Ólafur Ólafsson segir að aðkoma erlends fjármálafyrirtækis hafi ekki verið grundvallarforsenda fyrir sölu ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum. Þá liggi það fyrir að Hauck & Aufhäuser hafi verið raunverulegur hluthafi í félaginu Eglu, sem var hluti S-hópsins sem keypti ráðandi hlut í bankanum. Þetta er megin niðurstaðan í ávarpi sem Ólafur hefur birt á heimasíðunni Söluferli.is sem almannatengslafyrirtækið KOM heldur úti fyrir hann. Ólafur telur því að ályktun nefndarinnar um hið gagnstæða vera ranga og segir hana ekki standast skoðun.
Ávarpið var sett á netið í dag í ljósi þess að Ólafur fékk ekki að flytja það í heild sinni fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en hann kemur fyrir hana í dag klukkan 15:15.
Í ávarpinu ræðir Ólafur ekki baksamninga sem tryggðu honum persónulega og óþekktum eigendum aflandsfélagsins Dekhill Advisors milljarða króna né skaðleysisyfirlýsingu sem Hauck & Aufhäuser fékk efnislega. Ólafur segir að þetta séu ekki aðalatriði málsins.
Rannsóknarnefnd sem rannsakaði aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í janúar 2003 skilaði af sér skýrslu 29. mars síðastliðinn.
Helstu niðurstöður nefndarinnar voru þær að stjórnvöld, almenningur og fjölmiðlar hefðu verið blekktir við söluna. Ítarleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum.“
Finnst skýrslan ekki sanngjörn gagnvart sér
Í niðurlagi ávarps Ólafs segir hann: „Það er sjálfsagt hægt að afgreiða þessa rannsóknarskýrslu þannig að sökin sé alfarið mín; ég hafi einn og óstuddur stjórnað öllu ferlinu frá upphafi til enda og haldið um penna þeirra er skrifuðu. En þá eru menn að loka augunum fyrir fyrirliggjandi staðreyndum og halda áfram á óbreyttri braut. Ég tel að það væri hvorki rétt né sanngjarnt gagnvart þjóðinni og alls ekki gagnvart mér persónulega. Það væri heldur ekki í samræmi við yfirlýstan tilgang skýrslunnar sem hér er til umfjöllunar.“
Líkt og áður sagði segir Ólafur að hann hafi sýnt fram á, með vísun í gögn, í ávarpi sínu að aðkoma erlends fjármálafyrirtækis hafi ekki grundvallarforsenda fyrir sölu ríkisins á hlutabréfum í Búnaðarbankanum. Þar af leiðandi skipti aðkoma Hauck & Aufhäuser engu máli. S-hópurinn, sem Ólafur leiddi, hefði samt sem áður fengið að kaupa, hann hefði staðið við alla samninga sína við ríkið og þar af leiðandi hafi ríkið hvorki verið blekkt né verr sett með aðkomu þýska bankans.
Ólafur birti eitt nýtt gagn sem hann segir að styðji þessa ályktun sína. Um er að ræða tölvupóst frá starfsmanni einkavæðingarnefndar þegar salan á Búnaðarbankanum fór fram. Í tölvupóstinum segir umræddur starfsmaður – en hann er ekki nafngreindur í ávarpi Ólafs – að hann geti staðfest þennan skilning.
Tölvupósturinn sem um ræðir var sendur í síðust vikuog er birtur sem fylgiskjal með ávarpi Ólafs. Þar er nafn sendanda hulið en með því að afrita textann og líma hann í nýtt skjal er hægt að sjá að þar er um Guðmund Ólason að ræða. Guðmundur var fyrir ári síðan dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir sinn hlut í greiðslum á 4,8 milljörðum króna sem runnu út úr félaginu Milestone – En Guðmundur var forstjóri þess – og til Ingunnar Wernersdóttur.
