Eftir uppsveiflu á verðbréfamörkuðum í gær, í kjölfar vaxtalækkunar úr 5 í 4,75 prósent, þá lækkuðu þau aftur í dag.
Markaðurinn er „þunnur“ þessi misserin, eins og einn viðmælenda Kjarnans komst að orði, og lækkar markaðsvirði fyrirtækja oft í umfangslitlum viðskiptum.
Dægursveiflur
Í dag lækkaði vístitalan um 1,67 prósent, og er markaðsvirði félaga í kauphöllinni, samanlagt, um þúsund milljarðar króna.
Dægursveiflur markaðarins segja lítið um hvað er að gerast, undir niðri, og þó; þegar upp er staðið grundvallast verðbréfaviðskipti af fjármagnshreyfingum og tímasetningum þeirra, og líkt alltaf, þá þreytast greinendur ekki á því að finna skýringar á hinum ýmsu sveiflum.
Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, segir í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag að með vaxtalækkuninni sé Seðlabankinn að færa ávinning af góðum gangi í efnahagsmálum til heimila og fyrirtækja, og það sé hægt að ganga mun lengra. „Það sem mér fannst þó áhugavert í því sem kom frá Seðlabankanum er að þeir staðfesta það að þeir telji að hagkerfið búi við sterkara jafnvægisgengi en áður vegna jákvæðrar erlendrar eignastöðu og gjaldeyris æðis til landsins. En að sama skapi eru þeir enn ekki að fjalla um breytta stöðu á jafnvægisvöxtum. Það vantar skýringu á því, vegna þess að ef jafnvægisraungengi er orðið sterkara og hagkerfið stendur á sterkari stoðum en áður, þá hljóta jafnvægisraunvextir landsins að hafa lækkað. Þeir gefa í skyn að jafnvægisvextir séu í kringum 3%, en það er hægt að reikna út að vextirnir séu frekar á bilinu 1,52%. Það er því svigrúm til að lækka stýrivexti enn frekar,“ segir Valdimar í Morgunblaðinu.
Breyttir tímar, ótrúleg hagsaga
Óhætt er að segja íslenska hagkerfið hafi búið við gjörbreyttan veruleika, undanfarin fimm ár, en það hefur átt að venjast í gegnum stutta sögu. Þar hafa nokkrir mikilvægir þættir skipt sköpum.
Til að gera langa og flókna sögu örstutta, þá er fyrst að nefna viðbrögðin við neyðaraðstæðunum haustið 2008, það er neyðarlög og fjármagnshöft. Þessar gríðarlega umfangsmiklu og stóru aðgerðir mótuðu aðstæðurnar fyrir endurskipulagningu fjármálakerfisins og síðan endurreisnina sjálfa.
Frá 2010 hefur ævintýralegur vöxtur ferðaþjónustu haft mikil áhrif á gang efnahagsmála og komið til viðbótar við endurreistnarstarfið. Á því ári komu 454 þúsund erlendir ferðamenn til landsins en gert er ráð fyrir að þeir verði 2,3 milljónir á þessu ári. Á einungis sex árum hefur fjöldinn meira en fimmfaldast.
Fyrir lítið hagkerfi, með aðeins 200 þúsund manna vinnumarkað, þá getur mikið gjaldeyrisinnstreymi sem fylgir slíkum vexti valdið mikilli þenslu.
Einmitt það hefur gerst. Í fyrra tókst síðan að ljúka samningum vegna slitabúa föllnu bankanna sem sköpuðu mikinn ávinning fyrir íslenska ríkið, og þjóðarbúið í heild, því á einni nóttu hvarf stór hluti af erlendum skuldum þjóðarbússins.
Undanfarin misseri hefur gengi krónunnar styrkst mikið og er það nú farið valda mörgum áhyggjum, eins og rakið var í fréttaskýringu á vef Kjarnans í gær. Bandaríkjadalur er nú kominn í rúmlega 100 krónur en hann var 140 krónur fyrir ríflega einu og hálfu ári, og evran í 112 en hún var í 150 krónum fyrir einu og hálfu ári. Raungengi krónunnar er nú á svipuðum slóðum og það var fyrir áratug, þegar Bandaríkjadalur kostaði um 60 krónur.
Margir muna eftir þeim tíma og þeirri miklu einkaneyslu sem fylgdi því hvað hlutir voru ódýrir í útlöndum.
Fátt bendir til annars en sterkari krónu
Samkvæmt spá Seðlabanka Íslands, þá eru miklar líkur til þess að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast á næstu misserum. Öll ytri skilyrði benda einnig eindregið til þess, meðal annars mikill afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði en hann var 155 milljarðar í fyrra og útlit fyrir að hann verði einnig mikill á þessu ári.
Hvað gera lífeyrissjóðirnir?
Einn óvissuþáttur, þegar kemur að gengi krónunnar og stöðunni á verðbréfamörkuðum, eru ákvarðanir íslensku lífeyrissjóðanna um fjárfestingar erlendis.
Eignir þeirra námu 3.673 milljörðum króna 4. maí síðastliðinn, og voru eignir þeirra erlendis 823 milljarðar, eða sem nemur 22,4 prósentum af heildinni. Á tveimur mánuðum hækkaði erlenda eignin um 53 milljarða.
Samkvæmt lögum hafa sjóðirnir möguleika á því hafa 50 prósent eigna sinna erlendis en flestir sjóðirnir eru langt frá þeim hlutföllum. Spurningin er; hvað gerist ef þeir fara í miklu meira mæli að fjárfesta erlendis, til að dreifa áhættunni meira?
Líklegt má telja að það myndi draga úr þrýstingi fyrir styrkingu krónunnar en að sama skapi gæti bakbeinið í verðbréfamarkaðnum á Íslandi orðið veikara. Lífeyrissjóðirnir eiga á bilinu 40 til 50 prósent af öllum skráðum hlutabréfum á Íslandi og er þátttaka þeirra í viðskiptum frá degi til dags mikilvægur þáttur í viðskiptunum.
Ef það yrði skrúfað að einhverju leyti fyrir þessa þátttöku, og vægi þeirra í þeim minnkað, gæti það þýtt töluvert verðfall á mörkuðum og jafnvel enn meiri sveiflur og upp og niður, en vandi er þó um slíkt að spá, eins og dæmin úr fortíðinni sanna.