Óhætt er að segja að efnahagsleg staða Íslands hafi breyst mikið á undanförnum árum, og þá til hins betra. Mörg einkenni þenslu sjást greinilega þessi misserin, en á sama tíma hefur skuldastaða hins opinbera og heimilanna batnað verulega.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að lækka meginvexti úr 4,75 prósent í 4,5 prósent. Spár greinenda höfðu gert ráð fyrir að vextir myndu annaðhvort lækka eða standa í stað. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að útlit sé fyrir áframhaldandi kröftugan hagvöxt. „Skýr merki um spennu í þjóðarbúskapnum kalla á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Hækkun raunvaxta bankans frá síðasta fundi peningastefnunefndar felur hins vegar í sér nokkru meira aðhald en nefndin hafði stefnt að og telur nægilegt til þess að stuðla að verðstöðugleika,“ segir í yfirlýsingunni.
En hvaða þættir eru mest einkennandi fyrir þjóðarbúskapinn þessi misserin, og hvernig stendur Ísland í alþjóðlegu samhengi?
Samantekið í fimm þætti:
1. Skuldastaða íslenska ríkisins hefur batnað hratt undanfarin misseri. Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, þá nema heildarskuldir ríkisins 69,5% af áætlaðri landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi 2017. Hlutfallið er það lægsta frá hruni, en það hefur stöðugt lækkað frá fjórða ársfjórðungi 2014. Samkvæmt fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2018 til 2022 er gert ráð fyrir að skuldirnir muni lækka enn meira og verði komnar undir 60 prósent hlutfall á næsta ári.
2. Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent markmiði Seðlabankans í meira en 40 mánuði í röð og mælist nú 1,7 prósent. Ytri verðbólgu skilyrði hafa verið hagfelld Íslandi, þar sem olíuverð hefur haldist lágt og þá hefur mikil styrking krónunnar ýtt innfluttum verðbólguþrýstingi niður. Það sem heldur lífi í verðbólgunni, ef svo má segja, eru miklar hækkanir fasteignaverðs, en hvergi í heiminum hefur húsnæðisverð hækkað eins mikið og á Íslandi undanfarin misseri. Hækkunin undanfarna tólf mánuði, á höfuðborgarsvæðinu, nemur um 20 prósent, og gera flestar spár ráð fyrir áframhaldandi hækkunum, þó líklegt sé að eitthvað róist á markaðnum. Framboð af eignum er takmarkað og hefur það leitt til mikillar spennu á markaðnum, þar sem eftirspurn er mikil.
3. Að undanförnu hafa sést merki um að framboðsskortur á íbúðum sé farinn að stuðla að því að viðskipti eru færri nú með íbúðir, en þau hafa verið undanfarin ár. Í hagsjá Landsbankans segir að samfelld aukning hafi verið á árunum 2009 til 2016, en á þessu ári sést að velta í fasteignaviðskiptum er að minnka. Haldi kaupmáttaraukningin áfram, þá gæti spenna á markaðnum aukist enn og ljóst að uppbyggingin á frekari eignum er að í kappi við tímann, svo að ójafnvægi skapi ekki meiri vanda.
4. Í fyrra var afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum 155 milljarðar króna, en útlit er fyrir að hann verði jafnvel enn meiri á þessu ári, eða um 160 milljarðar króna. Það sem mestu skiptir í þessu samhengi er hinn mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustu, en spár gera ráð fyrir að erlendum ferðamönnum muni fjölga um 500 þúsund á þessu ári. Í fyrra voru þeir 1,8 milljónir en í ár verða þeir 2,3 milljónir.
5. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði eftir vaxtaákvörðunina í morgun að líklega hefði staða efnhagsmála aldrei verið betri í Íslandssögunni. Nefndi hann þar nokkur atriði. Skuldir við útlönd eru minni eignir þar, atvinnuleysi er lítið sem ekkert (3 prósent), eigið fé í bankakerfinu væri mikið og traust, gjaldeyrisforðinn stór, mikill afgangur á viðskiptum við útlödn, lífskjör væru að batna hratt og skuldastaða hins opinbera hefði styrkst. „Ég man ekki eftir að þetta hafi verið svona,“ sagði Már. Síðan sagði hann að í alþjóðlegu samhengi væri staða Íslands góð, þar sem helstu viðfangsefnin væru þau að glíma við mikla spennu, frekar en að örva hagvöxt með stuðningsaðgerðum.