Allir vita hvað gerist þegar kæliskápurinn bilar: það sem í honum er eyðileggst. Fyrst mjólkin og svo allt hitt smátt og smátt. Eigandi skápsins hefur tvo kosti: láta gera við eða kaupa nýjan. Nú er stærsti kæliskápur veraldar farinn að hökta og honum er ekki hægt að skipta út. Sjálft Norðurskautið.
Fyrir nokkrum dögum var birt ný skýrsla, unnin af níutíu vísindamönnum, í samvinnu við Norðurskautsráðið. Niðurstöður skýrslunnar eru, að mati margra sérfræðinga, uggvænlegar. Kalla hana svarta. Skýrslan staðfestir þær miklu breytingar sem í daglegu tali eru kenndar við hlýnun jarðar. Allir þekkja umræðuna um síaukna losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Íbúum jarðarinnar fjölgar stöðugt, bílum fjölgar, flugumferð eykst ár frá ári, jarðarbúar borða sífellt meira nautakjöt (melting jórturdýra leysir út mikið magn metans), hægt gengur að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis en ófullkominn bruni þess veldur mikilli losun metans. Margt fleira mætti nefna sem ýtir undir hlýnunina.
Sérfræðingarnir vöruðu við
Mörg ár eru síðan sérfræðingar vöktu athygli á að ef mannskepnan brygðist ekki við „gerði ekki eitthvað í málinu“ myndi allt enda með ósköpum. Mörgum fannst sérfræðingarnir draga upp dökka og kannski óraunsæja mynd af framtíðinni og sumir kölluðu jafnvel viðvaranirnar hræðsluáróður. Nú eru flestir, ekki þó allir, á einu máli um að mikill vandi blasi við og hann sé af mannavöldum. Danskur sérfræðingur um loftslagsmál sagði í viðtali, eftir að skýrslan var birt, að viðvörunarljósin væru hætt að blikka, nú logi þau stöðugt.
Parísarráðstefnan
Á undanförnum árum hafa verið haldnar fjölmargar ráðstefnur um loftslagsmál og leiðir til að bregðast við hlýnun jarðar. Ráðstefnurnar hafa ekki allar skilað miklum árangri. Í stuttu máli má segja að oftast hafi verið samkomulag um að aðgerða væri þörf en hinsvegar ekki í hverju þær aðgerðir skyldu felast. Allir vildu fá að halda sínu óbreyttu en æskilegt væri að „hinir“ gerðu eitthvað.
Í desember 2015 var haldin fjölmenn ráðstefna í París, um loftslagsmál. Oftast kölluð Parísarráðstefnan. Þegar hún var haldin, eftir margháttaðan og vandaðan undirbúning, var það einróma (eða nær einróma) álit sérfræðinga að komið væri að ögurstund. Það sýnir kannski alvöru málsins að margir sögðu þetta mikilvægustu ráðstefnu í sögu mannkyns. Þarna voru sett markmið sem fulltrúar 196 ríkja skrifuðu undir og skuldbundu sig til að hlíta. Markmiðin, og aðferðir og aðgerðir til að ná þeim, eru bæði mörg og flókin en það sem mestu skiptir er markmiðið um að halda hlýnun lofthjúpsins innan við 2 gráður fram til ársins 2100 en reynt skuli að halda hlýnun innan við 1,5 gráðu. Íslendingar þekkja vel afleiðingar hækkandi hitastigs, jöklarnir minnka með ógnarhraða og Ok, sem var talið minnsti jökull landsins er orðið að skafli.
Skýrslan
Í áðurnefndri skýrslu um breytingarnar á Norðurskautssvæðinu kemur fram að hafísinn á svæðinu er nú aðeins 35% þess sem hann var árið 1975. Og ef svo fer fram sem horfir verður hann nær algjörlega horfinn eftir 13 ár. Fastlandsísinn á Grænlandi og ísbreiðan á Norðurskautinu minnkar og þynnist ár frá ári og vísindamenn telja að yfirborð sjávar muni hækka um að minnsta kosti fimmtíu sentimetra, jafnvel allt að einum metra, fram til ársins 2100. Það hefði gríðarlegar breytingar í för með sér. Meðalhitastig á Norðurskautinu hefur hækkað um 3,5 gráður á fimmtán árum. Afleiðingar þessara breytinga eru þegar farnar að koma í ljós, dýralíf á Norðurslóðum er í hættu, fiskgöngur verða með öðrum hætti en áður og fleira mætti nefna.
