Margt hefur verið skrifað um Vaðlaheiðargöngin og sýnist sitt hverjum eins og eðlilegt er þegar stórar samgönguframkvæmdir eru annars vegar. Líkt og með öll jarðgöng eru Vaðlaheiðargöngin kostnaðarsöm framkvæmd en þau verða 7,5 km að lengd.
Göngin munu tilheyra þjóðvegi nr 1 og leysa af fjallveginn um Víkurskarð sem oft hefur reynst farartálmi yfir vetrartímann.
Með tilkomu ganganna mun hringvegurinn styttast um 16 kílómetra. Fyrir íbúa á Norðurlandi, ferðamenn á svæðinu og fyrirtæki verður þessi samgöngubót lyftistöng. Með göngunum styttist vegalengdin á milli Eyjarfjarðarsýslu og Þingeyjarsýslna með tilheyrandi hagræðingu fyrir þá sem þurfa að sækja atvinnu á þessum svæðum, auk þess sem samgöngur verða tryggari allan ársins hring sem styrkir meðal annars ferðaþjónustuna á svæðinu.
Þá verða göngin ekki síður mikilvæg fyrir öryggi íbúanna í Þingeyjarsýslum þar sem Sjúkrahúsið á Akureyri þjónar þeim sem aðalsjúkrahús. Ekki verður mikil hætta á að lokast austan Vikurskarðs vegna veðurs, eins og mörg dæmi eru um, þegar göngin verða komin í gagnið.
Göngin verða dýrari
Margar fréttir hafa verið skrifaðar um vandræðin sem upp hafa komið við gerð Vaðlaheiðarganga. Þau hafa þau tekið lengri tíma en reiknað var með og svo verða þau talsvert dýrari en lagt var upp með.
Í júní 2012 samþykkti Alþingi lög um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í þeim fólst að ríkissjóður gat lánað allt að 8,7 milljarða króna til verkefnisins, á því verðlagi sem var í lok árs 2011. Vextir á lánunum voru allt að 3,7 prósent og átti það fé að duga fyrir stofnkostnaði.
Sérstakt félag var stofnað utan um framkvæmdina, Vaðlaheiðargöng ehf. Meirihlutaeigandi þess félags er Greið leið ehf. í eigu Akureyrarbæjar, fjárfestingarfélagsins KEA og Útgerðarfélags Akureyringa. Minnihlutaeigandi í félaginu er Vegagerðin. Gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið í árslok 2016 og að gangagröftur myndi klárast í september 2015. Vinnan hefur hins vegar gengið hægar, meðal annars vegna mikils vatnsisflæðis og erfiðleika við að bora, en nú er útlit fyrir að göngin verði tilbúin á næsta ári. Stjórnvöld ákváðu á dögunum að samþykkja frekari lánvetingar til að ljúka framkvæmdum um allt að 4,7 milljarða.
En þrátt fyrir þetta, þá munu notendur ganganna sjálfir borga fyrir þau á endanum með veggjöldunum sem innheimt verða og ríkið mun eignast þau eftir áratugi og þá verða þau skuldlaus eins og nú er að gerast með Hvalfjarðargöng.
Umferðarspár
Þegar ákveðið var að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga var gerð spá um umferð, enda umferð um göngin grundvöllurinn fyrir því að glöggva sig á rekstrinum. Í skýrslu IFS um mat á forsendum Vaðlaheiðarganga sem unnin var fyrir Fjármálaráðuneytið árið 2012 kemur fram að umferðarspáin sem lá til grundvallar (meðalspá) var upp á 1% aukningu (meðaltalsumferð um Víkurskarð á dag á heilsársvísu – ÁDU) í umferð fram til 2015 en 2% aukningu frá 2015-2025.
Skrifað var undir samninga við verktaka um verkið í upphafi árs 2013.
Rauntölur vs umferðarspár
Frá því skýrsla IFS kom út árið 2012 og frá því skrifað var undir við verktakana árið 2013 hefur mikið vatn runnið til sjávar. Ekki er úr vegi að skoða ofan í kjölinn hvernig umferðarspáin sem lá til grundvallar við ákvörðun um smíði ganganna hefur staðist tímans tönn.
Með því að skoða rauntölur Vegagerðarinnar um umferð á þjóðvegi nr 1 frá 2012-2016 kemur ýmislegt merkilegt í ljós.
Á Víkurskarði er talningarstaður yfir umferð á hringveginum. Á meðfylgjandi mynd sést að umferðin yfir Víkurskarð hefur aukist mun meira en spáin sem lá til grundvallar framkvæmdinni gerði ráð fyrir. Umferðin hefur aukist um 47% á árabilinu 2012-2016 en spáin gerði ráð fyrir 8% aukningu. Aukningin hefur haldið áfram á fystu mánuðum ársins 2017 og útlit fyrir að hún geti orðið mun meiri, samhliða vexti í ferðaþjónustu.
Helstu skýringar á þessari miklu umferðaraukningu er aukinn ferðamannastraumur um hringveginn. Þá hefur aukinn kraftur í atvinnumálum á Norðurlandi einnig haft sitt að segja.
Umferðargrunnurinn sterkur
Umferðartölur Vegagerðarinnar á Víkurskarði sýna að umferð hefur aukist tæplega 40% meira á árabilinu 2012-2016 samanborið við þá spá sem lá til grundvallar ákvörðuninni um smíði ganganna.
Tekjugrunnur ganganna er miklu sterkari en áður var reiknað með og þegar göngin verða opnuð á næsta ári verður umferðin um þau að líkindum um 30-40% meiri á fyrsta rekstrarári þeirra heldur en talið var á þeim tíma sem framkvæmdin var ákveðin.