Gríðarlegur titringur er nú á sviði stjórnmálanna í Bandaríkjunum, en á fimmtudaginn mun James Comey, hinn brottrekni fyrrverandi stjórnandi alríkislögreglunnar FBI, koma fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings og gefa skýrslu. Allt mun þetta fara fram fyrir opnum tjöldum. Spurningar og svör í beinni útsendingu. Nú er sú stund að nálgast, og sífellt að koma fram ný púsl í myndina af þessari atburðarás sem er til rannsóknar.
Brottrekinn
Donald Trump Bandaríkjaforseti rak Comey, eftir að hafa fengið minnisblað í hendur frá dómsmálaráðuneyti Jeff Sessions, þar sem mælt var með því að hann yrði látinn fara. Robert Mueller, fyrrverandi yfirmaður FBI, tók við rannsókninni í kjölfarið.
Washington Post greindi síðar frá því, að í minnisblaði Comey, af fundi hans með Trump, 14. febrúar á þessu ári, kæmi fram að Trump hafi beðið hann um að hætta rannsókn á fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafanum Micheal Flynn, en hann hætti störfum eftir 20 daga í embætti, 13. febrúar.
Donald Trump hefur ítrekað neitað því að Rússar hafi verið að skipta sér af kosningunum í Bandaríkjunum, og hefur sagt rannsókn FBI, leyniþjónustunnar CIA og rannsóknarnefnda Bandaríkjaþings, „nornaveiðar“.
Afhjúpun breytir öllu
Eftir afhjúpun fréttavefsins The Intercept, frá því í gær, blasir nú við staðfesting á því að rússnesk yfirvöld, eða nánar tiltekið leyniþjónusta rússneska hersins, var að gera tölvuárásir á kosningakerfið í Bandaríkjunum, og reyna þannig að hafa áhrif á framkvæmd kosninganna.
Fjallað var um gögnin á vefnum í gær, en 25 ára gömul kona, Reality Leigh Winner að nafni, samkvæmt fréttavef CNN, hefur verið ákærð vegna lekans til The Intercept.
Hún starfaði sem verktaki hjá Pluribus International Corporation í Georgíuríki, en ákæran er gefin út af saksóknara dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Í frétt CNN er hún sögð hafa viðurkennt að hafa lekið gögnunum við yfirheyrslu en hún var handtekin 3. júní síðastliðinn.
Mörg atriði til rannsóknar
En hvað er það sem FBI, CIA og þingnefndir Bandaríkjaþings eru að rannsaka?
Í stórum dráttum snýst rannsóknin, eins og henni hefur verið lýst í fjölmiðlum hér í Bandaríkjunum, um að kafa ofan í gögn og sannanir sem nú liggja fyrir um tengsl milli Rússa og framboðs Donalds Trumps. Grunur leikur á því að Rússar hafi beitt sér, einkum með tölvuárásum - líkt og nú hefur verið sagt frá varðandi leyniþjónustu rússneska hersins - til að hafa áhrif á framgang kosninganna.
Því hefur verið heitið, að öllum steinum verði velt við í rannsókninni til að draga sannleikann fram. Hér að neðan eru nokkrir helstu þættirnir sem eru til rannsóknar, og líklegt er að verði ræddir í opinni yfirheyrslu Comeys.
Sessions dómsmálaráðherra hefur ákveðið að draga sig alveg frá því ef til þess kemur að dómsmálaráðuneyti hans fari að rannsaka tengsl framboðs Donalds Trumps við Rússa, en fyrir liggur þó að Comey var rekinn eftir rökstuðning frá ráðuneyti hans. Rannsóknin á Rússlandstengslunum var ekki nefnd sem ástæða, í rökstuðningi fyrir brottrekstrinum, en greinilegt er þó að rannsóknin er að valda miklum titringi í Hvíta húsinu.
Nú þegar hefur Michael Flynn, sem gegndi stöðu þjóðaröryggisráðgjafa, sagt af sér vegna tengsla sinna við Rússa, eins og áður segir.
