrsta EP-platan út, titluð Bestial Devastations en þá voru Max og Igor einungis 16 og 15 ára gamlir.
Frægðarstiginn
Bestial Devastations var gefin út hjá litlu brasilísku útgáfufyrirtæki að nafni Cogumelo Records og ber þess glögglega merki að vera verk barna, þ.e. hvað varðar lagasmíð, hljóðfæraleik og upptöku. Á ungæðislegan hátt var Max titlaður sem “hinn andsetni” og Igor sem “kúpubrjóturinn” á plötunni. En hún sáði fræum fyrir fyrstu plötu þeirra í fullri lengd, Morbid Visions, sem kom út ári seinna. Mannabreytingar voru tíðar í blandinu á upphafsárunum en Cavalera bræður voru staðráðnir í því að „meikaða”.
Þeir fluttu með bassaleikaranum Paulo Xisto til Sao Paulo til að fá fleiri tækifæri á að koma sér á framfæri og þar kynntust þeir gítarleikaranum Andreas Kisser sem gekk til liðs við þá. Þegar önnur plata þeirra í fullri lengd, Schizophrenia, kom út árið 1987 var bæði kominn á stöðugleiki og umtalsverðar framfarir í tónsmíð og hljóðfæraleik. Tónlistarstefna þeirra var einnig að þróast á þessum tíma úr hreinu dauðarokki yfir í hraðan thrash-metal.
Það var á þessum tíma sem að umheimurinn fór að taka eftir bandinu og hollensk/ameríska útgáfufyrirtækið Roadrunner Records voru fyrstir til að grípa gæsina. Líkt og góðir íþróttamenn bættu þeir sig með hverri plötunni. Beneath the Remains kom út árið 1989 og vakti heimsathygli innan þungarokksins og fékk ómælt lof gagnrýnenda. Sepultura spiluðu sína fyrstu tónleika í Bandaríkjunum á hrekkjavöku þetta sama ár og ári seinna höfðu þeir flutt höfuðstöðvar sínar til Phoenix í Arizona fylki. Aðlögunin tók nokkurn tíma vegna þess að meðlimir hljómsveitarinnar töluðu nánast enga ensku þrátt fyrir að hafa gefið út fjórar plötur á tungumálinu.
Um þetta leyti giftist Max umboðsmanni hljómsveitarinnar, Gloriu Bujnowski, sem vakti nokkra athygli í ljósi þess að hún var 15 árum eldri en hann. Sigurganga Sepultura hélt áfram með Arise, fyrstu gullplötunni, árið 1991 og þá var farið að nefna Sepultura í sömu andrá og risabönd á borð við Metallica, Slayer og Anthrax. Igor var einnig farinn að vekja athygli sem einn færasti trymbill rokkheimsins. En tónlist hljómsveitarinnar var ennþá í mótun. Þegar Chaos A.D. kom út árið 1993 voru dauðarokksáhrifin nánast horfin en pönkið farið að láta á sér kræla. Textarnir fjölluðu ekki lengur um skrímsli og djöfla heldur um raunveruleg samfélagsleg málefni. Platan var mun hægari en fyrri plötur og Sepultura-liðar leyfðu sér töluverða tilraunastarfsemi. Eitt lag á Chaos A.D. fékk marga til að lyfta annarri augnabrúninni, þ.e. hið órafmagnaða og sönglausa “Kaiowas” sem var nokkurs konar óður til frumbyggja Brasilíu. Það var þó einungis forsmekkurinn.
Rætur
Haustið 1995 héldu Sepultura-liðar djúpt inn í Amazon-frumskóginn til að hitta frumbyggja úr ættbálki sem kallar sig Xavante. Þrátt fyrir að vera Brasilíumenn var þetta veröld sem var þeim algerlega framandi. Sem betur fer talaði höfðingi ættbálksins örlitla portúgölsku og því gátu þeir átt samskipti við frumbyggjana. Þeir dvöldu þar um stund, spiluðu fyrir þá, lærðu af þeim og fengu innblástur. Höfðinginn sagði þeim að tónlist Xavante-ættbálksins væri ekki samin heldur kæmi til þeirra í draumi. Sepultura bjuggu til og hljóðrituðu þar tvö lög við erfiðar aðstæður þar sem þeir þurftu að nota bílarafhlöðuna til að knýja upptökutækið.
