Á tiltölulega skömmum tíma hefur lífeyrissjóðakerfi landsmanna breyst mikið. Fyrir tæplega tuttugu árum var nánast ekkert af eignum lífeyrissjóðanna geymt í eignum erlendis en miklar breytingar urðu á ávöxtunarmarkaðnum í kjölfar einkavæðingar bankanna og líflegri markaðar á Íslandi, og meiri tengingar við alþjóðlega markaði.
Á tíu árum fór hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóðanna úr 5 prósent í um 30 prósent. Auk þess sem lífeyrissjóðakerfið stækkaði úr um 60 prósent af árlegri landsframleiðslu í um 140 prósent um þessar mundir.
Vöxtur í erlendum eignum
Hlutfall erlendra eigna er nú um 22 prósent, og eins og starfshópur stjórnvalda bendir á í skýrslu sinni um fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis, þá er enn töluvert svigrúm í lögum fyrir frekari fjárfestingar. Það sem helst þarf að varast í þeim efnum er að gengisstöðugleiki hverfi ekki á Íslandi með tilheyrandi rússíbanareið fyrir hagkerfið. Því leggur starfshópurinn til að fjárfestingar verði jafnar og nokkuð fyrirsjáanlegar erlendis.
En í hverju er lífeyrir Íslendinga geymdur, miðað stöðu mála eins og hún var í lok árs í fyrra?
Í skýrslu fyrrnefnds starfshóps sést hvernig skiptingin er í grófum dráttum, en að baki lífeyrissjóðakerfinu standa á þriðja tug lífeyrissjóða.
Eiga miklar skuldir
1. Um 993 milljarðar króna liggja í skráðum hlutabréfum. Á Íslandi eru það félög sem skráð eru í kauphöll Íslands. Stærstu félögin á markaðnum eru Marel, Össur og Icelandair, en lífeyrissjóðir eru eigendur að minnsta kosti 40 til 50 prósent alls hlutafjár á markaðnum í heild, en sautján félög eru skráð á markaðnum.
Markaðsvirði allra skráðra félaga er nú rúmlega þúsund milljarðar á íslandi, eins og mál standa nú, en til viðbótar við skráð íslensk hlutabré eiga sjóðirnir einnig eignir í skráðum erlendum félögum.
Oft er þessi eign í gegnum fjárfestingasjóði en samtals voru um 595 milljarðar króna í gegnum hlutdeildarskírteini í sjóðum.
2. Stærstur hluti eigna lífeyrissjóðanna er í markaðsskuldabréfum, eða 2.390 milljarðar króna. Þetta eru meðal annars skuldabréf Íbúðalánasjóðs, ríkisskuldabréf, oft verðtryggð.
3. Lán til sjóðfélaga hafa farið vaxandi að undanförnu, enda bjóða lífeyrissjóðir nú betri lánakjör heldur en viðskiptabankarnir. Samtals námu lán til sjóðfélaga 237 milljörðum króna í lok árs í fyrra.
Innlendar eignir voru 2.750 milljarðar en erlendar eignir 764 milljarðar. Samtals námu eignirnar því 3.514 milljörðum eða sem nam um 145 prósent af árlegri landsframleiðslu miðað við stöðuna eins og hún var um síðustu áramót.