Hann greindi Micheal Pence, varaforseta Bandaríkjanna, ekki frá því að hann hefði rætt um viðskiptaþvinganir á hendur Rússum við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, Sergey I. Kislyak. Sá maður hefur komið sér upp víðtækum tengslum við helsta bakland Trumps, og sat meðal annars fundi með Sergey Lavrov, utanríkisráðherra, í opinberri heimsókn hans í Hvíta húsið í síðasta mánuði.
Hinn 28. febrúar í fyrra var Sessions fyrsti þingmaður Repúblikana til að lýsa formlega yfir stuðningi við framboð Donalds Trumps.
Hinn 3. mars greindi Trump frá því að Sessions yrði aðalráðgjafi hans í öryggis- og varnarmálum í framboðinu.
Orðrómur um að tölvuárásir hafi átt sér stað á Demókrataflokkinn og helstu stjórnendur framboðs Hillary Clinton var staðfestur með yfirlýsingu 14. júní frá Demókrötum.
Hinn 18. júlí hitti Sessions sendiherra Rússa, fyrrnefndan Sergey I. Kislyak, á fundi, eftir aðalfund Repúblikana.
Fjórum dögum síðar, 22. júlí, eru tölvupóstar kosningastjóra Demókrata og Hillary Clinton, ásamt fleirum, birtir á vef Wikileaks.
Hinn 25. júlí lýsir bandaríska alríkislögreglan FBI því yfir að rannsókn sé hafin á tölvuárásunum. Sama dag segir Donald Trump í beinni útsendingu, í ræðu. „Rússar, ef þið eruð að hlusta, ég vona að þið getið birt eitthvað af þessum 30 þúsund tölvupóstum sem Hillary eyddi”.
Hinn 8. september hitti Sessions sendiherrann aftur, að þessu sinni á skrifstofu sinni í Washington D.C. Mánuði síðar lýsir Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, því yfir að Rússar séu að skipta sér af lýðræðislegum framgangi kosninga í Bandaríkjunum. Donald Trump er síðan kosinn Bandaríkjaforseti, 8. nóvember.
Hinn 29. desember bregst Obama við tölvuárásum Rússa með refsiaðgerðum og vísar rússneskum erindrekum úr landi.
Á svipuðum tíma ræddi Michael Flynn við Kislyak í síma, og þar voru meðal annars viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum til umfjöllunar. Símtalið var hlerað.
Hinn 10. janúar á þessu ári var Sessions í þinginu í Bandaríkjunum, og svaraði spurningum eiðsvarinn. Hann sagðist aldrei hafa verið í samskiptum við Rússa. Það var sum sé lygi.
Sessions er skipaður dómsmálaráðherra 8. febrúar.
Flynn segir af sér 13. febrúar.
Washington Post greinir frá því 1. mars að Sessions hefði átt fundi með sendiherra Rússa, þvert á það sem hann hafði áður haldið fram. Donald Trump lýsir strax yfir stuðningi við Sessions og segir um nornaveiðar að ræða. Hann hafi ekkert rangt gert.
Hinn 28. maí síðastliðinn birtust fréttir af því að Jared Kushner, tengdasonur Trumps og einn hans nánasti ráðgjafi, hafi hitt Kislyak á fundum skömmu eftir að Trump var kosinn forseti og óskað eftir því að leynileg samskiptaleið yrði búin til milli Hvíta hússins og Kreml. Kushner hefur ekki neitað fréttunum, og Trump hefur heldur ekki gert það beint, en sagt að rannsóknin á Rússatengslunum byggi ekki á neinu.
Kushner átti síðan einnig fundi með rússneskum bankamanni sem er meðal nánustu ráðgjafa Pútíns, en FBI hefur þegar framkvæmt húsleitir í höfuðstöðvum Repúblikana og lagt þar hendur á gögn sem mögulega geta sýnt fjárhagsleg tengsl við Rússa.
Skýrslugjöf Comeys á eftir að verða sögulegur viðburður í bandarískum stjórnmálum, óháð því hvernig framvinda mála verður eftir hana.