Samkvæmt upplýsingum samtaka evrópskra kaffiframleiðenda eru Finnar mestu kaffiþambarar í Evrópu (12 kíló á mann á ári), síðan koma Austurríkismenn (9 kíló) og Danir eru í þriðja sæti í kaffineyslunni (8.6 kíló). Meðaltal í Evrópu er 4 kíló á mann. Rétt er að taka fram að Luxemborg og Ísland eru ekki með í þessum tölum, vegna smæðar.
Samkvæmt upplýsingum samtaka danskra kaffiframleiðenda hefur sala á kaffi í verslunum dregist nokkuð saman en viðskiptavinir sækjast í auknum mæli eftir dýrara kaffi en áður. Kaffilögun í heimahúsum hefur minnkað um 22 prósent á nokkrum árum en hins vegar hafa viðskiptin á kaffihúsum, bensínstöðvum og ýmsum stöðum sem selja „kaffi á fartinni“ (coffee to go) margfaldast. Venjulegt danskt heimili ver að jafnaði 1200 krónum (tæpum 19 þúsund íslenskum krónum) á ári til kaupa á kaffi sem notað er á heimilinu. Samtals tæp 24 þúsund tonn á síðasta ári sem er ívið minna en árið áður. Sala á svonefndu skyndikaffi (instant) jókst um tæp 3 prósent , sala á lífrænt ræktuðu kaffi jókst líka um 3 prósent.
Kaffifróðari og kröfuharðari kúnnar
Fyrir nokkrum árum bauð Coop, sem er næst stærsta verslanasamsteypa Danmerkur, 200 mismunandi kaffivörur en nú eru kaffivörurnar í boði hjá Coop 400 talsins. Kaffisérfræðingur Coop segir að kröfur viðskiptavinanna aukist stöðugt, nú sé ekki lengur spurning um gróf- eða fínmalað, mikið eða lítið ristað eins og áður var. „Kaffi er ekki lengur bara kaffi“.
„Fínni frúr“ drukku kaffi á átjándu öld
Kaffi barst fyrst til Danmerkur laust upp úr 1660. Kaffidrykkja varð ekki strax útbreiddur siður en í heimildum má lesa að „fínni frúr“ hefðu hist til að drekka kaffi og spjalla á átjándu öld. Kaffidrykkja varð smám saman útbreiddari meðal Dana og þegar kom fram undir síðari heimsstyrjöld voru Danir komnir í hóp mestu kaffiþjóða heims. Nokkuð dró úr kaffidrykkjunni á stríðsárunum, framboð af kaffi var takmarkað og þótt margir létu sig hafa það að drekka kaffi sem gert var úr sikkorírót (Íslendingar kölluðu þetta ýmist export eða kaffibæti, rótsterkt var sagt) jafnaðist það ekki á við alvöru og ekta kaffi. Eftir að stríðinu lauk jókst kaffineyslan á ný.
Madam Blå
Ekki er hægt að fjalla um kaffidrykkju Dana án þess að minnast á frægustu kaffikönnu sem sögur fara af, í Danmörku. Þetta er Madam Blå, eins og hún var kölluð. Blá kanna, emileruð með sveigðum stút og kaffipokinn úr bómull, fjölnota. Vatnið hitað í katli eða potti og svo hellt yfir kaffið í pokanum, sem gjarna var gerður úr gömlum nærbol. Þessi kaffikanna, sem var framleidd í Danmörku kom á markaðinn árið 1895, og seldist vel. Árið 1900 voru daglega framleiddar 1000 könnur! Kannan var fáanleg í 18 stærðum, sú minnsta fyrir 1 bolla, sú stærsta 50 bolla. Framleiðslunni á Madam Blå var hætt árið 1966 en þá voru sjálfvirkar uppáhellingakönnur, einsog þær voru kallaðar, orðnar algengar. Það var þýska fyrirtækið Wigoman sem árið 1954 framleiddi fyrstu sjálfvirku könnurnar þar sem rafmagnselement hitaði vatnið. Nokkrum árum síðar komu svo stimpilkönnurnar, eða pressukönnurnar, svonefndu. Madam Blå könnur eru í dag safngripir og gjarna hafðar á hillum í eldhúsi, til skrauts.
Kaffibylting
Óhætt er að segja að á síðustu fimmtán til tuttugu árum hafi orðið hálfgerð kaffibylting. Óteljandi tegundir kaffivéla hafa komið á markaðinn. Sumar mala baunirnar og hita mjólkina og nýjasta nýtt í þessum efnum eru hinar svonefndu Nespresso vélar, þar er kaffið í formi síróps í litlum álboxum, margar bragðtegundir. Uppáhellingarvélarnar hafa þó alltaf átt sína dyggu aðdáendur og þrátt fyrir allar nýjungarnar hefur sala á þeim aukist mikið að undanförnu.
Helmingur Dana vill uppáhellt
Í nýlegri danskri könnun kom í ljós að 52 prósent Dana vilja helst uppáhellt kaffi, 15 prósent vilja kaffi úr pressukönnu, 12 prósent vilja helst expressokaffi úr þartilgerðri vél, 11 prósent eru hrifnust af álboxakaffinu (nespresso) og 8 prósent vilja duftkaffi (neskaffi) 2 prósent höfðu enga skoðun.
Þrír af hverjum fjórum Dönum drekka kaffi, aðeins fleiri karlar en konur eru í þeim hópi. Að jafnaði drekka Danir fjóra kaffibolla daglega. Í könnun um kaffidrykkjuvenjur var spurt „ef þú mættir einungis drekka einn kaffibolla á dag, hvaða tíma dags mundirðu velja.“ Helmingur Dana svaraði því til að þá yrði morguninn fyrir valinu. Fimmti hver Dani drekkur kvöldkaffi, íbúar Vestur-Jótlands eru meira fyrir kvöldsopann en fólk í öðrum landshlutum. Helmingur Dana drekkur kaffið svart og sykurlaust.
Loks má geta þess að í fyrra seldust tæplega 230 þúsund kaffivélar í Danmörku, örlítið fleiri en árið áður.