Guðmundur gaf skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni. Í skýrslu nefndarinnar segir að hvorki hann, né aðrir starfsmenn eða nefndarmenn einkavæðingarnefndar, hefðu „orðið var við neitt annað en að aðkoma Hauck & Aufhäuser hefði verið með þeim hætti sem upplýst var um opinberlega á sínum tíma.“
Ólafur segir einnig að grundvallaratriði hvað þetta varði sé fundur S-hópsins með einkavæðingarnefnd sem átt hafi sér stað 28. ágúst 2002. Ólafur segir að bókun þess fundar sýni fram á að það hafi ekki verið nein forsenda þess að S-hópurinn fengi að kaupa ráðandi hlut í Búnaðarbankanum að erlendur banki væri hluti af hópnum.
Í fundargerð einkavæðingarnefndar frá 28. ágúst 2002 segir: „Upplýst um að tveir erlendir bankar hefðu sýnt áhuga á að koma að málinu sem ráðgjafar eða fjárfestar. Spurt hvort það breyti stöðu hópsins ef breytingar verða á skipan hópsins með þeim hætti. ÓD [Ólafur Davíðsson] sagði svo ekki vera. Frekar væri gefinn plús fyrir erlenda peninga.“
Rannsóknarnefndin túlkar þessa bókun á þveröfugan hátt við Ólaf. Samkvæmt skýrslu hennar er svar formanns nefndarinnar um að frekar væri „gefinn plús fyrir erlenda peninga“ túlkað með þeim hætti að aðkoma erlends banka myndi styrkja tilboð S-hópsins. Ólafur Davíðsson hefur ekki skýrt hvor túlkunin er rétt.
Ákveðið var 4. nóvember 2002 að mæla með því að ganga til samninga við S-hópinn um kaup á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum. Í tilkynningu framkvæmdanefndar um einkavæðingu um einkaviðræður við S-hópinn kom hins vegar skýrt fram að lykilforsenda fyrir þeim væri aðkoma erlendrar fjármálastofnunar. Annars yrðu þær hugsanlega ekki framlengdrar.
Þegar hinn hópurinn sem valinn hafði verið til viðræðna um kaup á hlutnum, Kaldbakur, óskaði eftir skýringum á þessu svaraði formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu því til að sérstaklega hefðu þrjú atriði „skilið á milli við val á viðsemjanda“. Meðal þeirra atriða sem nefnd voru í þessu sambandi var að S-hópurinn hefði haft í sínum hópi „virt erlent fjármálafyrirtæki sem fjárfesti“.
Á þessum tíma lá ekkert fast fyrir um neina erlenda aðkomu að kaupum S-hópsins. Í bréfinu sagði nefndin að „S-hópurinn hefði gefið til kynna að 25-30% hlutur í eignarhaldsfélagi um eign í Búnaðarbankanum yrði í eigu Société Générale eða annars alþjóðlegs fjárfestis.“ Framkvæmdanefndin lagði áherslu á að „þátttaka Société Générale eða annarrar hátt virtrar alþjóðlegrar fjármálastofnunar, sem umtalsverðs hluthafa í eignarhaldsfélagi um tilboðið [hefði] verið veigamikill þáttur á bak við ákvörðun nefndarinnar að efna til einkaviðræðna við [S-hópinn]“. Lögð var áhersla á að einkaviðræður yrðu ákveðnar til tiltekins takmarkaðs tíma og að framkvæmdanefndin yrði treg til að framlengja einkaviðræður ef hún teldi þá „Société Générale eða annan alþjóðlegan fjárfesti ólíklegan til að eiga umtalsverðan hlut í eignarhaldsfélagi um tilboðið“.
Telur baksamninga, skaðleysi og þóknanir aukaatriði
Hin meginniðurstaða Ólafs er sú að Hauck & Aufhäuser hafi verið raunverulegur eigandi Eglu. Um það er í raun ekki deilt. Bankinn hélt á hlutum í því félagi og keypti auk annarra hlutabréf í Búnaðarbankanum. Þegar það var gert voru stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur ekki upplýst um að kaupin voru fjármögnuð af íslenska fjármálafyrirtækinu Kaupþingi, að gerðir höfðu verið samningar sem tryggðu skaðleysi Hauck & Aufhäuser af viðskiptunum og sölurétt eftir tæp tvö ár.
