Í Charlottenlund við Kaupmannahöfn býr 96 ára gamall danskur maður, margheiðruð stríðshetja vegna ótrúlegra afreka. Þar er þó einn hængur á: afrekssögur hans í þágu föðurlands og bandamanna í heimsstyrjöldinni síðari eru hreinn uppspuni og minna helst á frásagnir Munchausens baróns. Eins og blaðamenn Weekendavisen danska komust að, í samvinnu við danskan lögreglumann og grúskara.
25. mars árið 2012 var Karl Bretaprins í opinberri heimsókn í Kaupmannahöfn ásamt eiginkonu sinni, Camillu hertogaynju. Mikið var um dýrðir og breski ríkisarfinn heimsótti meðal annars Frelsissafnið, skammt frá Löngulínu. Safn þetta (sem skemmdist mikið í eldi árið 2013) er tileinkað sögu hernámsins og andspyrnuhreyfingar Dana á árunum 1940 – 1945. Hermönnum sem tekið höfðu þátt í stríðinu var sérstaklega boðið í safnið í tilefni heimsóknarinnar. Þeir sem mættu voru í sínu fínasta pússi og með gljáfægð heiðursmerki í barminum, flestir mörg. Meðal þeirra sem Karl og Camilla heilsuðu uppá, og spjölluðu við drjúga stund, var maður að nafni Hugo Plaun.
Breski ríkisarfinn veitti sérstaka athygli tveimur heiðursmerkjum sem hin aldna stríðskempa bar í barminum. Annað þeirra var heiðurspeningur bresku sérsveitanna (SAS) og hinn peningurinn hin svonefnda DSO orða, sem er næst æðsta viðurkenning bresku herþjónustunnar. Það sem ríkisarfinn vissi ekki var að á bakhlið DSO orðunnar stóð með upphleyptum stöfum orðið Kopi – eftirlíking. Hugo Plaun hafði keypt orðuna hjá skransala í London. SAS heiðursmerkið hafði Hugo Plaun einhvernveginn komist yfir fyrir áratugum og sömuleiðis bandaríska Purpurahjartað, Purple heart, sem hann bar einnig. „Þú hefur sannarlega upplifað sitt af hverju,“ sagði ríkisarfinn og tók þétt í hönd hins aldna hermanns. „Ójá“ svaraði Hugo Plaun.
Hermennskan
11. nóvember árið 2010 flutti Hugo Plaun fyrirlestur á vegum samtaka fyrrverandi hermanna. Hér verður stiklað á stóru í þeirri frásögn.
Hugo Plaun fæddist í Bandaríkjunum árið 1920, faðir hans var þá starfsmaður dönsku utanríkisþjónustunnar. Árið 1935 flutti fjölskyldan til Danmerkur. Skömmu eftir hernám Þjóðverja 1940 flutti Hugo Plaun, sem hafði bandarískt vegabéf, til Svíþjóðar þar sem hann stoppaði stutt við en hélt vestur um haf og skráði sig í kanadíska herinn. Hersveit hans fór til Englands og þaðan til Egyptalands. Hann sótti því næst um að komast í litla sérsveit, sem síðar fékk heitið Special Air Service, SAS. Nú hófst mikil þjálfun, sem meðal annars fólst í því að ganga 40 kílómetra daglega, í brennandi eyðimerkurhitanum, æfa fallhlífarstökk og fleira. Í fyrsta leiðangri sérsveitarinnar, sem taldi 60 menn, skall á ofsarok, þriðjungur sveitarinnar fórst þegar fallhlífarnar opnuðust ekki og margir særðust. Þar á meðal Hugo Plaun, sem var í mánuð á spítala. Þegar hann kom til baka var sveitin einungis skipuð 30 mönnum.