Þarna var tónninn sleginn fyrir næstu plötu þeirra, Roots, sem er án efa þeirra þekktasta verk og ein af þeim plötum sem mótuðu þungarokkssöguna. Sepultura fengu marga að borðinu við gerð plötunnar, þar á meðal samba-slagverksleikarann Carlinhos Brown sem útsetti trommurnar og slagverkið í samvinnu við Igor. Útkoman var einstakur bræðingur af þjóðlegum og alþjóðlegum straumum. Ein af mikilvægustu persónunum við gerð plötunnar var Dana Wells, stjúpsonur Max en þó einungis 6 árum yngri.
Hann kynnti hljómsveitina fyrir hinni nýju bylgju nu-metals sem var að ryðja sér til rúms í Bandaríkjunum með hljómsveitum á borð við Korn, Deftones og Limp Bizkit. Þessi áhrif leyndu sér ekki við gerð Roots og Wells kom þar mikið við sögu. Platan sló rækilega í gegn, seldist í bílförmum og sást ofarlega á almennum vinsældarlistum um allan heim. Frægð hljómsveitarinnar náði nú út fyrir heim þungarokksins. Þeir voru orðnir að þriðja heims tónlistarhetjum, líkt og Bob Marley, Youssou N´dour og Ravi Shankar. Þetta var hlutverk sem þeir tóku opnum örmum sem sást best þegar þeir gerðu ábreiðu af Bob Marley laginu “War” sem er byggt á ræðu Eþíópíukeisarans og Ras Tafari spámannsins Haile Selassie I. Max Cavalera tók þetta sérstaklega upp á sína arma, þar sem hann fór að skarta rasta-fléttum, skreyta sig með ættbálkaglingri og tala eins og sósíalískur skæruliðaforingi í viðtölum. Frægð hans olli því hins vegar að hinir meðlimir hljómsveitarinnar fóru að ókyrrast.
Et tu, Igor?
Sumarið 1996 túruðu Sepultura um Evrópu sem eitt stærsta rokkkband heimsins og framtíðin virtist ákaflega björt. En skömmu áður en hljómsveitin átti að stíga á svið á Monsters of Rock hátíðinni í Englandi þann 17. ágúst fengu Max og Gloria þær fréttir að Dana Wells hefði látist í bílslysi heima í Phoenix. Hjónin flugu strax heim en bandið spilaði sem þríeyki þennan dag og Andreas Kisser leiddi hljómsveitina í fjarveru Max.
Skömmu síðar funduðu þeir með Max þar sem þeir kröfðust þess að Gloria myndi stíga til hliðar sem umboðsmaður Sepultura. Þeir sögðu að fókus Gloriu væri alfarið á honum sjálfum á meðan þeir sætu eftir. Max tók þessu afar illa og sagði skilið við hljómsveitina. Honum fannst sem bróðir sinn hefði svikið sig og Kisser stolið bandinu af sér. Næstu vikur og mánuði var um fátt annað fjallað í rokkpressunni en Sepultura-skilnaðinn og aðdáendurnir skiptust í tvær fylkingar. En hver yrði ofan á?
