#efnahagsmál#viðskipti

Upp og niður - Frekari styrking í kortunum?

Spennan í hagkerfinu er augljós. Mikill gangur, og spjótin beinast að gengi krónunnar. Hvert er það að fara?

Eftir upp­sveiflu á verð­bréfa­mörk­uðum í gær, í kjöl­far vaxta­lækk­unar úr 5 í 4,75 pró­sent, þá lækk­uðu þau aftur í dag. 

Mark­að­ur­inn er „þunn­ur“ þessi miss­er­in, eins og einn við­mæl­enda Kjarn­ans komst að orði, og lækkar mark­aðsvirði fyr­ir­tækja oft í umfangslitlum við­skipt­u­m. 

Dæg­ur­sveifl­ur 

Í dag lækk­aði vístitalan um 1,67 pró­sent, og er mark­aðsvirði félaga í kaup­höll­inni, sam­an­lagt, um þús­und millj­arðar króna.

Auglýsing

Dæg­ur­sveiflur mark­að­ar­ins segja lítið um hvað er að ger­ast, undir niðri, og þó; þegar upp er staðið grund­vall­ast verð­bréfa­við­skipti af fjár­magns­hreyf­ingum og tíma­setn­ingum þeirra, og líkt alltaf, þá þreyt­ast grein­endur ekki á því að finna skýr­ingar á hinum ýmsu sveifl­u­m. 

Valdi­mar Ármann, for­stjóri GAMMA, segir í við­tali við Við­skipta­Mogg­ann í dag að með vaxta­lækk­un­inni sé Seðla­bank­inn að færa ávinn­ing af góðum gangi í efna­hags­málum til heim­ila og fyr­ir­tækja, og það sé hægt að ganga mun lengra. „Það sem mér fannst þó áhuga­vert í því sem kom frá Seðla­bank­anum er að þeir stað­festa það að þeir telji að hag­kerfið búi við sterkara jafn­væg­is­gengi en áður vegna jákvæðrar erlendr­ar eigna­stöðu og gjald­eyris æðis til lands­ins. En að sama skapi eru þeir enn ekki að fjalla um breytta stöðu á jafn­vægis­vöxt­um. Það vantar skýr­ingu á því, vegna þess að ef jafn­væg­is­raun­gengi er orðið sterkara og hag­kerfið stendur á sterk­ari stoðum en áður, þá hljóta jafn­væg­is­raun­vextir lands­ins að hafa lækk­að. Þeir gefa í skyn að jafn­vægisvextir séu í kringum 3%, en það er hægt að reikna út að vext­irnir séu frekar á bil­inu 1,52%. Það er því svig­rúm til að lækka stýri­vexti enn frekar,“ segir Valdi­mar í Morg­un­blað­in­u. 

Már Guðmundsson, seðlabankstjóri. Hagstjórnin er krefjandi um þessar mundir.

Breyttir tímar, ótrú­leg hag­saga

Óhætt er að segja íslenska hag­kerfið hafi búið við gjör­breyttan veru­leika, und­an­farin fimm ár, en það hefur átt að venj­ast í gegnum stutta sögu. Þar hafa nokkrir mik­il­vægir þættir skipt sköp­um.

Til að gera langa og flókna sögu örstutta, þá er fyrst að nefna við­brögðin við neyð­ar­að­stæð­unum haustið 2008, það er neyð­ar­lög og fjár­magns­höft. Þessar gríð­ar­lega umfangs­miklu og stóru aðgerðir mót­uðu aðstæð­urnar fyrir end­ur­skipu­lagn­ingu fjár­mála­kerf­is­ins og síðan end­ur­reisn­ina sjálfa.

Mikil lækkun í dag, eftir mikla hækkun í gær. Mynd: Keldan.Frá 2010 hefur ævin­týra­legur vöxtur ferða­þjón­ustu haft mikil áhrif á gang efna­hags­mála og komið til við­bótar við end­ur­reistn­ar­starf­ið. Á því ári komu 454 þús­und erlendir ferða­menn til lands­ins en gert er ráð fyrir að þeir verði 2,3 millj­ónir á þessu ári. Á ein­ungis sex árum hefur fjöld­inn meira en fimm­fald­ast. 

