Sjóðstýringarfyrirtækið Och-Ziff Capital Management hefur verið í miklum vanda að undanförnu þar sem mikið fjármagn hefur farið úr stýringu hjá fyrirtækinu.
Fjárfestar flýja fyrirtækið
Eignir fyrirtækisins í stýringu nema nú um 32 milljörðum Bandaríkjadala, um 3.400 milljörðum króna, en þær hafa minnkað um 22 prósent á aðeins einu ári, samkvæmt uppgjöri félagsins frá því í gær, vegna þess að fjárfestar hafa tekið fjármagn úr stýringu hjá fyrirtækinu.
Sérstaklega hefur staða fyrirtækisins versnað á fyrstu mánuðum þessa árs en eignir í stýringu hafa minnkað um 5,9 milljarða Bandaríkjadala á þessu ári, samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins.
Keypti í Arion banka
Á síðustu mánuðum hefur þetta fyrirtæki verið töluvert í umræðunni hér á landi en tilkynnt var um kaup dótturfélags þess, Sculptor Investments s.a.r.l. á 6,6 prósenta hlut í Arion banka í mars síðastliðnum. Fyrirtækið er meðal hluthafa í Kaupþingi, eftir að hafa átt kröfur í slitabú bankans.
Kaupskil ehf., félagi í eigu Kaupþings, á 57,9 prósent hlut í Arion banka, íslenska ríkið 13 prósent, vogunarsjóður í eigu Taconic Capital Advisors 9,9 prósent, Attestor Capital LLP 9,9 prósent og Goldman Sachs 2,6 prósent.
Í ruslflokk
Ekki er nóg með að rekstur Och Ziff hafi gengið mjög illa að undanförnu, og veikst verulega vegna vantrausts fjárfesta á fyrirtækinu, þá hafa lánshæfismatsfyrirtæki staðfest brestina hjá því. Daginn eftir að tilkynnt var um kaup þess á hlut í Arion banka, þá var lánshæfiseinkunn fyrirtækisins færð niður í ruslflokk af Standard & Poor´s.
Hinn 29. september í fyrra var fyrirtækið sektað um 213 milljónir Bandaríkjadala, eða um 25 milljarða króna, eftir að upp komst um stórfelld lögbrot fyrirtækisins í Afríku. Fyrirtækið mútaði embættismönnum til að hagnast sem mest á stöðutökum sínum, meðal annars í Líbíu, Níger og Kongó. Það var dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sem lagði sektina á fyrirtækið og sagði ákvörðunina marka tímamót. Bandaríska alríkislögreglan FBI er enn að rannsaka hluta þessara glæpa, og ýmsar hliðar þeirra, ef marka má það sem fram kemur í yfirlýsingunni frá því í september.
Fjármálaeftirlitið (FME) er ennþá með þessa eignarhaldsbreytingu á Arion banka til skoðunar, þar sem vogunarsjóðahópurinn fyrrnefndi breytti eignarhaldi sínu úr óbeinu eignarhaldi í beint. Meðal þess sem FME horfir til er hvort þessir teljist hæfir til að vera virkir eigendur.