Eldhúsdagsumræðurnar í gærkvöldi voru um margt fyrirsjáanlegar. Stjórnarandstöðuflokkarnir skutu á ríkisstjórnarflokkanna og samstarf Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, og drógu fram það sem blasir við mörgum: meirihlutinn hangir á bláþræði, eins manns meirihluta og meiningarmunurinn í mörgum málum er augljós öllum. Segja má að stjórnarandstaðan hafi barið á ríkisstjórninni, eins og oft er gert í umræðum sem þessum, en forystufólk ríkisstjórnarflokkanna talaði fyrir því góða sem náðst hefði fram, og spennandi tíma framundan.
En hvað stóð upp úr? Hvað má lesa út úr þessum umræðum? Hver var boðskapur forystufólks flokkanna?
Helstu atriðin sem blaðamaður punktaði hjá sér, við umræðurnar, voru þessi eftirfarandi:
1. Fyrst tók til máls Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem er augljós leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Hún líkti ríkisstjórnarsamstarfinu við dæmigert „eftirpartý“ þar sem áhugaleysið og þreytan væri allsráðandi og húsráðandinn ekki heima. Skilaboðin eru skýr: ríkisstjórnin stendur höllum fæti og andavana fædd, í reynd. Katrín sagði áherslur ríkisstjórnarinnar sjást greinilega í ríkisfjármálaáætlun sem gerði ráð fyrir niðurskurði, á nær öllum innviðum samfélagsins þegar horft væri til hlutfalls samneyslunnar af landsframleiðslu. Þetta sagði hún sýna að jöfnuður væri ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni, heldur „frjálshyggjukreddur“. Hún sagði fólkið í landinu hafa margsýnt það að það hefði engan áhuga á einkarekstri í heilbrigðisþjónustu og að fjársvelti framahaldsskólastigsins væri til marks um að einbeittan vilja ríkisstjórnarinnar til að skera niður innviði en ekki byggja þá upp. Línurnar væru nokkuð skýrar, þegar kæmi að stjórn og stjórnarandstöðu í þessum efnum. Svandís Svavarsdóttir og Bjarkey Gunnarsdóttir hömruðu þetta sama járn. Svandís sagði niðurlægingu Viðreisnar og Bjartrar framtíðar algjöra. Flokkur væru ekki að ná neinu fram sem lofað hefði verið fyrir kosningar. Akkúrat engu.
2. Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, talaði fyrstur máli ríkisstjórnar og lagði áherslu á að staða efnahagsmála í landinu væri þannig, að sjaldan eða aldrei hefði verið betri staða í landinu. Kaupmáttaraukning hefði verið mikil og stöðug, og sterk staða ríkissjóðs - ekki síst vegna þess hve vel var haldið á ríkisfjármálum á síðasta kjörtímabili (Þegar Bjarni Benediktsson var fjármálaráðherra, hann var ekki meðal ræðumanna) - væri undirstaðan fyrir komandi uppbyggingu. Hann lagði áherslu á meginlínurnar í stefnu Sjálfstæðisflokksins; mikilvægi einkaframtaksins, íhaldssama hagstjórn en um leið „skynsama“ auðlindanýtingu, þar á meðal uppbyggingu stóriðju og nýtingu sjávarauðlinda. Hildur Sverrisdóttir talaði fyrir umbyrðalyndi í sinni ræðu og sagði að umræða um heilbrigðismál væri of oft byggð á misskildum hugtökum. Einkarekstur ætti að vera sjálfsagður hluti af heilbrigðiskerfinu, líkt og væri raunin í mörgum löndum sem við berum okkur saman við.
3. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, var harðorður í garð ríkisstjórnarinnar, og var sérstaklega umhugað um stöðu gengis krónunnar og þá miklu styrkingu sem komið hefði fram að undanförnu (Bandaríkjadalur kostar nú 100 krónur). Hann sagði augljósan meiningarmun hjá ríkisstjórnarflokkunum grafa undan efnahagsstefnunni, þar sem óljóst væri í raun hvernig hún væri. Hvað vill ríkisstjórnin? spurði Sigurður Ingi. Þá gagnrýndi hann einnig Seðlabanka Íslands fyrir að halda vöxtum of háum. Vaxtamunaviðskipti væru nú orðin sýnileg aftur og það kunni ekki góðri lukku að stýra. Þau hefðu átt sinn þátt í hruninu.
4. Birgitta Jónsdóttir frá Pírötum talaði um samtakamátt fólksins. Hún sagði það sjást vel á umræðum fólks á Facebook - ekki síst í 60 þúsund manna grúppu um Costco - að fólkið væri tilbúið að taka mál í sínar hendur og þrýsta á um breytingar sem þyrfti að ná í gegn. Þetta ætti ekki aðeins við um verðlagseftirlit og samkeppnismál, heldur mætti vel hugsa sér viðlíka umræðu um launamálin sem framundan væru. „Lýðræðið krefst hugsjóna, alúðar og bíræfni, enginn fékk nokkru sinni réttindi upp í hendurnar, alvöru mannréttindi kröfðust baráttu og samstöðu. Við Píratar viljum nýjan jarðveg, því það er ekki hægt að uppræta spillingarrótina með því að krafsa bara í yfirborðið,“ sagði Birgitta meðal annars.
5. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var harðorður í garð ríkisstjórninnar og sagði hana hafa svikið kjósendur. Þar væri hægt að nefna margt til sögunnar, en innviðauppbyggingin væri það sem helst mætti nefna. „Þegar horft er um öxl yfir veturinn eru stærstu vonbrigðin þau að hafa horft upp á fullkomið skilningsleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim sem minnst hafa á milli handanna, svik á stórfelldri uppbyggingu innviða og algjört metnaðarleysi þegar kemur að því að búa okkur undir þær stórkostlegu breytingar sem handan eru við hornið,“ sagði Logi. Hann sagði ríkisstjórnina vera upptekna af því að hugsa um einhvern annan en almenning í landinu.
6. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, talaði fyrir því að Ísland markaði sér stefnu í alþjóðavæddum heimi. Hann sagðist ekki vera í nokkrum vafa um að íslenskt samfélag myndi njóta góðs af því að tengja krónuna við gengi evrunnar. Hann sagði einnig að það væru oft frammi raddir sem óttuðust allar breytingar. Hann sagði breytingar vera nauðsyn og að þær væru drifkrafturinn í því starfi að laga samfélagið að óhjákvæmilegri þróun. „Núna segjum við: Freki karlinn ræður. Freki karlinn sem engu vill breyta og allt þykist vita. Hann segir: „Þó að allt stefni í óefni skulum við aldrei, aldrei víkja frá þeirri stefnu sem ég hef ákveðið að sé rétt.“ Svo ítrekaði hann rauða þráðinn í starfi Viðreisnar: að taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni í öllum málum.
7. Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, sagði stjórnmálin vera málamiðlunarvinnu, að sú ríkisstjórn sem nú sæti hefði orðið til upp úr erfiðum viðræðum flokkanna. Björt framtíð hefði mikilvægu hlutverki að gegna í ríkisstjórninni, og að hún legði áherslu á ábyrga framgöngu. Það væri ekki hægt að gera kröfu um að ná fram öllu því flokkurinn vildi, en samstarfið væri gott og það væri ekki sjálfsagt mál. „Það er stundum sagt að það þurfti tvo til að dansa tangó, en það þarf fleiri en tvo til að dansa á þingi. Það er hins vegar stundum erfitt að halda takti.“ Þá sagði hann Ísland geta lagt mikið af mörkum á ýmsum sviðu til alþjóðasamstarfs, og nefndi sérstaklega heilbrigðismálin. Þetta hefði hann reynt sjálfur á fundi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þrátt fyrir allt, þá hefðum við margt gott fram að færa.