Besta stríðstólið var Willys
Árið 1942 fékk sérsveitin það sem Hugo Plaun kallaði í fyrirlestri sínum „besta vopnið“. Þetta var Willys jeppinn, sem þá var fyrir skömmu farið að framleiða. Þetta gerbreytti möguleikum sérveitarinnar sem varð, að sögn Hugo Plaun, vel ágengt í baráttunni við óvininn, eyðilagði meðal annars 435 þýskar flugvélar. Sérsveitin hélt síðan til Sikileyjar, þar sem félagar úr mafíunni aðstoðuðu við að herja á Þjóðverja. „Primitivo vínið þeirra ítölsku er frábært,“ sagði Hugo Plaun og uppskar hlátur viðstaddra.
Sveit Hugo Plaun var meðal þeirra fyrstu sem komu til Berlínar undir lok stríðsins og ástandið þar var ólýsanlegt að sögn. Hið viðburðaríka líf Hugo Plaun endaði þó ekki þar því hann dvaldist síðar á Spáni og ennfremur lá leið hans til Kóreu þar sem hann þjálfaði og stjórnaði bandarískum hermönnum. Í Kóreu særðist hann alvarlega, lá tvö ár á sjúkrahúsi og árið 1956 sneri hann heim til Danmerkur. Þarna lauk frásögn Hugo Plaun.
Aldrei heyrt annað eins
Þeir sem hlustuðu á fyrirlestur Hugo Plaun 11. nóvember sátu agndofa undir æsilegri og ótrúlegri frásögn stríðskempunnar og sumir höfðu á orði eftirá að þessi maður hefði ekki níu líf, einsog sagt er um ketti, heldur 29 líf og kannski fleiri. Lýsingar hans voru ótrúlegar og þegar fyrirlestrinum lauk ætlaði lófatakinu aldrei að linna. Hugo Plaun fékk í kjölfarið fjölmargar beiðnir um fyrirlestra og hann var einnig fararstjóri í ferðalagi fyrrverandi hermanna um Holland, Belgíu og fleiri lönd. Hópurinn heimsótti meðal annars höfuðstöðvar Atlantshafsbandalagsins þar sem framkvæmdastjóri bandalagsins, Anders Fogh Rasmussen, sagði frá starfsemi bandalagsins. „Einkar ánægjuleg heimsókn“ sagði Anders Fogh Rasmussen síðar.
Pappírarnir á Ríkisskjalasafninu
Eins og nefnt var í upphafi pistilsins komust blaðamenn Weekendavisen á snoðir um að danskur lögreglumaður hefði rannsakað sögu Hugo Plaun og að þátttaka hans í síðari heimsstyrjöld hefði verið með nokkuð öðrum hætti en frásögnin sem fyrrverandi hermenn hlýddu andaktugir á 11. nóvember 2010. Lögreglumaðurinn, sem er frístundagrúskari, hafði fundið í danska Ríkisskjalasafninu möppu með nafni Hugo Plaun. Forvitni lögreglumannsins, sem hafði heyrt frásagnir af stríðsafrekum Hugo Plaun, var vakin. Í möppunni voru skjöl varðandi réttarhöld sem fram fóru snemma árs 1946. Lögreglumaðurinn hélt að kannski væri þetta umferðarlagabrot eða eitthvað af því tagi en ákvað að kíkja á pappírana. Mikil var undrun hans þegar hann fór að fletta skjölunum: Hugo Plaun hafði verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir samvinnu við Þjóðverja. Stríðshetjan sjálf. Lögreglumaðurinn velti fyrir sér hvort stríðshetjan Hugo Plaun og sá dæmdi væru einn og sami maðurinn. Svo reyndist vera.
Játaði fyrir Svíum
Á pappírunum á Ríkisskjalasafninu kom fram að Hugo Plaun hefði komið til Falsterbo í Svíþjóð 29. nóvember 1944. Þar gaf hann sig fram við yfirvöld, gaf upp falskt nafn og fæðingardag og sagðist hafa flúið frá Danmörku til Svíþjóðar því hann hefði unnið gegn þýska hernámsliðinu í Danmörku og óttaðist um líf sitt. Hann hefði fyrr þetta ár særst á fæti og hefði fyrst nú treyst sér í ferðina yfir sundið. Enginn gerði í upphafi athugasemdir við frásögn hans og honum var útvegað húsnæði í Stokkhólmi.