Árið 1997 fór í að melta atburðina og að skipuleggja næstu skref. Sepultura réðu nýjan söngvara, hinn bandaríska Derrick Green, á meðan Max stofnaði nýja hljómsveit, Soulfly. Báðar hljómsveitirnar gáfu út plötur ári seinna. Plata Sepultura, Against, olli miklum vonbrigðum bæði hvað varðar sölu og gagnrýni. Max náði hins vegar að halda dampi með því að halda sér á svipuðum slóðum og Sepultura höfðu gert með Roots. Hann hélt frumbyggja og heims-þemanu áfram og fékk nu-metal stjörnur á borð við Chino Moreno úr Deftones og Fred Durst úr Limp Bizkit til að koma fram á samnefndu frumverki Soulfly. Hann fór einnig dýpra inn í andlega og trúarlega þætti í textagerð sinni. Tónlist hans féll einfaldlega betur að tíðaranda þungarokksins á þessum tíma en tónlist Sepultura sem þótti stöðnuð og óspennandi. Hann stólaði þó mikið á forna frægð á tónleikum og spilaði mikið af eldra Sepultura efni. En skilnaðurinn kom á endanum niður á báðum aðilum. Vinsældirnar og plötusalan hríðféll með hverri plötunni á fyrsta áratug 21. aldarinnar og galdurinn virtist vera horfinn. Það eina sem hreyfði við fólki var tilhugsunin um sættir milli aðilanna og að gamla Sepultura myndi einhvern tímann stíga aftur á svið.
Sögulegar sættir
Í júlí mánuði árið 2006 fékk Gloria Bujnowski óvænt símtal frá Igor Cavalera. Hann var þá hættur í Sepultura og baðst afsökunar á framferði sínu. Svo var Max réttur síminn en það var í fyrsta skipti í 10 ár sem bræðurnir töluðust við. Þeir sættust samstundis og Max bauð honum til Phoenix í heimsókn. Skömmu síðar spilaði Igor nokkur gömul Sepultura lög á tónleikum með Soulfly við mikil fagnaðarlæti áhorfenda. Max sagði honum (ranglega) að hann væri með heila plötu tilbúna sem þeir bræður gætu unnið saman að og Igor sló til.
Úr varð hljómsveitin Cavalera Conspiracy sem hefur gefið út 3 plötur síðan þá. Hljómsveitin spilar gamaldags thrash-metal og dauðarokk og er nokkurs konar afturhvarf til gullaldar Sepultura á níunda og tíunda áratugnum, þó að vinsældirnar og plötusalan hafi ekki náð sömu hæðum. Aðdáendur voru þó ánægðir með að sjá bræðurna aftur samankomna á sviði. Ennþá heyrast þó þær raddir sem vilja fá að sjá alla gömlu hljómsveitina samankomna en sambandið milli Max og Andres Kisser er ennþá mjög stirt. Þeir senda hvorum öðrum reglulega pillur í viðtölum og þegar þeir mætast á tónleikahátíðum er andrúmsloftið ávallt vandræðalegt og þrúgandi.
Cavalera Conspiracy hefur alltaf verið hliðarverkefni hjá bræðrunum. Soulfly er ennþá aðalhljómsveit Max og hefur nú gefið út 10 plötur. Igor (eða Iggor eins og hann kallar sig nú) býr nú í Lundúnum, hannar föt og spilar með eiginkonu sinni í elektrónísku danshljómsveitinni Mixhell. Árið 2016 voru liðin 20 ár frá því að platan Roots kom út og í tilefni af því ákváðu Cavalera bræðurnir að spila plötuna í heild sinni á tónleikahátíð í Kanada þá um sumarið, undir nafninu Max & Iggor Return to Roots.
Það gekk það vel að þeir skipulögðu tónleikaferð um Ameríku og Evrópu um haustið með sama fyrirkomulagi. Ferðalagið var svo framlengt fram á árið 2017 og nýlega var tilkynnt að bræðurnir myndu spila hér á Íslandi í fyrsta sinn. Þeir munu stíga á stokk þann 7. júlí í Neskaupsstað á tónlistarhátíðinni Eistnaflugi ásamt fleiri þekktum rokknúmerum. Þrátt fyrir takmarkaðan fjölda sem kemst þar að er ekki hægt að segja annað en að þetta sé einn af stærri viðburðum í rokksögu Íslands, enda hafa bræðurnir selt meira en 20 milljónir platna í gegnum tíðina og eru meðal umtöluðustu þungarokkara allra tíma.