Með tilkomu þjóðhagsráðs og nýjum lögum um opinber fjármál hefur átt sér stað ákveðin viðhorfsbreyting hjá sveitarfélögum. Spennan í hagkerfinu er augljós og hætta á ofhitnun er fyrir hendi.
Þetta er eitt af því sem rætt var um á öðrum fundi þjóðhagsráðs. Fundurinn fór fram 6. apríl síðastliðinn og stóð í tvo tíma, en fundargerð af fundinum hefur nú verið birt.
Í þjóðhagsráði sitja Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (Karl Björnsson sat fundinn í hans stað), Már Guðmundsson Seðlabankastjóri og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Hér að neðan fara fimm markverðir punktar úr fundargerðinni.
1. Karl Björnsson sagði á fundinum að aukins skilnings gætti nú á hlutverki sveitarfélaga og meiri samhæfing í fjármálum væri af hinu góða. Í fundargerðinni segir: „Viðhorfsbreyting hefði orðið hjá sveitarfélögunum en ekki skipti síður máli að skilningur á fjármálum sveitarfélaga hefði aukist mikið í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Til marks um aukinn skilning mætti nefna framlag ríkisins til sveitarfélaga í tengslum við jöfnun lífeyrisréttinda. Sagði hann sveitarfélögin vinna eftir fjármálareglum sveitarstjórnarlaga sem væru leiðarljós þeirra við fjármálastjórn. Sveitarfélögin hefðu verið að hagræða í rekstri sínum og greiða niður skuldir, en það væri erfitt án þess að draga úr fjárfestingum. Það gengi ekki til lengdar að fjárfestingar væru lægri en sem næmi afskriftum. Hann sagði samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga verða undirritað síðar þann dag og sá samningur væri hluti af fjármálaáætluninni.“
Hætta á ofhitnun
2. Í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra kom fram að þjóðarbúskapurinn væri um þessar mundir töluvert spenntur, þó staðan væri um margt gjörólík þeirri sem var uppi fyrir fjármálakreppuna. Engu að síður væri hættan af ofhitnun fyrir hendi. Passa þyrfti upp á aðhald hjá hinu opinber. Þá benti Már á að 85% af innstreymi á gjaldeyrismarkað árið 2016 hefði átt rætur að rekja til viðskiptaafgangs og viðskipta innlendra aðila sín á milli. Hins vegar hefði fjármagnsinnstreymi vegna nýfjárfestingar inn á innlendan skuldabréfamarkað minnkað verulega eftir að Seðlabankinn fór að beita sérstöku fjárstreymistæki í fyrra sumar. Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 155 milljarðar í fyrra og útlit fyrir að hann verði einnig mikill á þessu ári. Samhliða þessari þróun hefur gengi krónunnar styrkst hratt. Már sagði enn fremur að vandinn á húsnæðismarkaði væri einkum sá að skortur væri á íbúðum á markað, og passa þyrfti upp á að stuðningur við kaupendur á markaði leiddi ekki til þess að verðið hækkaði áfram. Hann sagði að vaxtalækkun við þessar aðstæður myndi ekki leiða til neins annars en hærra húsnæðisverðs. Jafnvægið þyrfti að vera fyrir hendi í aðgerðum til að styrkja stöðuna á húsnæðismarkaði. Björt Ólafsdóttir minntist einnig á mikilvægi þess að hugað verði að lausnum fyrir ungt fólk sem leitaði inngöngu á fasteignamarkað.
Aukning útgjalda
3. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sagði á fundinum að aukning ríkisútgjalda á þessu ári væri „langt umfram“ það sem mætti reikna með til lengri tíma. „Forsætisráðherra sagði að aukning ríkisútgjalda á þessu ári væri langt umfram það sem hægt væri að standa undir til lengri tíma. Hann sagði að mikil umræða væri í samfélaginu um nauðsyn aukinna útgjalda en minna færi fyrir umræðu um hvort við hefðum getað mildað ríkisfjármálastefnuna eftir hrun og farið í gegnum kreppuárin með öðrum og mildari áherslum. Jafnframt kom fram hjá forsætisráðherra að lög um opinber fjármál væru farin að hafa mikil áhrif. Umhverfið væri mjög breytt. Í stað þess að ráðstafanir í tekjumálum ríkisins kæmu fram í nóvember til afgreiðslu fyrir árslok kæmu áætlanir nú fram að vori og tækju til margra ára. Því væri mjög mikilvægt að fjármálaáætlun kæmi ætíð fram að vori, eins og lögbundið er, og um hana næðist góð umræða,“ segir í fundargerðinni.
Allt aðrar tölur á Norðurlöndunum
4. Halldór Benjamín Þorbergsson deildi reynslu sinni af samtali og samstarfi við starfsfólk á Norðurlöndunum. Hann sagði ljóst að þar væri verið að semja um launhækkanir sem væru miklu minni en á Íslandi, og farið væri hægar í sakirnar. Miðað væri við getu útflutningsgreina til að standa undir þeirri launaþróun horft væri til. „Ljóst væri af þeim fundum að þar byggju menn við annan veruleika en við þekkjum hér á landi. Í Svíþjóð hefði t.d. nýlega verið samið um samtals 6,5% hækkun launa næstu þrjú árin og í Noregi hefði verið samið um svipaða hækkun. Þessar þjóðir miðuðu við getu útflutningsgreinanna þegar samið væri um laun,“ segir í fundargerðinni. Til samanburðar má nefna að laun hækkuðu um 4,5 prósent, í einu stökki, 1. maí síðastliðinn.
Greiða niður skuldir
5. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að áherslan í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 væri ekki síst sú að greiða niður skuldir ríkisins, gæta aðhalds í rekstri og stuðla að skynsamri stjórnun fjárfestinga ríkisins. Hann sagði mikilvægt „að tímasetja opinberar framkvæmdir skynsamlega og það ætti við um alla opinbera aðila. Fundað hefði verið með sveitarfélögum og stórum ríkisfyrirtækjum eins og Landsvirkjun og Isavia um tímasetningar þeirra framkvæmda. Mikilvægur hluti fjármálaáætlunarinnar væri lækkun skulda og gert væri ráð fyrir að þær lækkuðu ár frá ári.“ Þá kom hann inn á það, að mögulegt væri að leggja gistináttaskatt á sem sveitfélögin fengju í sinn hlut, en útfærslur væru ekki komnar fram í því, á endanlegt stig.