Bandaríkjadalur kostar nú 103 krónur og evran 112. Fyrir rúmlega einu og hálfu ári kostaði Bandaríkjadalur tæplega 140 krónur og evran 150 krónur. Pundið hefur á tæplega einu ári farið úr 206 krónum í 133 krónur.
Algjörlega nýr veruleiki blasir því útflutningshlið hagkerfisins, þar sem tekjurnar eru í erlendri mynt.
Minna fæst fyrir vörurnar og þjónustuna en áður, og hefur þessi veruleiki komið hratt fram. Hraðar launahækkanir hafa líka sett strik í reikninginn hjá mörgum fyrirtækjum, en 1. maí síðastliðinn hækkuðu laun um 4,5 prósent, samkvæmt kjarasamningum.
Góða staða þrátt fyrir allt
Mikil og hröð gengisstyrking krónunnar er nú farin að bíta, jafnvel þó staða efnahagsmála sé á flesta mælikvarða nokkuð góð um þessar mundir. Mikil vöntun er á vinnuafli, hagvöxtur mældist 7,2 prósent í fyrra og skuldir hafa verið greiddar hratt niður. Skuldir heimilanna mælast nú um 77 prósent af landsframleiðslu en hlutfallið var í um 130 prósent skömmu eftir hrunið. Skuldir hins opinbera hafa einnig verið að lækka hratt og hefur Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, nefnt það sérstaklega að það sé forgangsmál hjá ríkisstjórninni að greiða niður skuldir og lækka vaxtakostnað.
Vaxtaverkir
Sú mikla gengisstyrking sem hefur átt sér stað undanfarin misseri kemur engum á óvart sem hefur skoðað gaumgæfilega fjárflæði til og frá hagkerfinu. Vöru- og þjónustujöfnuður var jákvæður um rúmlega 155 milljarða króna á ársgrundvelli í fyrra og útlit fyrir að sú þróun haldi áfram á þessu ári. Þrýstingurinn er því áfram í átt að frekari styrkingu krónunnar, en ómögulegt er að spá fyrir um hvort Seðlabanki Íslands muni beita sér fyrir því að veikja gengið, eins og hann hefur gert á undanförnu ári, en þó í minna mæli að undanförnu.
Gert er ráð fyrir því, í flestum spám greinenda, að fjöldi ferðamanna muni aukast mikið á þessu ári frá metárinu í fyrra, og verði um 2,3 milljónir. Til samanburðar var fjöldinn 1,8 milljónir í fyrra og áður en mikill uppgangur hófst, árið 2010, þá var fjöldinn 454 þúsund á árs grundvelli.
Fjárfesting aukist
Fjárfesting hefur aukist jafnt og þétt í ferðaþjónustunni, samhliða þessum mikla uppgangi, eins og gefur að skilja. Hótel hafa sprottið upp, og ennþá umfangsmiklar framkvæmdir í pípunum, enda gera flestar spár ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna hingað til lands.
Samtals eru nú 26 flugfélög sem fljúga hingað til lands, og veruleikinn því gjöbreyttur frá því sem var, þegar að hámarki þrjú til fjögur flugfélög sáu um flugsamgöngur milli Íslands og umheimsins.
Gengisáhætta
Þegar horft til gagna sem til eru um fjármögnun þessar miklu uppbyggingar í ferðaþjónustu sem átt hefur sér stað þá sést vel að töluverð gengisáhætta er í rekstri margra fyrirtækja í ferðaþjónustunni. Algengasta form lána virðist vera óverðtryggð lán í krónum, en þau bera alla jafnan nokkuð háa vexti.
Hávær krafa um vaxtalækkun, ekki síst frá ferðaþjónustunni, ætti því ekki að koma neinum á óvart. Heildarskuldir ferðaþjónustufyrirtækja við fjármálakerfið námu um 180 milljörðum króna í lok árs í fyrra, og höfðu vaxið úr 140 milljörðum árið á undan, að því er fram kemur í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, frá því í apríl.
Um 100 milljarðar af þessum 180 milljörðum eru óverðtryggð lán í krónum, 40 milljarðar í verðtryggðum lánum og 40 í erlendri mynt.
Styrking krónunnar er því afar viðkvæm fyrir marga í greininni.