Fyrir lítið hag­kerfi, með aðeins 200 þús­und manna vinnu­mark­að, þá getur mikið gjald­eyr­is­inn­streymi sem fylgir slíkum vexti valdið mik­illi þenslu. 

Einmitt það hefur gerst. Í fyrra tókst síðan að ljúka samn­ingum vegna slita­búa föllnu bank­anna sem sköp­uðu mik­inn ávinn­ing fyrir íslenska rík­ið, og þjóð­ar­búið í heild, því  á einni nóttu hvarf stór hluti af erlendum skuldum þjóð­ar­búss­ins. 

Und­an­farin miss­eri hefur gengi krón­unnar styrkst mikið og er það nú farið valda mörgum áhyggj­um, eins og rakið var í frétta­skýr­ingu á vef Kjarn­ans í gær. Banda­ríkja­dalur er nú kom­inn í rúm­lega 100 krónur en hann var 140 krónur fyrir ríf­lega einu og hálfu ári, og evran í 112 en hún var í 150 krónum fyrir einu og hálfu ári. Raun­gengi krón­unnar er nú á svip­uðum slóðum og það var fyrir ára­tug, þegar Banda­ríkja­dalur kost­aði um 60 krón­ur. 

Margir muna eftir þeim tíma og þeirri miklu einka­neyslu sem fylgdi því hvað hlutir voru ódýrir í útlönd­um. 

Fátt bendir til ann­ars en sterk­ari krónu

Sam­kvæmt spá Seðla­banka Íslands, þá eru miklar líkur til þess að gengi krón­unnar haldi áfram að styrkj­ast á næstu miss­er­um. Öll ytri skil­yrði benda einnig ein­dregið til þess, meðal ann­ars mik­ill afgangur af vöru- og þjón­ustu­jöfn­uði en hann var 155 millj­arðar í fyrra og útlit fyrir að hann verði einnig mik­ill á þessu ári.

Seðlabankinn spáir áframhaldandi styrkingu krónunnar, eins og sést á þessari mynd úr greiningu Arion banka.

Hvað gera líf­eyr­is­sjóð­irn­ir?

Einn óvissu­þátt­ur, þegar kemur að gengi krón­unnar og stöð­unni á verð­bréfa­mörk­uð­um, eru ákvarð­anir íslensku líf­eyr­is­sjóð­anna um fjár­fest­ingar erlend­is. 

Eignir þeirra námu 3.673 millj­örðum króna 4. maí síð­ast­lið­inn, og voru eignir þeirra erlendis 823 millj­arð­ar, eða sem nemur 22,4 pró­sentum af heild­inni. Á tveimur mán­uðum hækk­aði erlenda eignin um 53 millj­arða.

Sam­kvæmt lögum hafa sjóð­irnir mögu­leika á því hafa 50 pró­sent eigna sinna erlendis en flestir sjóð­irnir eru langt frá þeim hlut­föll­um. Spurn­ingin er; hvað ger­ist ef þeir fara í miklu meira mæli að fjár­festa erlend­is, til að dreifa áhætt­unni meira?

Lík­legt má telja að það myndi draga úr þrýst­ingi fyrir styrk­ingu krón­unnar en að sama skapi gæti bak­beinið í verð­bréfa­mark­aðnum á Íslandi orðið veik­ara. Líf­eyr­is­sjóð­irnir eiga á bil­inu 40 til 50 pró­sent af öllum skráðum hluta­bréfum á Íslandi og er þátt­taka þeirra í við­skiptum frá degi til dags mik­il­vægur þáttur í við­skipt­un­um. 

Ef það yrði skrúfað að ein­hverju leyti fyrir þessa þátt­töku, og vægi þeirra í þeim minnk­að, gæti það þýtt tölu­vert verð­fall á mörk­uðum og jafn­vel enn meiri sveiflur og upp og nið­ur, en vandi er þó um slíkt að spá, eins og dæmin úr for­tíð­inni sanna. 

Viltu styrkja sjálfstæða íslenska fjölmiðlun?
Lesendur Kjarnans geta kosið að greiða fast mánaðarlegt framlag til fjölmiðilsins til að efla starfsemi hans enn frekar. Markmiðið er upplýstari, gagnrýnni og málefnalegri umræða. Hjálpið okkur við að ná því markmiði með því að ganga til liðs við Kjarnasamfélagið.
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar