Í júli árið 2014 var Roman Seleznev handtekinn á flugvelli í Maldiví-eyjum skammt undan ströndum Indlands. Hinn þrítugi Rússi var í kjölfarið færður bandarískum yfirvöldum sem höfðu lengi reynt að handsama hann. Roman er einn af mörgum rússneskum tölvuþrjótum sem hafa plagað bandarísk fyrirtæki, bæði stór og smá, um áraraðir og mál hans á að vera fordæmi fyrir aðra. Saga Romans er þó ákaflega sérstök og tengist m.a. Kreml og mannskæðri sprengjuárás í Afríku.
Undrabarn á brotnu heimili
Roman Valerevich Seleznev er fæddur þann 23. júlí árið 1984 í rússnesku borginni Vladivostok, austan við Síberíu og nálægt landamærum Norður Kóreu. Foreldrar Romans skildu þegar hann var aðeins tveggja ára gamall og átti hann í litlum samskiptum við föður sinn eftir það. Hann bjó í litlu herbergi með móður sinni sem vann við afgreiðslustörf í verslun.
Hún drakk mikið og Roman var því mikið einn og þurfti að sjá um sig sjálfur sem barn. En honum gekk vel í námi og þá sérstaklega í stærðfræði. Hann notaði tímann heima til að kenna sér á tölvur og mætti segja að hann hafi verið undrabarn á því sviði. Þegar Roman var 16 ára útskrifaðist hann úr menntaskóla og innritaði sig strax í Austræna sambandsháskólann (FEFU) í Vladivostok, í bæði tölvunarfræði og stærðfræði. En dag einn, þegar Roman var 17 ára, fann hann móður sína látna þegar hann kom heim úr skólanum. Hún hafði drukknað í baðkarinu í áfengisdrunga. Móðurbróðir Romans átti íbúðina sem þau bjuggu í en hann rak Roman úr henni og lenti hann því á götunni um stund.
Roman átti erfitt með að fóta sig eftir þetta, hann hrökklaðist úr námi og bjó hjá ömmu sinni um tíma. Hann vann um stund í tölvuverslun en átti erfitt með að framfleita sér með því. Þá fór að að nýta kunnáttu sína á annarlegan hátt, þ.e. að brjótast inn í tölvukerfi eða „að hakka”. Hann var ennþá aðeins 17 ára gamall þegar hann var farinn að hakka sig inn í tölvukerfi verslana og stela þar greiðslukortaupplýsingum og númerum. Hann seldi síðan þessar upplýsingar á þar til gerðum síðum og gat komist af með gróðanum. Svona gekk þetta í sex ár frá 2001 til 2007 en þá fann hann í fyrsta skipti umtalsvert magn af greiðslukortanúmerum sem hann gat selt fyrir formúgu. Þá snerist þetta ekki lengur um að komast af, græðgin var tekin yfir.
Glæpalíf
Roman var nú orðinn stórtækur tölvuglæpamaður og gekk undir ýmsum dulnefnum, s.s. 2pac, nCuX en oftast Track2. Hann braust inn í tölvukerfi þúsunda banka, fjármálastofnana og fyrirtækja, bæði stórra og smárra. Jafnvel litlir veitingastaðir voru ekki óhultir fyrir honum. Hann komst inn í sölukerfi fyrirtækjanna og kom þar fyrir hugbúnaði sem afritaði greiðslukortaupplýsingarnar og sendi á tölvuþjóna sem hann átti heima í Rússlandi, í Úkraínu og í Bandaríkjunum.
Hann seldi svo upplýsingarnar á hinu svokallað myrkraneti þar sem alls kyns ólögleg starfsemi fer fram. Gróði Romans af sölunni skipti mörgum milljónum bandaríkjadollara en tap fyrirtækjanna af starfsemi hans var langtum meira. Fjöldi fyrirtækja fóru í gjaldþrotaskipti eingöngu vegna þessa. Roman passaði sig á því að ráðast aðeins á erlend fyrirtæki, sérstaklega bandarísk, því að þá gerðu rússnesk lögregluyfirvöld ekkert í því. Óopinber stefna rússneskra stjórnvalda er að láta rússneska hakkara óáreitta, svo lengi sem þeir ráðast ekki á rússnesk fyrirtæki eða stofnanir, og séu tilbúnir endrum og eins að vinna fyrir leyniþjónustuna, FSB. Hann lifði því hátt og án áhyggja en hann varð þó að vara sig á hinum langa armi Bandaríkjanna.
