Fjármálaráð, óháð ráð sérfræðinga sem hefur metið fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2018 til 2022, segir að stjórnvöld séu frekar að stíga létt á bensíngjöfina, með áætluninni, meðan þau ættu í reynd að vera að bremsa. Mikill efnahagslegur uppgangur hefur verið á undanförnum árum en hagvöxtur í fyrra mældist 7,2 prósent og vöntun er á vinnuafli í landinu, sé horft til næstu ára.
Í fjármálaráði sitja Gunnar Haraldsson, ráðgjafi og fyrrverandi forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem er formaður, Arna Olafsson, lektor í fjármálahagfræði við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, Axel Hall, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir hagfræðingur og Þóra Helgadóttir Frost, ráðgjafi og fyrrverandi hagfræðingur hjá breska fjármálaráðinu.
Gagnrýnt og hrósað
Álit fjármálaráðs er það fyrsta sem það sendir frá sér um fjármálaáætlun stjórnvalda. Meginskattabreytingin í fjármálaáætluninni felst í því að færa virðisaukaskatt á ferðaþjónustu 1. Júlí á næsta ári úr neðra þrepi, sem er 11%, í það efra, sem er 24%. Í framhaldinu á svo að lækka skattprósentuna í efra þrepinu niður í 22,5% .
Samtök ferðaþjónstunnar hafa gagnrýnt þetta harðlega og sagt að breytingin geti grafið undan ferðaþjónustunni. Í umsögn fjármálaráðsins segir hins vegar að erfitt sé að sá haldbær rök fyrir því að ferðaþjónustan búi við annan veruleika þegar kemur að virðisaukaskatti en aðrar atvinnugreinar.
Almenn lækkun á skattþrep virðisaukaskatts, sem á að koma til framkvæmda í janúar 2019, er hins vegar gagnrýnd en sú aðgerð er réttlætt með því aukna svigrúmi sem hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu skapi. „Sú sértæka aðgerð er líkleg til að ganga gegn grunngildinu um stöðugleika við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja,“ segir í álitsgerðinni.
Ánægður með álitið
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir á Facebook síðu sinni að mörg þau atriði sem nefnd eru í álti fjármálaráðs eigi rétt á sér. Að mörgu sé að hyggja þegar kemur að hagstjórninni og meðal annars þurfi sveitarfélög og ríki að huga að því hvernig þau geti stillt saman strengi. Það sem miklu skipti sé að halda áfram á þeirri vegferð að greiða niður skuldir hins opinbera og samræma hagstjórn eins og kostur er.
„Meginatriði í gagnrýni snýr að aðhaldi í ríkisrekstri og ég er sammála því aðhaldið má ekki minna vera miðað við þær væntingar sem við höfum til hagkerfisins næstu árin. Á móti verður auðvitað að taka tillit til þess að á árunum eftir hrun hefur viðhald og uppbygging verið í lágmarki og því nauðsynlegt að fara í framkvæmdir á mörgum sviðum. Ríkisfjármál verða alltaf að feta einstigið á milli þessara sjónarmiða. Gagnrýnt er að byggt er á takmörkuðu þjóðhagslíkani sem ekki tekur mið af áætluninni sjálfri. Þetta er rétt og nú er að fara í gang vinna við að gera nýtt sjálfstætt þjóðhagslíkan sem fjármálaráðuneytið getur notað við áætlanir sínar. Þá verður auðveldara að gera flóknari greiningar og leggja fram sviðsmyndir, sem gjarnan mætti gera.
Stefnt er að því að þetta líkan verði komið rekspöl þegar næsta áætlun verður lögð fram. Um sumt er líka hægt að vera ósammála; til dæmis eru hagfræðingar mjög ósammála um hvort hagsveifluleiðrétting væri til bóta eða ekki, en fjármálaráð telur að það væri til bóta. Fjármálaráð telur að aðhald í ríkisrekstri mætti gjarnan vera meiri. Þetta á sér samhljóm í gagnrýni SA og fleiri en ASÍ og aðrir vilja meiri útgjöld og/eða minni skattahækkanir. Hér er það hlutverk áætlunar að finna bil beggja án þess að ógna stöðugleika,“ segir Benedikt.