Vextir á breytilegum íbúðalánum hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru nú 3,06 prósent. Vextirnir á lánunum sem sjóðurinn býður upp á taka breytingum 15. hvers mánaðar og ákvarðast þannig að þeir eru 0,75 prósent hærri en meðalávöxtun síðasta mánaðar á ákveðnum flokki íbúðabréfa, sem skráður er í kauphöll Nasdaq OMX. Lækkun meginvaxta Seðlabanka Íslands skilar sér því nær alltaf beint í lækkun breytilegra vaxta í sjóðfélagslánum hans, en slíkir vextir voru lækkaðir um 0,25 prósent í gær. Þeir vextir sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna er að bjóða sínum sjóðsfélögum eru lægstu vexti sem hægt er að fá á verðtryggðum íbúðalánum á Íslandi í dag.
Ýmsir aðrir lífeyrissjóðir bjóða líka upp á mjög samkeppnishæfa vexti. Þannig eru breytilegir vextir lána hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) t.d. nú 3,26 prósent og hjá Gildi eru þeir 3,35 prósent. Vert er að taka fram að sjóðirnir bjóða upp á mismunandi veðhlutfall. LSR býður upp á allt að 75 prósent veðhlutfall en Gildi upp að 65 prósent. Lífeyrissjóður verzlunarmanna bauð upp á 75 prósent veðhlutfall þar til í síðasta mánuði þegar það var lækkað niður í 70 prósent, vegna mikilla hækkana á húsnæðismarkaði. Samhliða tilkynnti sjóðurinn að hann miði ekki lengur við matsverð fasteigna við útreikninga útlána heldur einungis við markaðsverð samkvæmt kaupsamningi eða fasteignamat. Það gerir það að verkum að erfiðara verður fyrir ýmsa, sérstaklega þá sem eru að kaupa fyrstu fasteign, að taka lán hjá sjóðnum.
Íslensku viðskiptabankarnir geta ekki boðið upp á sambærileg kjör og lífeyrissjóðirnir. Á „stóru“ lánum þeirra, sem veitt eru á skaplegri vöxtum upp að 70 prósent veðhlutfalli, eru lægstu breytilegu vextir 3,65 prósent hjá Landsbankanum og Arion banka. Íslandsbanki býður ekki upp á breytilega vexti en þar er hægt að fá fasta verðtryggða vexti til fimm ára á 3,95 prósent kjörum.
Segja bankaskatt rýra eignir ríkisins
Lífeyrissjóðir landsins hafa verið að taka til sín sífellt stærri hluta af íbúðalánamarkaðnum á undanförnum mánuðum og árum. Um það verður fjallað sérstaklega á Kjarnanum á morgun. Það hafa þeir m.a. gert með því að hækka veðhlutfallið sitt og bjóða upp á mun betri kjör á bæði verðtryggðum og óverðtryggðum lánum en viðskiptabankarnir hafa getað boðið upp á. Þeir hafa haldið því fram að bankaskattur, og önnur sértæk skattlagning sem viðskiptabönkum er gert að greiða en aðrir lánveitendur á borð við lífeyrissjóði þurfa ekki að greiða, skipti þar sköpum. Í umsögn sem Samtök fjármálafyrirtækja sendu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í maí í fyrra beindu samtökin því til Alþingis að lífeyrissjóðum ætti að vera óheimilt að lána til einstaklinga og fyrirtækja og kölluðu beinar lánveitingar sjóðanna „skuggabankastarfsemi“.
Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna og fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði í sjónvarpsþætti Kjarnans fyrir rúmum mánuði síðan að viðskiptabankarnir standi ekki jafnfætis lífeyrissjóðum þegar kemur að útlánum vegna þess að bankaskatturinn er bara lagður á banka. Það sama eigi við gagnvart erlendum lánveitendum, sem séu aftur orðnir mjög sterkir hjá stóru fyrirtækjunum á Íslandi.
„Þannig að samkeppnisstaða bankanna hefur skekkst mjög mikið og þetta getur til lengri tíma haft mjög alvarleg áhrif á eignasöfn þessara banka og við skulum þá ekki gleyma því að bankarnir eru í eigu ríkisins og skattborgaranna að tveimur þriðju hluta til. Þannig að virði eigna skattborgaranna í þessu tilviki eru og geta rýrnað þegar til lengri tíma lætur ef þessi skattur heldur áfram vegna þess að samkeppnisstaðan er ekki sú sama,“ sagði Katrín. Þetta muni hafa áhrif á arðgreiðslur og á virði þessara eigna sem séu í eigna ríkisins í dag.