Miklar sveiflur í veðrinu
Stormar og úrhellisrigningar eru mun algengari en áður var og þegar hærra sjávaryfirborð bætist gerist það að stór landsvæði, ekki síst í borgum, fara undir vatn. Veðráttan er „ofsafengnari“ eins og danskur vísindamaður komst að orði. Í Danmörku, þar sem pistlahöfundur er búsettur, hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum orðið mikið tjón af völdum veðurs. Í júlíbyrjun árið 2011 opnuðust himnarnir, ef svo má segja, og úrkoman mældist 150 millimetrar á tveimur klukkustundum. Tjónið af völdum úrhellisins varð mest í Kaupmannahöfn, þar sem margir kjallarar í miðborginni fylltust af vatni og í öðrum hverfum borgarinnar varð víða umtalsvert tjón. Sagan endurtók sig árið 2014 og sömuleiðis 2016 þótt það jafnaðist ekki á við júlíúrkomuna 2011. Í byrjun þessa árs gekk mikið óveður yfir landið og þá hækkaði yfirborð sjávar á Suður-Jótlandi um 1,77 metra.
Danir kölluðu þetta 100 ára flóð, með vísan í að slíkt sem þetta gerist einu sinni á hverri öld. Danskir sérfræðingar segja að þetta heiti, 100 ára flóð, verði brátt úrelt því búast megi við að atburðir sem þessir verði nú mun tíðari. Fyrir tveimur árum þrýsti mikið hvassviðri sjó úr Eyrarsundi inn í sundið sem skilur eyjuna Amager frá Kaupmannahöfn (Amager tilheyrir Kaupmannahöfn) og Sjálandi. Þá flæddi um hluta Nýhafnarinnar og ef „venjulegt“ sjávarborð hefði verið hálfum metra hærra (eins og spáð er að gerist) hefði tjónið orðið gríðarlegt. Svipað hefur gerst við Hróarskeldufjörðinn, Danska víkingasafnið sem stendur fyrir botni fjarðarins, og geymir þjóðargersemar, hefur hvað eftir annað verið í stórhættu og nú er talað um að flytja það á annað svæði. Þetta eru aðeins örfá dæmi um afleiðingar breytts veðurfars og þótt hér sé sagt frá Danmörku er svipaða sögu að segja frá fjölmörgum löndum.
Rástafanir kosta peninga
Mikilvægt er að þjóðum heims auðnist að standa við samkomulag Parísarráðstefnunnar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sjá til þess að hitastig hækki ekki umfram markmiðin sem að er stefnt. Um þetta eru flestir sammála. En hlutirnir breytast ekki á einum degi og þótt yfirborð sjávar hækki kannski ekki jafn mikið og spár gera ráð fyrir er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að vernda landsvæði, borgir og bæi.
Slíkar ráðstafanir kosta peninga, mikla peninga. Mörg lönd hafa sett í gang (sum fyrir allmörgum árum) áætlanir til að koma í veg fyrir að sjór geti óhindrað flætt yfir stór svæði og úrhelli valdið stórtjóni eins og mörg dæmi eru um á síðustu árum. Þekkingu á ofurafli náttúrunnar hefur fleygt mjög fram á undanförnum áratugum og tækninni til að bregðast við sömuleiðis.
Málsháttinn „orð eru til alls fyrst“ þekkja flestir, en vita líka að þau duga sjaldnast ein og sér. Það má með sanni segja um Parísarráðstefnuna margnefndu, þar hafa orðin verið sögð og sett á blað en vonandi verður ekki látið þar við sitja. Til þess er of mikið í húfi.