Bandarísk stjórnvöld vissu af honum og reyndu að hafa hendur í hári hans og því gat hann hvorki ferðast til Bandaríkjanna né nokkurra þeirra ríkja sem hafa framsalssamning við þau. Árið 2008 giftist hann unnustu sinni Svetlönu og þau eignuðust dóttur. Ári seinna, þegar Svetlana var með dótturina í fríi, var brotist inn á heimili þeirra í Vladivostok. Ræningjarnir vissu vel hvað þeir voru að gera því þeir tóku bæði peninga og upplýsingar úr tölvum á heimilinu. Þeir héldu Roman í marga klukkutíma prísund, pynduðu hann og hétu því að koma aftur seinna og sækja meira. Þó að Roman vissi að lögreglan léti starfsemi hans viðgangast þá gat hann hins vegar ekki leitað til hennar til að sækja réttlæti. Roman og Svetlana ákváðu því að flytja til eyjunnar Balí í Indónesíu og snúa baki við hakkinu. Hið heiðarlega líf átti þó ekki við Roman. Hann átti mikið fé og eignir bæði í Vladivostok og á Balí en skorti háskólagráðu og réttindi til að fá góða vinnu í tölvugeiranum. Árið 2010 tók hann því upp fyrri iðju og lífstíl.
Sprengjuárás í Afríku
Faðir Romans, Valery Seleznev, hafði komið sér vel fyrir og var kjörinn þingmaður í Dúmunni, neðri deild rússneska löggjafarþingsins. Hann situr nú fyrir Frjálslynda lýðræðisflokkinn (LDPR) sem hinn umdeildi þjóðernissinni Vladimir Zhirinovsky leiðir. Þrátt fyrir nafnið er flokkurinn hvorki frjálslyndur né lýðræðissinnaður en er hins vegar mjög handgenginn forseta landsins, Vladimir Pútín. Árið 2011 ákváðu feðgarnir að hittast ásamt eiginkonum sínum í marókkósku borginni Marrakesh og reyna að styrkja fjölskylduböndin. Roman og Svetlana snæddu morgunverð á kaffihúsinu Argana á einu mesta ferðamannatorgi borgarinnar þann 28.apríl þegar stór sprengja sprakk þar inni.
Svetlana slapp vel en Roman særðist mjög illa og féll í dá. Mikill róstur hafði verið í landinu enda „arabíska vorið” þá nýhafið. Alls létust 17 manns á Argana kaffihúsinu og 25 særðust. Flestir sem létust í árásinni voru ferðamenn og um helmingurinn Frakkar. Roman taldi að þetta væri sjálfsmorðsprengjuárás en í raun var sprengjan skilin eftir í poka inni á kaffihúsinu. Grunur féll á hryðjuverkasamtökin Al-Qaeda og alþjóðasamfélagið fordæmdi ódæðið. Í kjölfarið var einn maður dæmdur til dauða og nokkrir aðrir til fangelsisvistar. Roman hlaut alvarlega áverka á höfði og lá í dái í um tvær vikur. Það var flogið með hann til Moskvu þar sem stór aðgerð var framkvæmd á heila og læknarnir bjuggust ekki við því að hann myndi ná sér. Ef hann lifði yrði hann sennilega ósjálfbjarga út lífið. Roman var á sjúkrahúsum allt fram á árið 2012 en bati hans var vonum framar. Hann gat gengið þremur mánuðum eftir árásina og talgetan batnaði smám saman. Hann hlaut þó talsverðan heilaskaða og ólíklegt er að hann nái sér nokkurn tímann að fullu. Árið 2012 tók Svetlana dóttur þeirra og flutti til Bandaríkjanna án þess að láta hann vita og þetta sama ár skildu þau. En ári seinna kynntist hann annarri konu, Önnu Otisko, og þá tók hann einnig aftur upp þráðinn í hakkinu.
