Kappræður Marine Le Pen og Emmanuel Macron í kvöld fara sennilega í sögubækurnar sem þær svæsnustu. Þær voru síður en svo virðulegar eða málefnalegar. Ýmislegt bar á góma: Evrópusambandið, skólamál, efnahagsmál, og hryðjuverk og stríð en mesta athygli vakti ásakanir þeirra beggja um lygar, hatur og spillingu.
Macron átti í vök að verjast
Marine Le Pen reyndi lítið að vera forsetaleg. Hún sótti hart og ásakaði Macron um að vera þjón auðvaldsins, kerfisins, kallaði hann „Litla Hollande“ og lét ýmislegt flakka, bæði kjaftasögur og slúður um meinta vináttu Macron við fjármálaöflin, ætti aflandsreikninga, að hann væri maðurinn á bakvið skattarannsóknir á Front National, að Macron væri jafnvel hommahatari. Öllu minna bar á stefnumálum hennar eða rökstuðningi fyrir þessum ásökunum.
Emmanuel Macron átti því í vök að verjast fyrsta klukktímann en sótti á þegar leið á seinni tímann. Hann náði, þrátt fyrir endalaus frammíköll og hæðnishlátur, að útskýra stefnumál sín og halda kyrrð sinni. Le Pen var hins vegar farinn að flissa óspart í lokin, rótaði stöðugt í möppu sinni sem hún bar mér sér. Hún talaði um að kasta evrunni fyrir róða, taka aftur upp franka, en samt halda evrunni. Peningastefna sem erfitt er að skilja. Hún átti því ekki góðan lokasprett og gekk fram af þáttarstjórnendum í lokaorðum Macron, er hún gjammaði hátt: „Comme Hollande?“ eða „bara eins og Hollande?“.
Gekk hún of langt?
Menn velta nú vöngum yfir þessum þætti. Gekk Marine Le Pen of langt? Svona framkoma hefur varla sést áður í lokaslag í frönskum forsetakosningum. Það er varla hægt að telja upp allar þær röngu fullyrðingar sem hún lét falla. Macron sagði Þjóðfylkinguna ala á hatri, Le Pen færi með dylgjur og staðleysur, hefði ekkert fram að færa nema ásakanir og lygar.
Hörðustu kjósendur Le Pen munu sennilega kjósa hana áfram. En það er óvíst hvað íhaldsmenn sem hafa hugleitt að kjósa hana gera eða róttækir vinstri menn. Um 20 milljón manns fyldust með útsendingunni – þetta er eina skiptið sem frambjóðendurnir mætast.
Tóninn í samfélagsmiðlum er sá að Le Pen hafi gengið of langt. 63% áhorfenda BFMTV frönsku fréttastöðvarinnar, sem sýndi beint frá kappræðunum, fannst Macron standa sig betur.