Fljótlega vöknuðu þó grunsemdir um að saga Hugo Plaun væri ekki allskostar sannleikanum samkvæm. Hann var þá handtekinn og játaði strax að hann hefði gefið upp falskt nafn við komuna til Svíþjóðar. Útskýrði jafnframt í löngu máli að hann hefði njósnað fyrir dönsku andspyrnuhreyfinguna, þótt hann hefði unnið hjá þýskum fyrirtækjum. Sænska lögreglan hafði hinsvegar upplýsingar um að Hugo Plaun hefði unnið fyrir Þjóðverja og þá játaði hann að frásögn sín væri hreinn uppspuni. Hann var þá fangelsaður og sat í sænsku fangelsi til stríðsloka.
Réttarhöldin í Danmörku
Eftir að styrjöldinni lauk var Hugo Plaun sendur til Danmerkur og þar hófust réttarhöld í máli hans 9. febrúar 1946. Samkvæmt frásögn Hugo Plaun hafði hann vorið 1942 skráð sig í finnska herinn en ári síðar gengið til liðs við Þjóðverja „til að berjast gegn bolsévikum.“
Hann sótti um starf sem stríðsfréttaritari og eftir stutt blaðamannanámskeið í Berlín var hann sendur til Úkraínu og sendi þaðan fréttir af gangi mála. Í júnímánuði 1944 var Hugo Plaun svo kominn til Galisíu, á landamærum Póllands og Úkraínu, til að senda fréttir. Þar hleypti hann, að eigin sögn, af eina skotinu á ævinni: skaut sig í fótinn til að komast burt frá víglínunni. Þegar hann var í Danmörku, í fríi eftir að skotsárið var gróið, komst hann yfir til Svíþjóðar, í nóvember 1944 eins og áður sagði. Eftir réttarhöldin í Kaupmannahöfn dæmdi Bæjarréttur Kaupmannahafnar Hugo Plaun í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa unnið með Þjóðverjum og 13. nóvember 1946 var hann látinn laus.
Hélt fortíðinni leyndri
Blaðamenn Weekendavisen heimsóttu Hugo Plaun fyrir skömmu síðan. Hann hefur búið einn síðan eiginkona hans lést fyrir nokkrum árum. Hann var lengi bílasali en starfaði einnig sem sjúkraþjálfari, í Danmörku og Englandi. Þegar blaðmennirnir hringdu dyrabjöllunni vissi Hugo Plaun ekkert um erindið og vildi fátt segja. Hann hafði hinsvegar sjálfur samband nokkrum dögum síðar og var þá tilbúinn að ræða um fortíðina. Hann sagði að hvorki eiginkonurnar fimm né börnin fjögur, sem hann eignaðist, hafi vitað nokkuð um fortíð hans.
Þegar blaðamenn spurðu Hugo Plaun um ástæður þess að hann gekk til liðs við Þjóðverja sagðist hann hafa séð þar möguleika á að sleppa við herþjónustu, hann hefði alltaf verið góður penni og Þjóðverja hefði sárlega skort stríðsfréttaritara.
„En hvaðan kom hugmyndin um stríðsafrekin“ spurðu blaðamennirnir. Hugo Plaun svaraði því til að þegar hann bjó í Worchester í Englandi á níunda áratug síðustu aldar hefði hann kynnst nokkrum körlum sem á sínum tíma voru í SAS sérsveitinni. „Þeir höfðu frá mörgu að segja og þegar ég kom svo til Danmerkur og gekk í Heimavarnarliðið fór ég að segja þessar sömu sögur en gerði mig að aðalpersónunni. Þeir göptu yfir þessum mergjuðu frásögnum og smám saman bætti ég svo í,“ sagði Hugo Plaun. „Eitt skil ég ekki, hvernig í ósköpunum stendur á því að enginn skuli hafa uppgötvað þetta fyrr en nú.“ Blaðamennirnir tóku undir það.