Þrátt fyrir mikinn vöxt í komu ferðamanna það sem af er þá benda nýjustu tölur til þess að umtalsverðar breytingar séu að verða á ferða- og neysluvenjum ferðamanna hingað til lands, frá því sem hefur verið undanfarin ár. Margt bendir einnig til þess að töluverð styrking krónunnar undanfarin misseri, gagnvart helstu viðskiptamyntum, sé farin að hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna.
Kaldari maí
Í maí var vöxturinn í kortaveltu 7,1 prósent, miðað við sama mánuð í fyrra, en á fyrstu mánuðum ársins var vöxturinn á bilinu 25 til 49 prósent, miðað við árið á undan.
Í umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar segir að fastlega megi búast við því að ástæða minni kortaveltu megi rekja til sterkari gengis krónunnar.
Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Í verslun dróst greiðslukortavelta verslunar saman um 4,7% frá fyrra ári, úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí á þessu ári. Kortavelta í gjafa- og minjagripaverslun dróst saman um 18,9%, fataverslun dróst saman um 5,9%, tollfrjáls verslun um 7,4% og önnur verslun um 10,9%, að því er fram kemur í umfjöllun Rannsóknarseturs verslunarinnar.
Bretar koma síður
Nýjustu tölur Ferðamálastofu sýna að ferðaþjónustan er orðin verulega háð ferðamönnum frá Bandaríkjunum, en af um 146 þúsund ferðamönnum sem komu til landsins í maí voru 43 þúsund frá Bandaríkjunum. Næsta land þar á eftir er Bretland, en þaðan komu 11.400 ferðamenn í maí, sem er 28 prósent minnkun frá því árið á undan. Bretland var lengi vel stærsta einstaka landið í komum ferðamanna til landsins, en í maí komu næstum fjórfalt fleiri frá Bandaríkjunum.
Mikil breyting hefur orðið á gengi krónunnar gagnvart pundinu á undanförnu ári og má segja að langsamlega áhrifamesti atburðurinn í þeirri þróun hafi verið Brexit-kosningin í fyrra sumar, en frá þeim tíma hefur pundið veikst umtalsvert. Það kostar nú tæplega 130 krónur en skömmu fyrir kosninguna kostaði það 206 krónur. Þessi mikla verðhækkun, í huga ferðamanna, hefur eðlilega dregið úr eftirspurn, en erfitt er að segja til um hvort þessi þróun er komin til að vera.
Hvað gerist á háannatímanum?
Þrátt fyrir allt, þá hefur fjölgunin verið mikil á þessu ári, miðað við metárið í fyrra. Samtals hafa 752 þúsund erlendir ferðamenn heimsótt landið, en það er meira en allt árið 2011, svo dæmi sé tekið. Í fyrra komu 1,8 milljónir ferðamanna til landsins en spár greinenda hafa flestar gert ráð fyrir að þeir verði 2,3 milljónir á þessu ári.
Það er frekar á landsbyggðinni sem fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa fundið fyrir samdrætti en á höfuðborgarsvæðinu, en svo virðist sem ferðamenn séu að ferðast minna um landið nú en áður. Háannatíminn er þó framundan, í júlí og ágúst, og sést oft eftir þann tíma hvernig staða mála verður.