Handtaka og þungur dómur
Sumarið 2014 héldu Roman og Anna til Maldiví-eyja á Indlandshafi í frí. Þau töldu það óhætt þar sem eyjarnar eru ekki með framsalssamning við Bandaríkin. En bandaríska leyniþjónustan komst á snoðir um þau og sömdu við þarlend yfirvöld um að handsama Roman. Þann 5. júlí var Roman handtekinn á flugvellinum þar sem hann var á heimleið. Lögreglan afhenti hann bandarísku leyniþjónustunni sem flaug með hann til Kyrrahafseyjarinnar Guam, sem er bandarískt landsvæði. Þaðan var hann fluttur til Washington-fylkis á vesturströndinni þar sem hann hafði verið kærður opinberlega. Við handtökuna var hald lagt á fartölvu Romans og við rannsókn kom í ljós að á henni voru um 1.700.000 greiðslukortanúmer. Ennfremur afhenti hann bandarískum yfirvöldum fjórar fartölvur og sex USB-kubba til viðbótar. Þá skrifaði hann dómstólum hjartnæmt bréf þar sem hann viðurkenndi brot sín og virtist iðrast þeirra mikið. Hann segir:
„Ég tók margar slæmar ákvarðanir í lífi mínu og ég tek afleiðingunum af þeim ákvörðunum. Ég er ekki fullkominn og ég gerði rangt. Það er ekki hægt að kenna neinum öðrum en mér um! Ég gerði þetta og nú mun ég svara fyrir glæpi mína eins og maður.“
Jafnframt þakkaði hann bandarískum yfirvöldum fyrir að grípa inn í og stoppa sig því að hann hefði verið á leið til glötunnar með glæpum sínum og lífstíl. Rannsókn málsins og réttarhöldin í Washington-fylki tóku rúmlega tvö ár. Áætlað er að Roman hafi brotið gegn meira en 500 bandarískum fyrirtækjum og tæplega 4000 fjármálastofnunum. Að hann sjálfur hafi grætt a.m.k. 17 milljónir dollara á sölu greiðslukortanúmera en skaði greiðslukortafyrirtækjanna sé sú upphæð tífölduð. 26. ágúst árið 2016 var hann loks fundinn sekur af kviðdómi í 38 kæruliðum af 40 þar á meðal fyrir netsvik, persónuþjófnað og að eyðileggja tölvubúnað.
22. apríl árið 2017 var hann svo dæmdur til 27 ára fangelsisvistar en það er þyngsti dómur sem nokkur tölvuþrjótur hefur fengið í Bandaríkjunum. Vandamálum Romans er þó ekki lokið því að hans bíða ákærur í fleiri fylkjum Bandaríkjanna þar sem fyrirtæki hafa orðið fyrir barðinu á honum, t.d. Nevada og Georgíu.
Bölvað í Kreml en fagnað í Washington
Eftir dómsuppkvaðninguna las lögfræðingur Romans upp yfirlýsingu frá honum þar sem annað hljóð var komið í strokkinn en iðrun og yfirbót. Hann sagðist vera pólitískur fangi og peð í leik stórveldanna á tímum þegar samband þeirra er kalt. Ennfremur að hann hefði verið ákaflega liðlegur við rannsóknina og ætti við mikinn heilsubrest í kjölfar sprengingarinnar 2011, t.d. fengi hann slæm flogaköst. Þessi þungi dómur væri því ekki rétta leiðin til að sýna hvernig réttlæti virkar í lýðræðissamfélagi.
Faðir hans, Valery, brást mjög illa við og fullyrti að bandarísk yfirvöld væru “mann-ætur” sem hefðu rænt syni sínum. Að handtakan hefði verið í trássi við alþjóðalög og að sakargiftirnar væru helber lygi. Ennfremur sagði hann sonur sinn væri pyndaður þar sem það væri pynding í sjálfu sér að vera í fangelsi erlendis og að dómurinn væri í raun lífstíðardómur. Roman myndi aldrei lifa af 27 ár í bandarísku fangelsi.
Í Bandaríkjunum var hins vegar fagnað. Kenneth A Blanco, aðstoðar ríkissaksóknari sagði dóminn mjög mikilvægan.
„Þessi rannsókn, sakfelling og dómur sýnir það að Bandaríkin munu beita dómskerfi sínu af fullum þunga gegn tölvuþrjótum eins og Seleznev sem hrella bandaríska ríkisborgara og fyrirtæki úr fjarlægð. Og við munum ekki lýða tilvist neinna griðastaða fyrir þessa glæpi, við munum finna tölvuþrjóta sem þrífast í skuggasundum internetsins og koma lögum yfir þá.
Dómurinn er því ekki einungis refsing fyrir Roman Seleznev, hann er skilaboð til allra annarra tölvuþrjóta sem brjóta gegn bandarískum hagsmunum. Rússneskir hakkarar og tölvuþrjótar komust mjög í deigluna í bandarísku kosningabaráttunni síðasta haust og þá er talið að um 30-40 reki umsvifamikla svikastarfsemi. Einn slíkur, Peter Levashov, sem sakaður er um umtalsverða fjárkúgun var handtekinn á El Prat flugvellinum í Barcelona þann 7. apríl að beiðni bandarískra yfirvalda og annar ónefndur rússneskur hakkari var handtekinn í Prag síðasta haust. Verði þeir framseldir til Bandaríkjanna má ætla að þar bíði þeirra þungir dómar líkt og sá sem Roman Seleznev fékk. Það er því ljóst að bandarísk stjórnvöld munu taka á þessu vandamáli af miklum þunga og að rússneskum tölvuþrjótum bíði mikil hætta fari þeir út fyrir landsteinana.