Eru allir fataskápar á heimilinu troðfullir? Er upp undir helmingur þess sem þar liggur á hillum, í skúffum og hangir á slám, aldrei notaður? Eru þar margar flíkur sem keyptar voru bara si svona og fóru beina leið í skápinn þegar heim var komið og hafa aldrei verið notaðar. Veltirðu stundum fyrir þér hvers vegna þú keyptir þessa flík, því að þegar þú fórst út úr búðinni með plastpokann (þú átt líka 100 slíka) vissirðu að þú myndir aldrei nota hana?
Mjög margir svara þessum spurningum játandi. Og það svar er ekki byggt á einhverskonar huglægu mati heldur staðreyndum. Í könnun sem bresku umhverfissamtökin WRAP gerðu, árið 2016, kom í ljós að meira en þriðjungur allra flíka í fataskápunum hafði ekki verið notaður í heilt ár og margar reyndar aldrei. Þær flíkur höfðu einfaldlega verið settar inn í skáp þegar komið var með þær heim úr búðinni og síðan ekki söguna meir. Ýttust smám saman aftar og aftar í skápinn og lágu svo þar. Í könnuninni kom líka fram að margir höfðu algjörlega gleymt mörgu því sem í skápunum var, rámaði ekki einu sinni í að hafa keypt flíkurnar.
Nýtni var dyggð
Áður fyrr var nýtni talin dyggð. Kom til af nauðsyn. Þar sem lítið er til skiptir miklu að fara vel með, Það gildir ekki síður um fatnað en annað. Sjálfsagt þótti að bæta götóttar buxur, setja úlnliðsbætur á jakka og peysur, staga í sokka. Þegar barn bættist í fjölskylduna komu ættingjar með notuð föt, dúnn og fiður úr gömlum sængum notað í nýjar sængur og svona mætti lengi telja. Kartöflurnar og kjötið sem afgangs var eftir kvöldmatinn var geymt til morguns. Allt var einhvers virði. Það átti ekki að henda verðmætum. Orðið neysluþjóðfélag var ekki til. Ekki heldur orðið matarsóun.
Eftir síðari heimsstyrjöld breyttist margt
Eftir lok síðari heimsstyrjaldar urðu miklar breytingar í hinum vestræna heimi, ekki hvað síst á Íslandi. Efnahagur fór almennt batnandi, vélvæðing í fataiðnaði jókst, það þýddi lægra verð. Vöruúrvalið jókst sömuleiðis, „allt frá hatti oní skó“ hljómaði auglýsingaslagorð þekktrar herrafataverslunar í Reykjavík. Póstverslunin Hagkaup tók til starfa í Reykjavík, nýr hagkvæmur verslunarmáti sagði í auglýsingum. Þar var hægt að kaupa fatnað, kventöskur, sportvörur og margt fleira.
Þverhandarþykkum vörulistum (ekki síst Quelle) var flett heilu kvöldin við íslensku eldhúsborðin, spáð og spekúlerað. Svo var send skrifleg pöntun og eftir það tók við óþreyjufull bið eftir að pakkinn kæmi, með póstinum. Ferðalögum Íslendinga til útlanda fjölgaði og gjarna komið heim með níðþungar ferðatöskur, vonandi hindrunarlaust framhjá tollvörðunum. Þótt hér hafi Ísland verið tekið sem dæmi gilti það sama um mörg önnur lönd, burtséð kannski frá þungu töskunum og tollvörðunum.
Lægra verð, auknar tískukröfur
Þetta sem hér hefur verið nefnt hefur allt orðið til þess að fataeign almennings hefur stóraukist. Þótt klæðaskáparnir hafi stækkað hefur fatahaugurinn stækkað enn hraðar.
Fataframleiðendur hafa ekki látið sitt eftir liggja. Þeir koma í sífellu með nýja og nýja „fatalínu“. Auglýsingar sem leggja áherslu á það nýjasta sem „þú verður að eignast“ því annars ertu bara „púkó“ og hver vill það? Aukin vélvæðing og framleiðsla í löndum þar sem laun eru lægri hafa orðið til þess að fatnaður verður sífellt ódýrari.
