Macron, fyrrverandi fjárfestingabankamaður og efnahagsmálaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn François Hollande, vann um 66% atkvæða í seinni umferð frönsku forsetakosninganna gegn Marine Le Pen, leiðtoga öfgahægriflokksins Front Nationale (FN). Macron hafði aldrei gegnt kjörnu embætti og það er einungis rúmt ár síðan hann stofnaði nýjan stjórnmálaflokk, En Marche!, og tilkynnti um óháð framboð sitt til forseta. Macron sá fyrir sér að það yrði eftirspurn meðal kjósenda fyrir frjálslyndum miðjuflokki.
Sósíalistaflokkur (PS) Hollande var alltaf líklegur til að eiga erfitt uppdráttar – þróunin síðustu tíu ár í kosningum í Frakklandi hefur verið að kjósa gegn sitjandi fulltrúa – en Hollande sjálfur mæltist einungis með um 4% stuðning kjósenda undir lok síðasta árs sem leiddi til að hann bauð sig ekki fram aftur. Hægriflokkurinn Les Républicains (LR) virtist með sigri hins íhaldssama François Fillon í prófkjöri flokksins færa sig lengra til hægri á sama hátt og PS virtist færa sig lengra til vinstri. Báðar þessar þróanir má tengja við auknar vinsældir FN og ósk hinna hefðbundnu stórflokka til að höfða til kjósenda FN, en Macron nýtti rýmið sem skapaðist í miðjunni til fulls.
Ekki sjálfgefinn þingmeirihluti
Kosning Macron hefur mikla þýðingu fyrir Evrópusinna – ESB-fánar blökktu við hlið franskra á bakvið Macron þegar hann flutti sigurræðuna sína – og er ákveðinn sigur "mainstream" miðjustefnu eftir mikla velgengni öfgahægripopúlista á síðustu mánuðum. Marine Le Pen kom verr út úr kosningunum en margar kosningaspár gerðu ráð fyrir og er ákveðið bakslag fyrir FN þrátt fyrir að flokkurinn fékk um ellefu milljónir atkvæða, tvöfalt fleiri en þáverandi leiðtogi FN og faðir Marine, Jean-Marie Le Pen, hlaut þegar hann komst í aðra umferð forsetakosningarinnar árið 2002 og tapaði gegn Jacques Chirac. Fylgi Marine Le Pen var mest í "ryðbelti" Norður-Frakklands og í íhaldssömum, og öldruðum, suðausturhluta landsins en á báðum svæðum er atvinnuleysi hátt og hefur verið lengi. Því má segja að Frakkland sé tvískipt að einhverju leyti og mun ríkisstjórn Macron þurfa að koma til móts við vantraust kjósenda á þessum svæðum gagnvart hefðbundnum stjórnmálaflokkum og misheppnuðum tilraunum þeirra til að snúa við efnahagslegri lægð.
Þá hafa kannanir leitt í ljós að um 43% af þeim sem kusu Macron í annarri umferð gerðu það fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að Le Pen ynni kosningarnar. Þá var kjörsókn tiltölulega dræm, tæp 75%, og heil 11,5% kjósenda skiluðu auðu. Tiltölulega hátt og svæðisbundið fylgi FN ásamt ákvörðun margra kjósenda að kjósa Macron vegna þess að þeir töldu hann vera skárri kosturinn í stöðunni útskýra að einhverju leyti niðurstöður annarrar kannanar sem framkvæmd var um leið og sigur Macron var í höfn; 61% Frakka vilja ekki að Macron fái meirihluta í þingkosningunum sem munu fara fram um miðjan júní.
Lýðveldi á hreyfingu
Fyrsta verkefni Macron verður að skipa bráðabirgðaríkisstjórn þangað til þingkosningar verða haldnar í júní þar sem flokkur hans, sem hefur nú verið endurskírður La République en marche (REM), mun sækjast eftir meirihluta eða, það sem raunhæfara er, að setja saman samsteypumeirihluta sem styður forsetann. Þó forsetaembættið í Frakklandi sé valdamikið mun hann þurfa pólitískan stuðning þingsins til þess að koma umbótum í gegn; þá sérstaklega lækkun ríkisútgjalda og breytingum á skatta-, atvinnumála- og lífeyrisreglugerðum.
REM vonaðist eftir því að hafa frambjóðendur fyrir öll 577 kjördæmin tilbúna í vikunni en flokkurinn tilkynnti á fimmtudaginn nöfn 428 frambjóðenda og sagðist muna tilkynna um restina í næstu viku eftir að fresturinn til að staðfesta frambjóðendalista var framlengdur. Langflestir frambjóðendur flokksins eru nýgræðingar í flokksstjórnmálum en þó hafa 24 fráfarandi þingmenn PS – þó ekki Manuel Valls, forsætisráðherra í ríkisstjórn Hollande, sem hafði gefið kost á sér – gengið til liðs við flokkinn og vonast Macron eftir því að einnig laða að þungavigtarframbjóðendur frá LR. François Bayrou, leiðtogi miðjuflokksins Mouvement démocrate (MoDem), og bandamaður Macron í þingkosningunum hefur lýst yfir óánægju við frambjóðendalistann vegna þess að hann óttast að MoDem verði undir í samstarfinu en talsmaður Macron hefur tilkynnt að sátt muni nást við Bayrou.
Eftir því sem frambjóðendalistar hafa ekki verið endanlega staðfestir er erfitt að rýna í hugsanleg úrslit kosninganna en skoðanakannanir sýna að REM og MoDem munu fá um 26% atkvæða, FN og LR um 22%, vinstriflokkur Jean-Luc Mélenchon, La France insoumise (FI), 13% og PS einungis 8%. Frakkland hefur tveggja umferða Westminster-kosningakerfi þar sem ef enginn frambjóðandi í tilteknu kjördæmi fær algjöran meirihluta í fyrstu umferð, þá fer fram seinni umferð þar sem einungis þeir flokkar sem fá yfir 12,5% atkvæða að taka þátt en einungis sigurvegarinn fær inn fulltrúa frá hverju kjördæmi.
Þingkosningarnar eru fyrsta hindrun Macron í forsetatíð hans og munu vera afgerandi til að tryggja skilvirkni í innleiðingu umbóta ríkisstjórnar hans á næstu árum. Sem yngsti forseti Frakklands frá upphafi og leiðtogi nýs stjórnmálaafls í gjörbreyttu stjórnmálaumhverfi í landinu er erfitt að segja til um úrvindu þingkosninganna. Fáir bjuggust þó við sigri hans í forsetakosningum lengi vel og það væru mistök að vanmeta getu hans til að smala saman þingmeirihluta á bak við sig.