Tæplega 40 prósent allra sem fá fjárhagslega aðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg er fólk á aldrinum 20 til 29 ára. Hlutfallið er lægra en fyrir hrun, en árin 2007 og 2008 voru 48 og 45 prósent allra sem fengu fjárhagslega aðstoð til framfærslu á þessum aldri.
Þetta kemur fram í tölfræði Reykjavíkurborgar. 882 einstaklingar á aldrinum 20 til 29 ára fengu fjárhagsaðstoð til framfærslu í fyrra, sem gera 39,1 prósent af þeim 2.259 einstaklingum sem í heildina fengu slíka aðstoð.
Reykjavíkurborg skiptir þessum hópi í tvennt, annars vegar 20 til 24 ára og hins vegar 25 til 29 ára. Hóparnir eru nánast jafnstórir, 444 einstaklingar á aldrinum 20 til 24 ára og 438 á aldrinum 25 til 29 ára.
27,1 prósent, eða 612 einstaklingar, á aldrinum 30 til 39 ára fá fjárhagslega aðstoð til framfærslu frá borginni. Þetta hlutfall hefur farið hækkandi á undanförnum árum, en var í kringum 23 til 24 prósent á árunum fyrir hrun.
Fólk á aldrinum 40 til 49 ára eru 14,3 prósent þeirra sem fá aðstoð og 10,4 prósent eru á aldrinum 50 til 59 ára. 3,2 prósent eru á aldrinum 60 til 66 ára og 2,6 prósent yfir 66 ára aldri.
Færri fá aðstoð
Árið 2008 fengu 1.876 einstaklingar fjárhagsaðstoð sér til framfærslu í borginni, en strax árið 2009 fjölgaði þeim um sex hundruð, upp í 2.489 einstaklinga. Þeim fjölgaði svo á hverju ári til ársins 2013, þegar 3.350 einstaklingar fengu framfærslu frá borginni. Í fyrra var fjöldinn svo 2.259 einstaklingar, sem eru færri en nokkuð annað ár eftir hrun.
Þegar skoðaðar eru tölur yfir hlutfall þeirra fjölskyldna í Reykjavík sem fá fjárhagsaðstoð sér til framfærslu kemur í ljós að 3,1 prósent fjölskyldna fá aðstoð frá borginni. Þegar skipt er eftir þjónustumiðstöðvum borgarinnar sést að hlutfallið er hæst í Breiðholti, 4,6 prósent, en lægst í Grafarvogi og á Kjalarnesi, 2,4 prósent. Í Laugardal og Háaleiti er það 2,5 prósent, 2,7 prósent í Árbæ og Grafarholti og 3,2 prósent í Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum.
Ennfremur er hægt að skoða fjölda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu barnafjölskyldna, en í fyrra voru það 564 sem fengu slíka aðstoð. Þessir 564 voru með 913 börn á sínu framfæri samkvæmt tölunum. Það eru talsvert færri en mest hefur verið á síðustu árum, en árið 2012 voru 895 fjölskyldur með 1.335 börn með fjárhagsaðstoð sér til framfærslu hjá borginni.