Tilboð þriggja vogunarsjóða og bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs í stóran hlut í Arion banka var samþykkt á stjórnarfundum Kaupþings ehf. og Kaupskila ehf. þann 12. febrúar 2017. Tveimur dögum síðar, 14. febrúar, barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu erindi um staðfestingu á að salan myndi ekki valda neikvæðum áhrifum á fjármálastöðugleika eða stöðugleika í gengis- og peningamálum. Ráðuneytið svaraði erindinu 27. febrúar og veitti þar umbeðna staðfestingu. Það er mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að kauptilboðið uppfyllti ekki þau skilyrði sem kveðið var á um í samningum um virkjun forkaupsréttar ríkisins. Því gæti ríkið ekki gengið inn í kaupin.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem fyrirspurn nefndarinnar frá því í mars um nýtingu forkaupsréttar ríkisins í tengslum við söluna er svarað.
Ekki var tilkynnt um söluna opinberlega fyrr en 19. mars 2017, en alls keypti vogunarsjóðirnir og Goldman Sachs 29,18 prósent hlut í Arion banka auk þess sem þeir eiga kauprétt á 21,9 prósent hlut.
Kjarninn hefur fengið aðgang að bréfaskriftum og gögnum vegna sölunnar. Þau bréf og gögn sem um ræðir eru:
Bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins til Kaupþings 27. febrúar 2017.
Minnisblað fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem fyrirspurn efnahags- og viðskiptanefndar í tengslum við sölu á hlut í Arion banka 20. júní 2017.
Seldu sjálfum sér Arion banka
Í mars var tilkynnt að fjórir aðilar, vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefðu keypt samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna. Verðið sem greitt var fyrir er um 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka.
Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaupþing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Ef það myndi ekki takast myndi ríkissjóður leysa bankann til sín.
Þeir aðilar sem keyptu hlutinn í Arion banka eru líka stærstu eigendur seljandans, Kaupþings. Samtals eiga þeir 66,31 prósent í félaginu. Þeir voru því að selja sjálfum sér hlutinn í Arion banka.
Minnihluti nefndar gagnrýndi málið harðlega
Kaupin hafa verið tortryggð víða, meðal annars af efnahags- og viðskiptanefnd. Hún hefur verið að kalla eftir svörum um ýmsa þætti málsins. Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að minnihluti nefndarinnar telji að Fjármálaeftirlitið þurfi að skýra betur rökstuðning sinn fyrir því að enginn nýrra hluthafa Arion banka fari með virkan eignarhlut í bankanum. Minnihlutinn gagnrýndi einnig í bókun sinni að Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi fagnað því opinberlega að seldir hefðu verið hlutir í Arion banka til ofangreindra aðila. Í bókuninni segir að það hafi þeir gert án þess að gera sér „grein fyrir því hverjir hinir nýju eigendur væru eða hvort það kæmi betur út fyrir ríkissjóð að ganga inn í kaupin eða ekki. Það er afar gagnrýnisvert að mati minni hluta nefndarinnar, einkum nú þegar mjög brýnt er að gagnsæi ríki í tengslum við söluferlið á Arion banka hf. til að auka traust og tiltrú á íslensku fjármálakerfi og fjármálamarkaði.
Minni hlutinn gagnrýndi enn fremur að hafa ekki fengið fullnægjandi gögn varðandi staðfest mat fjármála- og efnahagsráðherra á því hvort kaupverðið á hlutum í Arion banka hf. væri undir eða yfir því marki sem þyrfti til að virkja forkaupsrétt íslenska ríkisins.“
Gerðu tilboð daginn fyrir birtingu ársreiknings
Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem er dagsett 20. júní og var sent til nefndarinnar segir að ráðuneytið hafi metið sem svo að það gæti ekki gengið inn í tilboðið.
Þar segir að tilboð sjóðanna þriggja og Goldman Sachs hafi verið samþykkt á stjórnarfundum Kaupþings ehf. og Kaupskila ehf. 12. febrúar 2017. Tilboðið hljóðaði upp á 83,811 krónur á hlut miðað við síðasta endurskoðaða ársuppgjör, sem var fyrir árið 2015. Óendurskoðað uppgjör Arion banka vegna fyrstu níu mánaða ársins 2016 var haft til hliðsjónar líka. Þar er bókfært eigið fé 206,9 milljarðar króna eða 103,5 krónur á hlut. Kaupverðið var því 81 prósent af virði hvers hluta miðað við bókfært eigið fé, eða 83,811 krónur á hlut.
Kauprétturinn (sem virkaðist ef virðið væri 80 prósent eða minna af bókfærðu eigin fé) hefði virkjast ef tilboðið hefði verið 77,1 krónur eða lægra. Tilboðið var því rétt yfir því sem til þurfti til að kaupréttur ríkisins myndi virkjast.
Það sem hefur þótt athugunarvert við þetta er að tilboð sjóðanna var samþykkt daginn áður en að endurskoðaður ársreikningur fyrir árið 2016 var birtur, en það gerðist 13. febrúar 2017. Ef það hefði verið gert degi síðar hefði kaupréttur ríkisins virkjast, því verðið hefði þá verið undir 80 prósent af bókfærðu fé Arion banka.