Kaupendahópurinn stækkar og stækkar
Fataframleiðslan eykst sífellt og hefur að magni til tvöfaldast frá síðustu aldamótum. Hluti þess fer nú í endurvinnslu en hluti þess liggur í fataskápunum. Sérfræðingar telja að á næstu árum stækki sá hópur semkaupir föt í stórum stíl umtalsvert. Þar veldur miklu bættur efnahagur fjölmennra þjóða eins og Kínverja og Indverja. Umhverfissamtök hafa lýst miklum áhyggjum vegna þeirra áhrifa sem sífellt meiri fataframleiðsla hefur á umhverfið (til að framleiða einn stutterma bol þarf til dæmis 1.500 lítra af vatni).
Hvað með endurnýtingu?
Margar evrópskar og alþjóðlegar hjálparstofnanir taka á móti fatnaði, sem þær ýmist selja, og nota andvirðið til góðra verka, eða senda til fátækra, ekki síst í Afríku. Sum Afríkulönd hafa reyndar að undanförnu afþakkað fatasendingar, þurfa ekki að þeim að halda. En það er líka hægt að endurnýta fatnaðinn með öðrum hætti, semsé að sauma nýtt úr því gamla. En efnin hafa breyst, þau eru ekki jafn vönduð og þau voru áður, það er ein afleiðing lægra verðs. Gallabuxurnar sem áður fyrr entust kannski árum saman gera það ekki lengur. Efnið er lélegra, tvinninn líka. Gæðin eru einfaldlega ekki þau sömu og áður, fatnaðurinn er ekki gerður til að endast árum saman.
Tíu þúsund tonn á dag
Í Evrópu fara um tíu þúsund tonn á dag um endurnýtingarstöðvar. Eitt stærsta fyrirtækið á því sviði er hollenska fyrirtækið Episod sem hefur aðsetur í nágrenni Amsterdam. Episode tekur á móti fatnaði frá mörgum Evrópulöndum. Starfsfólkið flokkar fatnaðinn, sumt er selt í fjölmörgum verslunum fyrirtækisins í Hollandi, Bretlandi, Frakklandi, Danmörku og víðar, annað er tætt í sundur í sérstökum vélum og selt til fataframleiðenda sem nota efnið svo í nýjar flíkur. Í Hollandi eru fjölmörg endurnýtingar- og endurvinnslufyrirtæki, misstór og sum sérhæfð. Danskir fréttamenn sem fóru til Hollands gagngert til að kynna sér endurvinnslufyrirtæki voru orðlausir yfir því sem þeir sáu. Endurnýtingin og endurvinnslan er orðinn stór atvinnuvegur.
Hver Dani kaupir árlega 16 kíló af fötum
Í nýlegri norrænni skýrslu (Ísland og Noregur voru ekki með) kemur fram að Danir kaupa fleiri flíkur en Svíar og Finnar. Hver Dani kaupir árlega 16 kíló af fötum, fatakaup Dana eru því samtals um 89 þúsund tonn, á hverju einsta ári. Það vakti sérstaka athygli skýrsluhöfunda að stór hópur fólks á aldrinum 18 til 29 ára hafði margoft á árinu sem rannsóknin tók til keypt föt af því að ungmennin töldu sig ekki eiga neitt hreint til að fara í. Margir úr þessum hópi sögðust oft kaupa föt til þess að nota einu sinni. Helmingur þessara 89 þúsund tonna er hvorki endurnýttur né endurunninn og lendir því, fyrir utan það sem bætist í skápana, í tunnunni og endar svo í fjarvarmakyndistöðvum.
Umhverfissérfræðingar segja að fataiðnaðurinn sé næstmesti mengunvaldur í heimi, aðeins olíuiðnaðurinn mengi meira. Það jákvæða sé hins vegar að nú sé aukinn áhugi á endurnýtingu og endurvinnslu, það sé ekki lengur hallærislegt að ganga í fötum sem einhver annar hefur átt og notað.