Ferðaþjónustan er stóra ástæðan fyrir þeim efnahagsbata sem orðið hefur á Íslandi eftir hrun. Ef spár ganga eftir verða erlendir ferðamenn 2,3 milljónir á þessu ári, og fimmta hver manneskja á landinu í sumar verður ferðamaður. Árið 2016 komu 1,8 milljónir til landsins en árið 2010 voru þeir undir 500 þúsund.
Ferðaþjónusta er orðin stærsta atvinnugrein landsins á mjög skömmum tíma, og hún hefur haft mikil efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.
Þessi ótrúlega aukning hefur verið gríðarlega hröð, og í raun svo hröð að samfélagið hefur á ýmsum sviðum átt fullt í fangi með að reyna að halda í við þróunina. Einn stærsti þátturinn þar er skortur á innviðauppbyggingu, og hvernig hægt er að fá ferðamenn til að greiða stærri skerf fyrir að nýta auðlindir landsins með þessum hætti. Gjaldtaka af ferðamönnum er einnig talin nauðsynleg til þess að reyna að stýra álaginu á ferðamannastöðum og dreifingu um landið.
Málefni ferðaþjónustunnar voru til umfjöllunar í þriðja sjónvarpsþætti Kjarnans, sem er á dagskrá Hringbrautar á miðvikudagskvöldum. Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson eru stjórnendur þáttarins, og þau ræðu gjörbreyttu stöðu sem er uppi í ferðaþjónustunni, og greinin stendur frammi fyrir. Gestur þáttarins er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Gríðarleg andstaða við virðisaukaskattshækkun
Stjórnvöld hafa ekki neinar áætlarnir um að endurvekja náttúrupassann, sem átti að setja á laggirnar á síðasta kjörtímabili en mikil andstaða var við. Komugjöld hafa ekki verið inni í myndinni, en eins og fram hefur komið er hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu í áætlunum stjórnvalda, og hefur mætt mikilli gagnrýni.
Samtök ferðaþjónustunnar kalla þetta reiðarslag og eru þeirrar skoðunar að hærri virðisaukaskattur muni ganga sérstaklega af litlum fyrirtækjum úti á landi dauðum.
Ferðaþjónustan á að færast upp í efra virðisaukaskattsþrep árið 2018 og ári síðar á að lækka það þrep úr 24 prósentum í 22,5 prósent. Sú lækkun verður möguleg vegna þess að ferðaþjónustan verður færð upp, samkvæmt fjármálaáætlun.
Þórdís Kolbrún er meðal annars spurð út í gagnrýnina á virðisaukaskattshækkunina í þættinum, en gagnrýnin hefur ekki síst komið úr hennar eigin flokki. Þórdís segist hafa búist við gagnrýninni og hún komi ekki á óvart. Ef hún hefði haldið að hún gæti farið í pólitík til að taka bara vinsælar og skemmtilegar ákvarðanir hefði hún átt að finna sér eitthvað annað að gera.
Fjármálaáætlunin geri ráð fyrir hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna á næsta ári og ekkert hafi komið fram um annað en að það eigi að standa. Þetta sé bara ein af mörgum forsendum í fjármálaáætluninni. Svo muni koma fram frumvarp um hækkunina sérstaklega seinna á árinu með nánari útfærslu á þessari breytingu, með gildistíma og annað. „Það verður þá auðvitað bara að koma í ljós hvernig það fer,“ segir Þórdís. „Ég hef enga trú á öðru en að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins muni standa og styðja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ segir hún engu að síður, og segist ekki vita til annars en að þeir muni styðja áætlunina. Annað væri „í meira lagi bagalegt finnst mér persónulega.“
Hún segir að í grunninn snúist hækkunin um það prinsipp að fækka undanþágum í virðisaukaskattskerfinu. „Ég skil þessa gagnrýni en í prinsippinu er þetta almenn aðgerð og kerfisbreyting. Ef við sjáum að einhver svæði eru veikari fyrir þessari breytingu en önnur þá finnst mér skynsamlegra að fókusera sérstaklega á þau, og það er það sem við höfum verið að gera að undanförnu, og er stefna stjórnvalda. Þá er ég að tala um landsbyggðina. Að dreifa ferðamönnum betur um landið, og að þar séu seglar.“ Markmiðið sé það almennt að koma fleiri ferðamönnum út á land. „Við plöntum þeim ekkert þar sem okkur sýnist en þetta gengur út á að umhverfið sé þannig og markaðssetningin, að ferðamenn fari víðar en á Suðvesturhornið.“
Uppbygging ekki endilega á Suðvesturhorninu
Keflavík og Hvassahraun eru ekki einu möguleikarnir þegar kemur að uppbyggingu í flugi á Íslandi, segir ráðherrann einnig. Það er til dæmis hægt að skoða uppbyggingu alþjóðaflugvallar á Egilsstöðum, sem gæti orðið flugvöllur fyrir vöruflutninga og þá einnig miðstöð fyrir flug yfir Atlantshafið. „Mér finnst ekki meitlað í stein að öll uppbygging sé á Suðvesturhorninu.“