Ross Beaty, forstjóri og stjórnarformaður Alterra orkufyrirtækisins sem skráð er á markað í Kanada, segir að eftir mikinn vöxt og árangursmikla uppbyggingu Bláa lónsins, þá sé það mat HS Orku að nú sé góður tímapunktur til að selja hlutinn í Bláa lóninu.
Magma Energy, dótturfélag Alterra, á 66 prósent hlut í HS Orku, sem síðan á 30 prósent hlut í Bláa lóninu. Í fyrra var 360 milljóna króna arður greiddur til hluthafa HS Orku og kom hann allur úr rekstri Bláa lónsins.
Traustur rekstur
Hagnaður HS Orku í fyrra nam 2,7 milljörðum króna og heildartekjur 7,1 milljarði króna. Heildareignir félagsins voru bókfærðar á tæplega 50 milljarða króna. Óhætt er því að segja að rekstur félagsins sé í góðu horfi þessa dagana.
Hluturinn í Bláa lóninu er metinn á 1,8 milljarða króna í ársreikningi sem þýðir að félagið er metið á um sex milljarða, sé mið tekið af því.
Reikna má með að hluturinn geti verið mun meira virði en það, þar sem einungis arðgreiðslan til hluthafa nam 1,4 milljarði, vegna ársins 2015. Hagnaður Bláa lónsins á því ári nam 2,2 milljörðum króna eftir skatta. Á árinu 2014 voru heildartekjur fyrirtækisins 6,1 milljarður en hagnaðurinn var 1,8 milljarðar króna, eftir skatta. Tæplega þriðja hver króna sem kom í kassann var því hreinn hagnaður.
Utan kjarnastarfsemi
Haft er eftir Beaty, á vef Alterra, að vegna þess að starfsemi Bláa lónsins sé utan kjarnastarfsemi Alterra og HS Orku, þá sé kominn tími til að selja hlutinn. Ráðgjafafyrirtækið Stöplar er með söluna á hlutnum á sínu borði, fyrir hönd HS Orku, en eigendur þess eru Jón Óttar Birgisson, Benedikt Gíslason og Guðjón Kjartansson.
Stærstu hluthafar Bláa lónsins eru Hvatnig slhf., með 39,1% hlut, HS Orka með 30% hlut, Keila ehf. með 9,2% hlut og Hofgarðar ehf. með 4,9% hlut, en eigandi þess er Helgi Magnússon, fjárfestir og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins.
Hvatning slhf. er í 50,55% eigu einkahlutafélagsins Kólfs og 49,45% eigu Horns II slhf.
Kólfur ehf. er í 75% eigu Gríms Sæmundsen og 25% eigu Eðvards Júlíussonar.
Eðvard er fyrrverandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Grindavík og átti sæti í stjórn Hitaveitu Suðurnesja, fyrirrennara HS Orku.
Horn II slhf. er framtakssjóður stofnaður af Landsbréfum.