Án nokkurs vafa er það heimsmet að 17,6 prósent íbúa þjóðríkis kaupi sér Costco kort á innan við mánuði frá opnunardegi fyrstu verslunar fyrirtækisins í landinu. Í það minnsta 60 þúsund hafa nú keypt sér aðildarkort hjá fyrirtækinu (einstaklingar og fyrirtæki), á þeim rúmu tveimur vikum sem verslunarhús fyrirtækisins í Kauptúni hefur verið opið. Það opnaði með látum 23. maí.
Áhuginn á þessari bandarísku magninnkaupainnreið á íslenskan verslunarmarkað - þar sem meira að segja risavaxnir bronsútlítandi gíraffar seljast dýrum dómum - hefur verið nánast áþreifanlegur, eins og umræða á samfélagsmiðlum hefur sýnt glögglega. Tæplega 74 þúsund eru nú skráðir á Facebook síðuna Keypt í Costco Ísl. - Myndir og verð. Þar fær ýmislegt að flakka, en flest tengist það Costco með einum eða öðrum hætti.
Eins og bent var á í umfjöllun um innreið Costco á dögunum, á vef Kjarnans, þá gætu þessi miklu viðbrögð íslenskra neytenda og fyrirtækja við innkomu Costco, ýtt við forsvarsmönnum fyrirtækisins þegar kemur að opnun fleiri verslana. Hvort sem það er á höfuðborgarsvæðinu eða jafnvel Akureyri.
Þolinmæði og viðskiptasamband
Reynslan úr sögu fyrirtækisins sýnir þó að þolinmæði er dygð og meira er lagt upp úr því að styrkja viðskiptasambandið þannig, að aðildin að „Costco samfélaginu“ haldist til lengri tíma.
Tvo punkta, til viðbótar við þá þrjá sem nefnir voru í umfjöllun okkar á dögunum, má sérstaklega nefna sem áhrifamikla fyrir íslenska markaðinn og breytingar á honum sem framundan eru.
1. Costco er risi sem nýtur góðs af því þegar farið er inn á örmarkaði eins og þann íslenska. Fyrirtækið er ekki markaðsráðandi og getur því boðið lág verð á völdum vörum - eins og lágt bensínverð er til marks um - og komið sér fyrir á markaðnum á þeim forsendum. Þetta er sjaldgæf staða fyrir Costco að vera í, þar sem fyrirtækið starfar á rótgrónum stórum mörkuðum, fyrst og fremst. Höfuðstöðvarnar eru í Issaquah, á Seattle svæðinu.
Árlegur vöxtur markaðsvirðis fyrirtækisins hefur verið tæplega 15 prósent á ári í tuttugu ár og er verðmiðinn nú 75 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 7.500 milljörðum króna. Samtals rekur Costco 732 verslunarhús, og er gert ráð fyrir að þeim fjölgi jafnt og þétt á næstu misserum. Heildartekjur á ári voru í kringum 120 milljarðar Bandaríkjadala síðustu tólf mánuði, eða sem nemur um 12 þúsund milljörðum króna.
Í krafti þessarar miklu stærðar, getur Costco haft mikil áhrif á verslunarrekstur almennt, og ýtt af stað breytingum sem ekki hafa komið fram á íslenskum verslunarmarkaði, en hafa verið áberandi víða erlendis. Fyrirtæki, ekki síst í verslun, hafa freistað þess að ná betur „utan um“ viðskiptavini sína með áskriftarþjónustu og vildarkjörum af ýmsu tagi. Þetta hefur verið léttvægt atriði á íslenskum verslunarmarkaði til þessa, en því hefur nú verið breytt - eins og hendi sé veifað - varanlega. Þegar yfir 50 þúsund eru farin að greiða reglulega til einhvers aðila á markaðnum, þá verður ekki aftur snúið.
2. Samfélagshugsun í verslunar- og afþreyingariðnaði hefur verið afar fyrirferðamikil í Bandaríkjunum á undanförnum árum. Langsamlega verðmætasti smásöluaðili heimsins, Amazon (sem einnig er með höfuðstöðvar á Seattle-svæðinu), hefur leitt þessa þróun með uppbyggingu á Amazon Prime samfélagi sínu. Það er mikið hernaðarleyndarmál hversu margir eru í áskrift hjá fyrirtækinu, en greinendur hafa verið að reikna sig niður á það að þeir séu nú um 80 milljónir, samkvæmt uppgjörum fyrirtækisins. Þetta jafngildir fjölda þeirra sem annast innkaup á öllum Norðurlöndunum, Þýskalandi og stórum hluta af öllum viðskiptavinum í Norður-Evrópu. Tæplega 480 milljarða Bandaríkjadala verðmiði fyrirtækisins, eða sem nemur um 48 þúsund milljörðum króna, byggir ekki síst á því að fjárfestar telja mikil sóknarfæri felast í þessari uppbyggingu viðskipta.
Margfeldisáhrifin af hverjum áskrifanda eru mikil, og gögnin sem fyrirtækið fær fram, með því að fylgjast vel með verslun sinna áskrifenda, gefa því færi á því að greina nákvæmlega neyslumynstur. Þetta styrkir síðan áætlanir til framtíðar, vaxtaáform og greiningar á tækifærum. Stór hluti áskrifenda Amazon er í Bandaríkjunum, en sóknaráætlanir gera ráð fyrir hálfgerðum heimsyfirráðum í netverslun.
Costco hins vegar, vill verða risinn í magninnkaupum heimila og fyrirtækja, þar sem vörurnar eru sóttar í vöruhús af kaupendunum sjálfum. Það má segja að þetta sé hinn endinn á áskriftarhugsuninni sem Amazon hefur byggt upp frá stofnun. Að þessu leyti er Costco-hugsunin engin tilviljun, og hún er í seinn einföld og útpæld.
Íslensk verslunarfyrirtæki hafa vanrækt þetta árum saman, líklega vegna ónægrar samkeppni. Hugtakið samkeppni nær ekki aðeins til verðsamanburðar heldur líka til upplifunar og þess hvernig þjónustan er þróuð gagnvart viðskiptavinum. Íslensku verslunarfyrirtækin eiga nú næsta leik. Hvernig ætla þau að bregðast við?
Á undanförnum áratug hefur áskriftarhugsunin í afþreyingariðnaði á internetinu farið mikla sigurför á mörkuðum. Hjá Amazon hafa Prime-áskrifendur aðgang að kvikmyndum, þáttum og tónlist. Þessi þáttur starfeseminnar er vaxandi og samkeppnin hörð.
Heildarfjöldi Netflix áskrifenda er nú kominn yfir 100 milljónir á heimsvísu, Spotify er með 55 milljónir og Apple Music, með yfir 20 milljónir, fyrir utan allan þann fjölda sem verslar í iTunes.
Þessi áskriftar-hugsun ristir djúpt í bæði verslun og afþreyingu, eins og áður segir. Hún hefur nú komið eins og stormsveipur inn á íslenskan verslunarmarkað, og líklegt að hún eigi eftir að rótfestast enn betur. Þar sem íslensk verslunarfyrirtæki hafa ekki val um annað en að velta við öllum steinum, og reyna að bjóða enn betri þjónustu við viðskiptavini.