Það var heldur ekkert upplýst um að Hauck & Aufhäuser hafi fengið þóknun upp á eina milljón evra fyrir viðvikið né að baksamningar voru um að hagnaður sem gæti skapast hjá réttum eigenda hlutarins, aflandsfélagsins Welling & Partners á Bresku Jómfrúareyjunum, myndi renna til tveggja aflandsfélaga, skráð á sama stað, sem áttu það félag. Annað þeirra aflandsfélaga var Marine Choice Limited, í eigu Ólafs Ólafssonar. Hann hagnaðist um 3,8 milljarða króna á fléttunni. Hitt félagið, Dekhill Advisors, hagnaðist um 2,9 milljarða króna á „Puffin“ verkefninu. Á núvirði er sameiginlegur hagnaður félaganna tveggja rúmlega 11 milljarðar króna.
ÓIafur fjallar ekki efnislega um neina af þessum samningum. Í ávarpinu segir hann: „Hauck & Aufhauser gerðu samninga, í þessu tilfelli við Kaupþing, um fjármögnun, takmörkun á áhættu, o.s.frv. Þeir samningar sem voru ríkinu óviðkomandi og vörðuðu ekki hagsmuni þess, enda fékk það allt sitt greitt og staðið var við öll skilyrði kaupsamnings. Það var gagnkvæmur vilji hjá Hauck & Aufhauser og Kaupþingi að eiga viðskipti sín í milli. Öll samskipti á milli Kaupþings og Hauck & Aufhäuser voru bein og milliliðalaus. Þeir gengu sjálfir frá samningum sín á milli.“ Hann telur því að baksamningarnir séu einfaldlega samningar milli einkaaðila og komi sölu á Búnaðarbankanum ekkert við.
Ólafur segir að samningarnir sem gerðir voru milli þýska bankans og Kaupþings hafi verið „alfarið á þeirra ábyrgð og ég hafði hvorki lesið þá né séð, fyrr en núna, í rannsóknarskýrslunni. Ég vissi hins vegar að þeir höfðu gert með sér samninga og hvert var megin inntak þeirra samninga. Hafi eitthvað verið í þessum samningum, sem ég fæ reyndar ekki séð, sem þeir áttu að upplýsa um, þá var það alfarið á þeirra ábyrgð.“
Þessi fullyrðing Ólafs stangast á við framburð hans fyrir dómi 30. janúar 2017, þegar hann svaraði spurningum rannsóknarnefndarinnar. Þar var Ólafur spurður um fullyrðingar Sigurjóns Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Búnaðarbankans, í skýrslu hjá Rannsóknarnefnd Alþingis árið 2009, að Hauck & Aufhäuser hafi verið fulltrúi fyrir aðra aðila og að það hafi verið gerður einhvers konar framvirkur samningur um viðskipti bankans, sagði Ólafur að honum vitanlega ætti það ekki við rök að styðjast og að hann myndi „ekki eftir neinu svona“.
Nú segist hann hafa vitað af því að „þeir hefðu gert með sér samninga og hvert var megin inntak þeirra samninga“. Þegar hann var spurður um þetta fyrir dómi mundi hann ekki eftir neinum slíkum samningum.
Ólafur segir einnig í ávarpi sínu að umræddir samningar hafi verið háðir bankaleynd. Honum hafi því ekki verið heimilt að upplýsa um „tilvist þeirra og efni þeirra, hafi ég þekkt það.[...]Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að samningar milli Hauck & Aufhäuser og Kaupþings voru háðir bankaleynd.“
Þetta er ekki rétt. Samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir geta þeir sem gefa skýrslu fyrir slíkum nefndum ekki borið fyrir sig bankaleynd gagnvart fyrirspurnum nefndarinnar. Þar segir í 7. grein að skylt sé að verða „við kröfu rannsóknarnefndar um afhendingu gagna og að veita upplýsingar þótt þær séu háðar þagnarskyldu. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.“