Saudi Aramco var stofnað árið 1933 þegar stjórnvöld í hinu nýlega sameinuðu konungdæmi Sádi-arabíu veittu bandaríska olíufyrirtækinu Standard Oil of California leyfi til að hefja leit að olíuauðlindum í landinu. Fyrirtækið tók upp nafnið Aramco (Arab American Oil Co.) árið 1944 og var rekið í samvinnufyrirkomulagi á milli bandarískra olíufyrirtækja og stjórnvalda í Sádí-Arabíu þangað til það var þjóðvætt á níunda áratugnum og breytti nafninu í Saudi Aramco. Olíubirgðir Saudi Aramco eru metnar á um 260 milljónir tunna og er Sádi-arabía stærsti olíuframleiðandi í heimi og dælir út um það bil 10 milljónir tunnur á dag.
Mohammad bin Salman Al Saud, krónprins, varnarmálaráðherra og forstöðumaður efnahags- og þróunarráðs Sádi-arabíu, tilkynnti í fyrra að hann bjóst við að virði Saudi Aramco næmi um tvær billjónir Bandaríkjadala en greinendur hafa nýlega metið virðið á rúma billjón. Bin Salman tilkynnti einnig að stjórnvöld myndu selja um 5% af fyrirtækinu í fyrsta útboði verðbréfa og undirstrikaði að olíubrunnarnir myndu halda áfram að vera í eigu stjórnvalda. Útboðið er mikilvægt skref fyrir stjórnvöld til að peningavæða hluta af eignum sínum sem eru alls metnar á um 3 billjónir Bandaríkjadala og er það stór hluti af stefnumótun krónprinsins til að draga úr vægi olíugeirans í hagkerfi landsins. Tekjur af útboðinu munu renna til þjóðarsjóðs (e. sovereign wealth fund) landsins og mun helmingur þeirra renna beint til uppbyggingu á iðnaði í landinu.
Kapphlaupið mikla
Vegna stærðar útboðsins mun Saudi Aramco þurfa að leita utan landsteinanna til að finna áfangastað fyrir skráninguna til viðbótar við Tadawul-kauphöllina í Riyadh, höfuðborg Sádi-arabíu. Kauphallir um allan heim hafa því staðið í ströngu við að reyna að laða að sér útboðið. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði Xavier Rolet, yfirmann kauphallarinnar í London, með í föruneyti sínu nýlega í fundarhöldum í Riyadh til að tala fyrir London sem áfangastað fyrir útboðið. Það sama var uppi á teningnum í opinberri heimsókn konungs Sádí-Arabíu, Salman bin Abdulaziz, til Japans þar sem Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, bað konunginn íhuga kauphöllina í Tokyo fyrir útboðið. Þá eru viðræður í gangi á milli Sádi-arabíu og kauphallarinnar í New York og Salman bin Abdulaziz hefur einnig verið í viðræðum nýlega í Pekíng þar sem stjórnvöld hvetja Saudi Aramco til að velja kauphöllina í Hong Kong.
Mikilvægi fyrsta útboðs verðbréfa fyrir stærstu alþjóðlegu kauphallirnar hefur aukist á undanförnum árum en með skráningu fyrirtækja í kauphöllum fylgja skráningargjöld sem eru að miklu leyti undanþegin sveiflum í fjármálakerfinu og stöðugt mikilvægari tekjulind fyrir kauphallirnar. Þar að auki eru þau leið fyrir kauphallir til að styrkja orðspor sitt sem fjármálamiðstöð og auðvelda aðgengi að fjárfestingum til mikilvægra fyrirtækja fyrir innlenda fjárfesta. Útboð af stærðargráðu Saudi Aramco hefur einnig stjórnmálalegt vægi fyrir landið sem verður fyrir valinu; fyrir kauphöllina í London væri skráningin skýrt dæmi um áframhaldandi mikilvægi London sem fjármálamiðstöð eftir Brexit, fyrir kauphöllina í Tokyo væri skráningin jákvætt ummerki fyrir hagkerfi sem hefur átt í basli í áratugi og er mikilvægur markaður fyrir sádí-arabíska olíu, fyrir kauphöllina í Hong Kong myndi skráningin vera enn eitt ummerki um aukandi umsvif Kína í alþjóðafjármálaheiminum, og fyrir New York myndi skráningin sýna alþjóðlegt mikilvægi kauphallarinnar á tíma þar sem margir myndu halda því fram að orðspor Bandaríkjanna bíði hnekki vegna kosningar Donald Trump til forseta.
Á sama hátt og mikilvægi útboðsins er mismunandi á milli kauphalla eru kostir og gallar hverrar kauphallar fyrir sig mismunandi fyrir Saudi Aramco. Greiðsluflæðið (e. liquidity) er mest í kauphöllum New York og London en skráning í þeim fylgja líka víðtækasta eftirlitið og strangar kröfur um gegnsæi í rekstri fyrirtækisins. Sádí-Arabía er stærsta viðskiptaland Japans á innfluttri olíu og hefur kauphöllin í Tokyo samkeppnishæft greiðsluflæði samanborið við aðrar kauphallir í Asíu en ólíklegt þykir að að Tokyo verði fyrir valinu vegna áhættu tengt stöðugleika japanska yensins. Kína er í auknum mæli háð innflutningi á olíu eftir því sem þarlendar olíuauðlindir fara dalandi en útboðið er tækifæri fyrir Sádi-arabíu að auka við markaðshlutdeild sína í landinu með því að skrá Saudi Aramco í Hong Kong en það myndi auka aðgengi fyrirtækisins að kínverskum stofnanafjárfestum.
Þegar vanda skal valið
Fyrsta útboð verðbréfa Saudi Aramco er stórt skref fyrir Sádi-arabíu og hvert svo sem valið á kauphöll verður mun útboðið leiða til krafa til gagnsæis í rekstri krúnudjásns konungsfjölskyldunnar. Tilgangurinn með útboðinu snertir ekki einungis framtíð landsins og konungsfjölskyldunnar heldur einnig Miðausturlönd í víðari skilningi. Með útboðinu er Sádi-arabía að reyna annars vegar að undirbúa hagkerfi sitt fyrir framtíð án þeirra gríðarlegu olíutekna sem það hefur í dag og samtímis viðhalda því rausnarlegu velferðarkerfi sem stuðlar að stöðugleika í landi þar sem mannréttindabrot eru tíð og þar sem stjórnvöld standa í ströngu við að heyja langvinnt umboðsstríð (e. proxy war) við Íran víðs vegar í Miðausturlöndum, meðal annars í Jemen.
Það er ekkert venjulegt við útboðið á Saudi Aramco mun það að sem hluti af efnahagslegri þróun Sádi-arabíu hafa bein áhrif á öryggismál í Miðausturlöndum, og óbein áhrif á alþjóðaöryggi, en valið á kauphöll hefur efnahagslegt, stjórnmálalegt, og ekki síst táknrænt, mikilvægi bæði fyrir þá kauphöll sem verður fyrir valinu og þær sem verða það ekki.